01.04.1965
Neðri deild: 61. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1491 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þarf aðeins að koma hér að smávegis aths. í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Vestf. (SE) og í sambandi við 5. lið brtt. hans á þskj. 347. Hann vék að því í ræðu sinni, sem er rétt, hversu erfitt fólk ætti í dreifbýlinu oft og tíðum um að vitja læknis og hversu kostnaðarsamt það væri og minnti á það, að hann hefði við annað tækifæri fyrr á þessu þingi talið rétt, að fé, sem ríkissjóði sparaðist við það, að hérað væri læknislaust, færi til þess að styrkja fólk í þessu sambandi og ég hefði tekið vel í það, þegar hann hreyfði þessu máli. Þetta er allt saman rétt, að hann hreyfði þessu fyrr á þinginu og ég tók vel í það. Mér er bara ekki kunnugt um og hv. þm. er sennilega ekki heldur kunnugt um, að ríkinu sparist neitt fé í þessu sambandi, en skv. lögum um læknishéraða- og prestakallasjóði, nr. 98 frá 1933, segir svo í 1. gr. með leyfi hæstv. forseta, „að sé læknishérað læknislaust, svo að eigi komi til greiðslu á embættislaunum eða hluta þeirra til þjónandi læknis í því héraði, skulu launin eða launahlutinn með dýrtíðaruppbót renna í sérstakan sjóð, er verður eign hlutaðeigandi héraðs.“ í 2. gr. segir: „Sjóðir þeir, sem stofnaðir eru skv. 1. gr., nefnast læknishéraðasjóðir.“ Og í 3. gr. segir: „Fé læknishéraðasjóða skal varið til þess að tryggja eftir föngum, að héruðin séu sem sjaldnast læknislaus, svo sem með því að leggja það til læknisbústaða eða annars þess, sem ætla má, að verði til þess að gera héruðin eftirsóknarverðari fyrir lækna eða horfi til endurbóta á heilbrigðismálum héraðsins.“

Þessar upplýsingar taldi ég rétt í þessu sambandi að fram kæmu. Hitt stendur svo eftir sem vandamál, að gera fólkinu í dreifbýlinu auðveldara um læknisvitjanir og til þess er varið fé á fjárl. og að því á að vinna hinn svokallaði læknisvitjanasjóður, en það er mjög ófullkomin stofnun, svo að ég segi ekki meira, og það er langt síðan fyrrv. landlæknir lagði til, að þau lög yrðu numin úr gildi. Þegar hv. 11. landsk. þm. (MB), frsm. heilbr.- og félmn., ræddi þetta mál við mig í fyrra og var þá einn þm., sem lögðu alveg sérstaka áherzlu á, að lögin um læknisvitjanasjóð væru endurskoðuð, þ.e.a.s. að þau yrðu gerð raunhæf og kæmu fólkinu að einhverju liði, þá ræddi ég þetta við landlækni, sem hafði þá áður reyndar lagt til í sambandi við endurskoðun á þessum sjóði, sem fram höfðu komið þáltill. um, að sjóðurinn yrði lagður niður, en aftur á móti yrði í stað þess unnið að því og það taldi hann sig hafa gert að nokkru leyti í sambandi við tryggingarnar, að þær tækju með einhverjum hætti verulegan þátt í því að létta undir með fólki, sem þarna á í erfiðleikum. Nú er það hins vegar svo, að þetta hefur ekki orðið raunhæft enn þá og komizt í framkvæmd og er eitt af þeim mörgu atriðum í sambandi við heilbrigðismálin, sem þarf að vinna að og bæta úr.

Ég skal ekki segja fleira um þetta að sinni. Ég tel ekki, eins og ástæður eru, að það sé hægt að samþ. þessa 5. till. á þskj. 347 frá Sigurvin Einarssyni. En hitt er mér alveg ljóst að að því þarf að vinna að koma betri skipan á þessi mál og greiða úr fjárhagslegum örðugleikum fólks í dreifbýlinu við læknisvitjanir, og að því mun ég beita mér í sambandi og samráði við landlækni og reyna að sjá til þess, að málið hafi hér eftir skjótari framgang, en það hefur haft fram til þessa.