06.04.1965
Neðri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

138. mál, læknaskipunarlög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Við 2. umr. um læknaskipunarlög s.l. fimmtudag tók hæstv, menntmrh. til máls og gaf nokkurt yfirlit um námslaun og námsstyrki til stúdenta við nám á Íslandi og erlendis. Hann las þá upp nokkuð langan lista um þessa styrki og þó aðallega lán, sem veitt munu hafa verið undanfarin 15 ár. Eins og að líkum lætur, fóru tölurnar ört hækkandi og ég sá ekki betur en hæstv. menntmrh. væri því stoltari og ánægðari sem tölurnar urðu hærri, sem hann las, og niðurstaðan var sú, að á seinasta ári hefði verið varið 16 sinnum hærri heildarfjárhæð til þessara mála, en fyrir 15 árum. Það stóð ekki á því, að stuðningsblöð hæstv. ráðh. tækju málið upp og færu að hælast um, hversu gífurleg aukning hefði orðið í aðstoð við stúdenta. Alþýðublaðið sagði t.d. daginn eftir, 2. apríl, með risafyrirsögn á forsíðu: „Stúdentaaðstoð 16–földuð á 15 árum“. Og daginn eftir mátti lesa þessi orð í leiðara Alþýðublaðsins, með leyfi forseta: „Kom það fram í ræðu Gylfa, að stuðningur við íslenzka námsmenn hefur farið mjög vaxandi undanfarin 15 ár. Hefur opinbert framlag til þessara mála um það bil 16faldazt síðustu 15 árin.“

Nú munu auðvitað fáir trúa því um jafnágætan mann og hæstv. menntmrh., að hann sé vísvitandi að reyna í þingræðu að blekkja þingheim og almenning í landinu á þann hátt, sem Alþýðublaðið gefur í skyn. Hins vegar geri ég ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi lesið upp þennan mikla talnabálk í einhverjum tilgangi. Hann hefði ekki farið að lesa upp alla þessa talnarunu, ef hann ætlaði sér ekki að sýna fram á eitthvað með henni, sanna eitthvað. Og ég vil nú segja það, að mér dettur ekki í hug að halda, að hæstv. ráðh. hafi ætlað sér að telja þingheimi og þjóðinni trú um, að kjör stúdenta séu nú orðin 16 sinnum betri almennt, heldur en var fyrir 15 árum, vegna þess að upphæðin sé 16 sinnum hærri. En hann hefur áreiðanlega ætlað sér að telja mönnum trú um, að kjör stúdenta hefðu a.m.k. stórlega batnað. .Ég held ég geti leyft mér að fullyrða það.

Ég hef því miður ekki aðstöðu til þess að rökræða við ráðh. á þessum talnalega grundvelli, því að þar skortir mig öl gögn og þær hagskýrslur og yfirlitstölur, sem þarf til þess að brjóta þetta mál til mergjar. En ég vil halda því fram, að þó að þessi upphæð hafi 16–faldazt, segi það ekkert til um það, hvort kjör stúdenta í sambandi við lán og styrki hafi batnað eða versnað á þessum árum. Til þess að sjá, hvort kjör stúdenta hafi að þessu leyti raunverulega batnað eða ekki, þurfum við að hafa mörg atriði í huga, og þó að ég geti ekki fært fram sérstakar tölur máli mínu til sönnunar, vil ég aðeins minna á þessi einföldu atriði, áður en umr. lýkur um þetta mál.

Í fyrsta lagi verður að sjálfsögðu að hafa í huga gengi íslenzku krónunnar. Við vitum, að mjög mikill hluti styrkjanna og lánanna er til stúdenta erlendis og á einum og hálfum áratug hefur orðið stórkostleg breyting á gengi íslenzku krónunnar, það vitum við öll.

