01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

138. mál, læknaskipunarlög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í tilefni af brtt. hv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, um námslaun til handa stúdentum í læknadeild. Ég hef áður látið í ljós við þessa umr., að ég er hv. þm. sammála um, að brýna nauðsyn beri til þess að bæta aðstöðu stúdenta við Háskóla Íslands og íslenzkra stúdenta við erlenda háskóla frá því, sem nú er. Og mig minnir, að ég hafi einnig látið þess getið, að gildandi lög um lánasjóð íslenzkra námsmanna frá 1961 eru í endurskoðun. Þeirri endurskoðun er að verða lokið og ég geri ráð fyrir því, að hægt verði að leggja fyrir hið háa Alþ. frv. að nýjum lögum um stuðning við íslenzka námsmenn heima og erlendis, þegar Alþ. kemur saman í haust. Ég efndi til þessarar endurskoðunar fyrir um það bil ári einmitt vegna þess, að ég taldi vera orðið tímabært að auka enn stuðning við íslenzka námsmenn heima og erlendis frá því, sem nú er. Og eitt af þeim atriðum, sem sérstaklega hefur þar verið um fjallað og tekið til úrlausnar er, með hverjum hætti bæta megi aðstöðu þeirra stúdenta, sem stunda læknisfræðinám við Háskóla Íslands, frá því, sem nú er. Í því sambandi vil ég aðeins undirstrika það, sem ég hef sagt áður við þessa umr., að ég tel það vera aukaatriði í þessu sambandi, hvort styrkurinn eða stuðningurinn við námsmennina er kallaður námslaun eða styrkur eða hann er í formi námslána. Aðalatriðið er, að stuðningurinn í því formi, sem honum er valið, sé nægjanlegur til þess að gera námsmönnum kleift að stunda það nám, hvort sem er heima eða erlendis, sem hugur þeirra stendur til og þjóðfélagið hefur fyllstu þörf fyrir. En í þessu sambandi langar mig til þess, að það komi fram, að ég er ekki alveg viss um, að hv. alþm., hvað þá almenningur, geri sér ljóst, hversu stuðningur við íslenzka stúdenta heima og erlendis hefur verið aukinn stórkostlega mikið á undanförnum árum og þess vegna held ég, að það sé gagnlegt, að ég geri hér örstutta grein fyrir því, hversu miklu fé hefur verið varið til námslána og styrkja undanfarin 15 ár og ég lesi yfirlit yfir það fé, sem varið hefur verið í þessu skyni, lengst af einungis skv. fjárveitingum á fjárl., en nú hin síðari ár, hin síðustu 5 ár, einnig af fé, sem bankakerfið hefur lánað lánasjóði íslenzkra námsmanna og hann síðan endurlánað með mjög hagstæðum kjörum til námsmanna. En áður en ég les þessa skýrslu, er rétt að geta aðalatriðanna í því kerfi, sem ríkir nú.

Það má segja að áður, en núverandi stefna var tekin upp í lánamálum og styrkmálum íslenzkra námsmanna heima og erlendis, þá var styrkurinn eða lánin til hvers einstaks stúdents sáralitið, aðeins nokkur þúsund krónur á ári til hvers námsmanns. En með gildandi lögum, sem sett voru 1961, má segja, að alger bylting verði í opinberum stuðningi við námsmenn heima og erlendis. Nú er tilhögunin sú og hefur í rauninni verið mjög lengi, að stúdentar við Háskóla Íslands fá námslán, en yfirleitt ekki fyrr en eftir fjögurra missira nám í háskólanum. Námsmenn erlendis eru að því leyti betur settir, að þeir eiga kost á námsláni þegar á fyrsta námsári sínu erlendis, en þegar þeir hafa stundað nám í tvö ár, geta þeir einnig hlotið beinan fjárstyrk til námsins. Auk þess er úthlutað árlega sjö svonefndum „stórum styrkjum“ til stúdenta, hvort sem þeir stunda nám heima eða erlendis, milli 40 og 50 þús. kr. á nemanda og eru það fastir styrkir til þessara sjö nemenda í fimm ár. Þetta eru megindrættir kerfisins, sem nú gildir. Og þá er rétt, að ég greini hv. d. frá því, hverju fé hefur verið varið til þessara mála s. 1. 15 ár eða frá 1950.

