11.03.1965
Neðri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

138. mál, læknaskipunarlög

Jón Skaftason:

Herra forseti. Í umr. um mál þetta hefur það borið á góma, að um 80–90 íslenzkir læknar væru nú starfandi erlendis. Það hefur verið minnt á það, að læknar þessir nytu hér ókeypis skólavistar, námslána og jafnvel námsstyrkja og þess vegna sýndi það litla þjóðhollustu, að þeir skyldu að námi loknu setjast að erlendis og nota sína kunnáttu þar, en ekki vera hér heima. Þar sem ég þekki persónulega fjölda þeirra lækna, sem starfa nú erlendis, sumir þeirra voru skólabræður mínir í menntaskóla og aðrir í háskólanum og ég stend í bréfasambandi við nokkra þeirra enn í dag, einmitt um þessi mál, þá langar mig til þess að láta koma fram hér við þessar umr. sjónarmið, sem gæti skýrt fjarveru þessara manna hér af landi, — sjónarmið, sem ekki hefur verið haldið fram í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað um frv.

Eins og tekið hefur verið fram í þessum umr., hafa ýmsir læknar að loknu námi hér við háskólann farið til útlanda til þess að afla sér framhaldsmenntunar og dvalið þar stundum við framhaldsnám 3–4 ár. Þegar þessir læknar eru búnir að afla sér þessarar framhaldsmenntunar, þurfa þeir að sjálfsögðu að hafa skilyrði á sjúkrahúsum til þess að geta unnið, þannig að sú sérfræðimenntun, sem þeir hafa verið að leggja sig eftir að afla, komi þeim að notum. Ég fullyrði það, að meginástæðan til þess, að margir þeirra lækna, sem dvalizt hafa erlendis við framhaldsnám, eru nú búsettir ytra, er einungis sú, að þeir fá ekki þá aðstöðu við sjúkrahúsin í landinu, sem sérfræðikunnátta þeirra krefst. Ég fullyrði, að launaspursmálið er ekki aðalatriðið í sambandi við þessa mjög svo menntuðu lækna. Til þess að sýna þetta langar mig til þess að lesa örstuttan kafla upp úr bréfi frá einum íslenzkum lækni, sem aflað hefur sér framhaldsmenntunar og hefur nú dvalizt og starfað erlendis um 10 ára skeið. Mér er kunnugt um það, að þessi læknir vill ekkert frekar en flytja hingað til landsins og geta sinnt sínum læknisstörfum við það verkefni að hjúkra Íslendingum, en hann á þess engan kost, vegna þess að við ekkert þeirra sjúkrahúsa, sem til eru í landinu, eru aðstæður, sem hæfa hans menntun. Með leyfi forseta, segir þessi læknir þannig í bréfi:

„Ég hef m.a. ópererað eina konu, sem var heyrnarlaus á öðru eyra af völdum sjúkdóms, sem heitir „audoskeleros“ og þjáir 3%o af fólki jarðar. Var hún alheil eftir á. Þetta þýðir, að heima á Íslandi eru um 750 manna með þennan sjúkdóm, meira eða minna langt genginn, hafandi enga von um „óperatíva“ hjálp, þar sem enginn á Íslandi getur ópererað þessa sjúklinga. Maður getur vissulega hengt á þá heyrnartæki, en fylgikvillana, eins og svima og suð í eyranum, bætir maður skiljanlega ekki á þennan hátt. Slíkt hverfur aftur á móti við uppskurð. Þetta m.a. hefur knúið mig til þess að skrifa þetta bréf. Ég hef lengi beðið óþolinmóður eftir, að eitthvað heyrðist frá læknum heima eða hinu háa Alþ. viðvíkjandi lausn á vandamálum heyrnardaufra og blindra, en án árangurs.“ Og áfram segir þessi læknir: „Vel menntaður háls-, nef- og eyrnalæknir hér úti fæst við alla kírúrgíska sjúkdóma og óperasjónir, sem fyrirfinnast, ekki bara í eyrum, heldur í kjálkum, munni, hálsi, bæði innri og ytri hálsi, rannsakar lungun með sérstökum lýsingartækjum innan frá, lagar öll andlitsbrot o.fl., o.fl. Þetta er sem sé mjög yfirgripsmikið sérgreinarsvið. Hér í Svíþjóð finnst minnst ein klínik í hverju léni fyrir þessa sjúkdóma og er áætlað, að ein deild með um 30 sængum nægi fyrir 150 þús. íbúa. Þetta þýðir, að ein deild í Reykjavík með 30 plássum og ein á Akureyri með 10 mundu nægja handa landsmönnum öllum.“

Ég ætla ekki að lesa meira upp úr bréfinu, þess er ekki þörf, en mér þykir ástæða til í sambandi við þær umr., sem hér hafa verið um þetta frv., að láta þetta sjónarmið koma fram, því að eftir því sem ég hef bezt heyrt, hefur alveg verið yfir því þagað sem ástæðu fyrir fjarvist íslenzkra lækna af landinu.

Ég er ekki með þessum fáu orðum að ásaka einn eða neinn um það, að ástand eða útbúnaður sjúkrahúsa okkar sé ekki betri, en raun ber vitni. Mér er það fyllilega ljóst, að við erum fámenn þjóð og eigum við mikil vandamál að etja og í sambandi við heilbrigðisþjónustuna, eins og svo margt annað hér í landinu, eigum við mörg og mikil verkefni óunnin. Mér er þetta alveg fyllilega ljóst. En hitt gerir ekki til, að á þetta atriði sé bent og reynt að vekja athygli á því, að í landinu eru sjúkir einstaklingar, svo að hundruðum skiptir, bæði í þéttbýli og eins í strjálbýli, sem enga aðstöðu hafa til þess að leita lækninga hér á landi, vegna þess að hér eru ekki þeir sérfræðingar, sem geti veitt þá lækningu, sem dugir og ástæðan í flestum tilfellum til þess, að svo er, er sú, að sjúkrahúsin hafa ekki upp á þá aðstöðu að bjóða hér heima, sem þeir þurfa að fá og er skilyrði til þess, að þeir geti notað sína miklu og dýru menntun.