Í öðru lagi hefur dýrtíð farið stórkostlega vaxandi í landinu og allur tölulegur samanburður af þeim sökum mjög erfiður. Ég hirði ekki um að fara fleiri orðum um þennan sjálfsagða hlut, sem allir þekkja og allir vita um. En það eru fleiri atriði mörg fleiri atriði. Það er ekki aðeins, að krónurnar verði fleiri, þegar verðbólguástand er í landinu og gengi krónunna er fellt hvað eftir annað, það er líka verðbólga í öðrum löndum, þó að ekki sé í jafnmiklum mæli og hér á Íslandi. Í flestum löndum, þar sem íslenzkir stúdentar hafa verið við nám, hefur verðlag farið nokkuð hækkandi á hverju einasta ári, styrkir og lán, ef talið er í erlendri mynt, hafa þá hækkað í réttu hlutfalli við vaxandi námskostnað í landinu. Þetta hefur að sjálfsögðu haft stórfelld áhrif til hækkunar á námslánum, enda þótt kjör stúdenta séu nákvæmlega hin sömu og áður þrátt fyrir þetta.

Í þriðja lagi verður að minna á það, að stúdentum hefur fjölgað með hverju árinu. Það er ekki aðeins, að hlutfallstala þeirra, sem ljúka stúdentsprófi, hafi farið hægt og þétt vaxandi, þannig að stærri hluti hvers árgangs taki stúdentspróf og þurfi þar af leiðandi á styrkjum og lánum að halda. Það er einnig, að átt hefur sér stað stórkostleg fjölgun stúdenta vegna mannfjölgunar á Íslandi, því að árgangarnir verða með hverju ári stærri.

Hér í gær var dreift á borðin hjá okkur nýju hefti af Fjármálatíðindum og þar er forustugrein eftir Jóhannes Nordal hagfræðing, sem hann nefnir: Ung þjóð. Þar er einmitt rætt um hina geysilegu fjölgun, sem átt hefur sér stað á seinustu árum einmitt í þeim árgöngum, sem núna eru í menntaskóla eða eru að byrja í háskóla og á fyrstu árum þar. Hann nefnir það, að þessi mikla mannfjölgun hafi hafizt á árinu 194, og frá 1960 hefur þetta stöðugt verið að koma fram í vaxandi mæli og hefur auðvitað leitt til mjög mikilsverðrar fjölgunar á stúdentum. Ég varð stúdent fyrir 7 árum frá menntaskólanum í Reykjavík, þ.e.a.s. árið 1958. Þá vorum við 104, sem útskrifuðumst. En mér skilst, að á s.l. ári hafi stúdentar útskrifaðir frá menntaskólanum í Reykjavík verið 211. Bara á þessum 7 árum, þ.e.a.s. helmingnum af þeim tíma, sem hæstv. menntmrh. nefndi, hefur tala stúdenta frá menntaskólanum í Reykjavík aukizt um meira en 100%. Ég þarf ekki að taka það fram, að auðvitað hefur þetta verkað mjög til hækkunar á styrkjum og lánum. En eftir sem áður eru kjör hvers einstaks stúdents engu betri, þó að heildarupphæðin sé hærri.

Loks er hægt að nefna það, að styrkir og lán eru yfirleitt hærri til stúdenta, sem stunda nám erlendis, vegna meiri tilkostnaðar. Þó að ég hafi nú ekki neinar tölur í höndunum máli mínu til stuðnings, þykist ég alveg viss um, að mjög stór hluti af þessari stúdentaaukningu hefur orðið meðal þeirra, sem stunda nám sitt erlendis. Stærri hluti af stúdentum hefur snúið sér til útlanda til að nema en áður var, og þetta verkar auðvitað einnig til hækkunar á þessari heildarupphæð.

Ég hef sagt það og segi það enn, að ég hef enga aðstöðu haft né tíma til þess að reikna út, hvaða töluleg áhrif þessi fjögur atriði hafa haft til hækkunar á styrkjum og lánum. En satt að segja grunar mig, með tilliti til þessara liða, að í raun og veru hafi hæstv. menntmrh. alls ekki ástæðu til þess að vera svo stoltur og ánægður sem hann var hér á fimmtudaginn, jafnvel þótt heildarupphæðin hafi 16–faldazt á einum og hálfum áratug. Ég get ekkert um þetta fullyrt að vísu, ég hef ekki gögnin í höndunum og það krefst töluverðs tíma og vinnu að reikna þetta út nákvæmlega, en mér er mjög til efs satt að segja, að kjörin hafi batnað á þessum tíma. En ef þau hafa almennt batnað eitthvað ofurlítið, þykist ég viss um, að þar er um mjög óverulegar kjarabætur að ræða.