Fé það, sem þá var til ráðstöfunar til styrkja og námslána, þá að langmestu leyti til beinna styrkja, var 1 millj. og 75 þús. kr. 1951 hækkaði upphæðin upp í 1.275 þús. kr. 1952 var hún sú sama. 1953 er upphæðin 1 millj. 575 þús. kr. 1954 1 millj. 775 þús. kr., 1955 hin sama. Árin 1956, 1957 og 1958 var upphæðin óbreytt, 1 millj. 925 þús. kr. 1959 er hún aukin verulega, í 3 millj. kr. 1960 er hún enn aukin gífurlega, meira en tvöfölduð, í 6 millj. 595 þús. kr., og þá er komin til framkvæmda sú stefnubreyting, að mestur hluti fjárins er notaður til námslána. En 1961 skeður svo stærsta byltingin, því að þá er fé í þessu skyni aukið í 11 millj. 95 þús. kr., og sú aukning verður möguleg vegna þess, að bankakerfið er dregið inn í málið og fellst á að veita á því ári 4.2 millj. kr. að láni til lánasjóðsins, sem lánasjóðurinn endurlánar síðan með hagstæðum kjörum. 1962 er heildarféð til lána og styrkja aukið enn í 12 millj. 253 þús. kr., 1963 í 13 millj. 153 þús. kr., 1964 í 15 millj. 900 þús. kr. og 1965, á þessu ári, er gert ráð fyrir, að varið verði til námslána og styrkja 16 millj. 500 þús. kr., þar af lánar bankakerfið 5.2 millj. til lánasjóðsins, en af þessum 16.5 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að nota til lána og styrkja í ár, eru 14.4 millj. námslán, en námslánin eru með þeim hætti, að endurgreiðsla þeirra hefst ekki fyrr en þrem árum eftir að námi er lokið, og þá eru lánin endurgreidd á 15 árum og með 31/2% vöxtum, svo að hér er um mjög hagkvæm lánskjör að ræða.

Af þessu yfirliti sést, að á s.l. 15 árum hefur fé það, sem varið er til stuðnings íslenzkum námsmönnum heima og erlendis, hvorki meira né minna en sextánfaldazt.

Þetta tel ég nauðsynlegt, að hv. alþm. sé algerlega ljóst og vil ég þó í þessu sambandi segja og undirstrika, að þótt stuðningurinn hafi verið aukinn jafnmikið og raun ber vitni, einkum hin allra síðustu ár, þá er hér ekki nóg að gert og þennan stuðning þarf enn að auka og það meira að segja mjög verulega og að því miðar einmitt sú endurskoðun gildandi laga um þessi efni, sem nú stendur yfir og er senn lokið.

Að því er læknastúdentana snertir sérstaklega, þá á læknastúdent nú kost á láni, árlegu láni með þeim kjörum, sem ég gat um áðan, að upphæð 33.800 kr. og hefur þar undanfarin ár verið um nokkrar hækkanir að ræða. 1961, fyrsta árið, sem núverandi kerfi var í fullu gildi, nam lán til læknastúdents 21 600 kr., 1962 var það hækkað upp í 28.800 kr., 1963 í 30.000 kr., og nú er það sem sagt 33.800 kr. Til samanburðar má geta þess, að lán eða lán og styrkir til námsmanna erlendis eru þessir, en þeir eru nokkuð breytilegir eftir löndum: Stúdent í Noregi á kost á 26 þús. kr. árlegu, hreinu láni fyrstu 2 árin, en 16 þús. kr. styrk getur hann fengið og þá 10 þús. kr. lán að fyrstu 2 árunum loknum. Samsvarandi upphæð er í Svíþjóð 30 þús. kr., í Danmörku 26 þús. kr., í Bretlandi 26 þús. kr., en í Bandaríkjunum 35 þús. kr.

Sú breyting, sem ég tel einna nauðsynlegasta, fyrir utan almenna hækkun á þessum upphæðum, er sú að jafna aðstöðuna milli stúdenta við háskólann hér og þeirra námsmanna, sem stunda nám við erlenda háskóla, en því er ekki að leyna og er það arfur frá gamalli tíð, að stuðningurinn við stúdenta við háskólann hér hefur verið nokkru minni en stuðningurinn við þá, sem leggja stund á nám við erlenda háskóla og á það ef til vill rót sína að rekja til þess, að talið hefur verið, að þeir, sem stunda nám hér, eigi auðveldara með að afla sér aukatekna, sumpart samfara náminu við háskólann hér eða þá á sumrum, auk þess sem framfærsla hér sé í mörgum tilfellum auðveldari og ódýrari, en á sér stað fyrir þá, sem stunda nám erlendis. En í þessum efnum hefur aðstaða svo mikið breytzt á undanförnum árum, að ég tel fullkomna ástæðu til þess að gera alls engan mun á þeim stuðningi, sem stúdentar við háskólann hér fá, miðað við það, sem stúdentar við erlenda háskóla fá. Í þessu felst það, að ég tel rétt, að stúdentar við háskólann hér eigi kost á námslánum þegar á fyrsta ári og mundi ég segja, að það ætti sérstaklega við stúdenta í læknadeildinni, auk þess sem ég tel mjög æskilegt, enda að því stefnt, að meiri munur sé gerður á stuðningi við stúdenta, en nú á sér stað eftir því, hvaða nám þeir stunda, bæði hér heima og erlendis. Stúdentar í læknadeildinni við háskólann hér eru í fyrsta flokki, þ.e.a.s. hæsta flokki hér, en munurinn er ekki eins mikill og vera ætti með hlíðsjón af námstíma og námskostnaði milli þeirra og þeirra, sem eru í öðrum lánaflokkum við háskólann hér.

