29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

16. mál, orlof

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég var ungur, þegar fyrst var talað um orlof, og þá átti orlofsféð að vera greitt, að því er mig minnir, í einhvers konar merkjum, og því átti eingöngu að vera varið til þess, að menn hefðu frídaga, hvíldu sig frá starfi. En í framkvæmdinni hefur þetta ekki verið þannig, og yfirleitt mun þetta vera borgað í peningum um leið og kaupið.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn þurfi að hvíla sig og eiga sínar frístundir, hvort sem þeir vinna skrifstofustörf eða líkamlega vinnu. En það er svo með menn í atvinnulífinu, að þeir geta ekki tekið sér frí í mörgum tilfellum að sumrinu, og ef þeir vilja fá sér frístund, þá er það oft að vetrinum. Skrifstofufólk og það fólk, sem vinnur í bæjunum, hefur aftur þörf fyrir að ferðast út um landsbyggðina að sumrinu eða þá til annarra landa jafnvel og njóta þannig sumarsins.

Ég hef aldrei skilið það, hverju það skipti að vera alltaf að gera kröfu um sífellt hærra og hærra orlof. Fyrir atvinnurekendur og fyrir þá, sem vinna líka, er það alveg nákvæmlega sama og að kaupið sé hækkað.

Nú er það svo, að Íslendingar hafa dálítið sérstæðan atvinnuveg, þar sem sjávarútvegurinn er. Og tímarnir eru breyttir, þannig að með aukinni tækni hefur kaup, einkum yfirmanna á skipum, stórhækkað. Í raun og veru eru kjör sjómanna ekki hliðstæð og annarra fastlaunaðra manna á mánaðarkaupi. Þeir eru að nokkru atvinnurekendur, þannig að þeir taka þátt í atvinnurekstrinum og fá sinn hluta af brúttótekjunum. Af þorskveiðum fá þeir um 40%, í hlutaskipti af síldveiðum fá þeir um 50%, þegar allt er reiknað, yfirmannakaupið líka, eða aukahlutirnir. Útgerðarmaðurinn sér um rekstur skipsins, veiðarfæri, afborganir, vexti, viðgerðir. Þetta er því sameiginlegur atvinnurekstur í raun og veru. Ég álít, að það sé rangt, miðað við hagsmuni þjóðfélagsins og réttlætið, að greiða orlof á hluti sjómanna. Ég minntist á það hér um daginn, að sumir skipstjórarnir muni hafa frá 1/2 millj. og jafnvel hátt í eina milljón í tekjur. Að bæta svo 7% við þetta finnst mér vera eins og hver önnur vitleysa. Það er alltaf verið að bæta einu og einu prósenti við. Það er verið að leggja eitt prósent núna á þennan launaskatt, svo kemur annað prósent í orlofi. En þegar litið er á útgerðina, þá er þetta bara miklu meira, því að þetta, megnið af þessu, lendir á útgerðina, vélaverkstæðin, nótaviðgerðarstöðvarnar, fiskvinnslustöðvarnar. Þetta hækkaða orlof verður að fást frá hráefninu. Það þrengist sem sagt allt að hráefnaframleiðslunni, svo að þegar þetta er athugað, þá er það mikið á annað prósent, sem í raun og veru kemur á útgerðina sjálfa. Nú er mér sagt, að eigi að fara fram á hækkaða hluti sjómanna, og auk þess talað um lífeyrissjóði, sem kosta útgerðina mikið. Það, sem gerist því þarna, þegar borgað er orlof á kaup, sem er kannske tvöfalt, þrefalt við það, sem venjulegir skrifstofumenn hafa eða starfsfólk hér í bænum, sem vinnur venjulega dagvinnu, þá er ekkert annað, sem gerist, heldur en það, að það er fært frá þeim, sem eru launalægri, til þeirra, sem eru launahærri. Það er ekkert annað að gerast, því að vitanlega þarf einhvers staðar að taka þetta fé.

Ég get ómögulega skilið, að það sé sérstakt áhugamál fyrir þá, sem þykjast vera málsvarar þeirra, sem lakast eru settir í þjóðfélaginu, að vinna að þessu. Ég álít ekkert við það að athuga, að það sé borgað orlof af hlutum. Það fyndist mér eðlilegt og alveg tilsvarandi og þegar maður á mánaðarkaupi fær sitt frí. Raunar má segja, þegar aflinn er ekki það mikill, að það svari til hlutar, þá geti orðið halli, þá sé borgað orlof í raun og veru af meiru en sjómennirnir afla og yfirmennirnir á skipunum. En þetta er útgerðin látin bera, án þess að tekið sé tillit til þess, þegar ekki aflast fyrir tryggingu, og þar að auki verður hún að borga orlof af öllum hlutum.

Aðstaðan er breytt frá því, sem áður var. Tekjur þeirra, sem eru á þeim skipum, sem mest afla, eru orðnar margfaldar við það, sem áður var. Og það er því hrein vitleysa að ætla sér bæði að hækka orlofið og borga af öllu þessu, enda eru þarna þátttakendur í atvinnurekstri, sem alls ekki hafa hliðstæð kjör við venjulega fastlaunaða menn.

Á þetta vildi ég benda við 1. umr. Og mér finnst það dálítið skrýtið, dálítið einkennilegt, að það skuli vera sjútvmrh., sem mælir fyrir þessu. Og ég vildi óska þess, að hann væri orðinn jafnmikill og frekur og hæstv. landbrh., því að þá mundi hann ábyggilega hafa veitt þessu athygli og reynt að verjast þessum óréttlátu álögum.