Hér liggur fyrir, og það er ástæðan fyrir þessum umr. um stúdentalán, að hér liggur fyrir till. frá hv. 3. þm. Reykv. (EOl) um námslaun handa læknastúdentum.

Hv. 3. þm. Reykv. las till. áðan og sé ég ekki ástæðu til að lesa hana aftur, en á þetta mál var víst fyrst minnzt hér fyrir um það bil mánuði við 1. umr. málsins. Mér er það minnisstætt, að þeir stóðu þá báðir upp, hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. og býsnuðust mjög yfir því, að menn skyldu vera að leyfa sér að halda því fram, að kjör læknastúdenta væru eitthvað léleg. Ég ætla ekki að svara þessum orðum þessara tveggja hæstv. ráðh. En vegna þess að þetta mál er hér til umr. með þessum hætti, vil ég láta læknastúdenta sjálfa svara fyrir sig, en það gerðu þeir, nokkru eftir að þessar umr. fóru fram, með grein, sem birtist í nokkrum blöðum. Þetta var aths. frá stjórn Félags læknanema. Hún fjallaði um ýmis fleiri atriði en þetta og sé ég ekki ástæðu til að minna á annað en það, sem þeir segja um þetta atriði, þ.e.a.s. kjör læknastúdenta. í þessari aths. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Hæstv. forsrh. Bjarni Benediktsson hélt því fram á Alþingi hinn 8. þ.m., að Ísland væri nær einstætt í heiminum að því leyti, að það veitti stúdentum ekki aðeins ókeypis háskólamenntun, heldur veitti þeim einnig mikla námsstyrki, svo að þeir kæmu skuldlausir eða skuldlitlir frá námi. Þessar fullyrðingar eru alrangar.

Einu styrkir, sem læknanemar og raunar allir stúdentar við Háskóla Íslands eiga kost á frá íslenzka ríkinu, eru hinir svonefndu stóru styrkir, sem munu veittir 7 nýstúdentum ár hvert og renna jafnt til stúdenta erlendis sem hér heima, enda munu aðeins 3 læknanemar njóta þessa styrks sem stendur. Utan þessara styrkja fá læknanemar enga styrki frá ríkinu. Hins vegar eiga læknanemar eins og aðrir stúdentar kost á námslánum úr lánasjóði íslenzkra námsmanna. Lánasjóður þessi hefur eflzt talsvert hin síðari ár og eiga nú þeir læknanemar, sem dveljast 7 ár í deildinni, kost á um það bil 160 þús. kr. láni þann tíma, sé miðað við úthlutun úr sjóðnum árið 1964. Varla þarf að taka fram, að þessa upphæð verða stúdentar að endurgreiða að námi loknu og verður þetta óneitanlega að teljast nokkur skuld, þó að vaxta- og greiðsluskilyrði séu hagkvæm. Enginn mun þó svo einfaldur að ætla söguna þarna á enda. Með lauslegri athugun á framfærslukostnaði þeirra læknastúdenta einhleypra, sem búa á Görðunum, telst okkur svo til, að lágmarkskostnaður þeirra ár hvert sé um 75 þús. kr. Þannig ætti 7 ára nám þeirra að kosta þá í beinhörðum peningum 525 þús. kr. og mun þó varlega reiknað. Séu lán dregin frá þessari upphæð, standa eftir 365 þús. kr., sem stúdentinn verður að vinna fyrir sjálfur eða fá frá aðstandendum ella beint eða óbeint og telst það auðvitað skuld. Ætti því ekki að þurfa að eyða fleiri orðum að hjali um skuldlausa læknakandidata. Einnig má benda á, að í flestum löndum Evrópu eiga stúdentar kost á ókeypis háskólamenntun, svo að Ísland er ekkert einsdæmi, hvað það snertir.