Það, sem ég tel, að þyrfti fyrst og fremst að gera, er annars vegar að auka heildarstuðninginn við stúdenta við háskólann hér, þannig að hann verði alveg sambærilegur við stuðning, sem á sér stað við stúdenta erlendis og að gera meiri mun, en nú á sér stað á stuðningnum við stúdentana, bæði hér heima og erlendis, eftir námstíma og námskostnaði. Og þetta er einmitt atriði, sem hafa verið til athugunar í endurskoðunarnefndinni.

Ég vildi einnig láta þess getið í þessu sambandi, að fram til þessa tíma hafa þeir, sem stunda tækninám erlendis, fengið sams konar stuðning og þeir, sem stunda háskólanám erlendis. Þeir, sem stundað hafa tækninám hér og nú er tekinn til starfa hér Tækniskóli Íslands, hafa hins vegar ekki átt kost á neinum stuðningi. Þessu tel ég nauðsynlegt að breyta, þannig að opinber stuðningur við námsmenn taki ekki eingöngu til stúdenta við háskólann, heldur einnig til annars hliðstæðs náms og tækninámið ber tvímælalaust að telja í þeim flokki.

Þá tel ég og rétt, að það komi fram, að til sérstakrar athugunar hefur verið að taka upp sérstaka námsstyrki til kandidata, en segja má, að veruleg eyða hafi verið í opinberum stuðningi við námsmenn og vísindamenn að því leyti, að stuðningurinn við stúdenta og tækninemendur hefur verið verulegur og síðan hafa vísindamenn átt kost á ýmiss konar rannsóknarstyrkjum úr vísindasjóði, en nýútskrifaðir kandidatar eiga nú ekki kost á neinum öðrum styrkjum, en þeim mjög smávægilegu upphæðum, sem Sáttmálasjóður Háskóla Íslands hefur yfir að ráða. M.ö.o.: menn hafa átt völ á styrkjum, meðan þeir hafa stundað reglulegt nám fram að kandidatsprófi, síðan hafa menn getað fengið vísindastyrki, þegar þeir hafa fengið aðstöðu til þess eða sýnt hæfileika til þess að sinna hreinum vísindastörfum, og þá úr vísindasjóðnum, en þarna á milli hefur verið óbrúað bil, Þ.e.a.s. ungur kandidat, sem lokið hefur námi hér eða annars staðar og vill stunda framhaldsnám í 2–3 ár, án þess þó að hægt sé beinlínis að flokka það undir hreint vísindanám eða hrein vísindastörf, sem séu styrkt af vísindasjóði, hann hefur enga styrkmöguleika haft, nema þá, þá útlendu styrki, sem erlend stjórnarvöld hafa veitt hingað til í allríkulegum mæli í skiptum fyrir íslenzka styrki til útlendinga og menntmrn. hefur haft milligöngu um, sumpart að útvega og sumpart að ráðstafa. Á þessu tel ég að þurfi að verða bót og þetta er einnig eitt af þeim atriðum, sem fjallað hefur verið sérstaklega um í endurskoðunarnefndinni.

Þessar upplýsingar vildi ég, herra forseti, gjarnan, að kæmu hér fram í sambandi við þetta, til þess að ekkert færi á milli mála um það, að af hálfu stjórnarvalda er fullur skilningur á því, að nauðsynlegt sé og raunar sjálfsagt að auka stuðning við þá ungu menn, sem leggja stund á háskólanám eða langskólanám, hvort heldur er hér heima eða erlendis, að auka þann stuðning frá því sem verið hefur. Og ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að endurtaka, að ég vonast eindregið til þess, að hægt verði á næsta hausti að leggja fyrir hið háa Alþingi till. um nýskipan og breyt. í þessum málum, sem fela í sér verulega heildaraukningu á opinberum stuðningi við námsmenn og auk þess ýmiss konar skipulagsbreytingar, sem ég vona, að Alþingi á sínum tíma telji allar horfa til bóta.