Varðandi þá skoðun hv. þm., að æskilegt sé, að stúdentar vinni óskyld störf á sumrin, þykir rétt að taka fram eftirfarandi:

Námsefni í læknisfræði hefur þanizt út ótrúlega hratt undanfarna áratugi og kemur þar margt til, einkum aukin rannsóknartækni og ný þekking á sjúkdómum, ekki sízt þeim, sem minnst var vitað um áður. Á þessu aukna námsefni verða læknanemar auðvitað að kunna skil. Bein afleiðing af þessu er, að meðalaldur læknakandídata hafði árið 1960 hækkað um 3 ár síðan 1920, var þannig orðinn tæp 28 ár meðalaldurinn og mun flestum hafa þótt það of hár aldur. Sú mun einnig hafa verið skoðun læknadeildar, sem setti náminu ströng tímatakmörk, raunar þegar árið 1958, svo að nú má telja sumarvinnu læknanna við óskyld störf nær útilokaða, eigi þeir að gera námi sínu sómasamleg skil. Má geta þess til frekari skýringar, að læknanemar verða að vinna nær kauplaust 121/2 mánuð af námstíma sínum á sjúkrahúsum, auk annars verklegs og bóklegs náms, svo að nám þeirra er langt frá því að vera sambærilegt við nám í öðrum deildum háskólans. Auk þess er mjög óheppilegt frá þjóðfélagslegu sjónarmiði að lengja námstíma læknastúdenta með óskyldum störfum og stytta þannig að sama skapi starfstíma þeirra sem lækna, en hann er, sem kunnugt er, styttri en allra annarra stétta þjóðfélagsins.“

Ég les ekki upp meira af þessari aths. Félags læknanema. Þetta voru þeirra orð og ég held, að það komi mjög skýrt fram, hvernig kjörum þeirra er háttað og að núverandi ástand í þessum málum er algjörlega óviðunandi.

En það er nú ekki einungis vegna læknastúdenta, sem ég tel, að þetta sé stórmál, sem hér er á ferðinni. Ég tel sem sé alveg sjálfsagt mál að innleiða námslaunakerfi fyrir alla stúdenta. Hins vegar geri ég mér vonir um, að námslaun til læknastúdenta kynnu kannske að fást fram og verða fyrsta sporið í þessa átt. Ég verið raunar að bæta því við, að ég tel alveg sjálfsagt mál og er sannfærður um, að fyrr eða síðar kemur að því, að námslaun verða lögleidd fyrir allt framhaldsskólanám, t.d. menntaskóla, iðnskóla og sjómannaskóla. Ég er að sjálfsögðu ekki að hafa á móti því, að námsfólk og stúdentar vinni fyrir sér á sumrin, eins og stundum er talið sem röksemd á móti námslaunum. Auðvitað er það sjálfsagt og eðlilegt, að menn kynnist atvinnuvegum þjóðarinnar og afli sér tekna, þegar þeir eiga frí. En ef við viljum reyna að minnka skortinn, sem nú er, á menntuðum mönnum, bæði vísindamönnum og tæknimönnum, verðum við að skilja, að það er óhjákvæmileg nauðsyn að örva ungt fólk til menntunar í meiri mæli en nú er.

Loks má benda á, að námslaun eru frumskilyrði þess, að unnt sé með nokkrum rétti að draga úr launamismun skólagenginna manna og óskólagenginna, ef menn telja það á annað borð takmark í sjálfu sér að draga úr þeim launamismun og ég er í þeim hópi. Í öðru lagi er tvímælalaust nauðsynlegt að veita námslaun til þess að gefa námsmönnum og það öllum námsmönnum tækifæri til þess að stunda það nám með kostgæfni, sem hugur þeirra stendur til.

Ég er alveg sannfærður um það, að einhvern tíma munu þetta þykja sjálfsagðir hlutir og eiginlega óþarfi að ræða um þá. Þess vegna styð ég eindregið þessa till., sem fram er komin, og vona eindregið, að námslaun til handa læknastúdentum muni verða til þess að ryðja brautina í þessu sjálfsagða réttindamáli alls skólafólks.