29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

16. mál, orlof

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég fagna því, að þetta frv. er flutt. Ég álít, að það samkomulag, sem gert var varðandi greiðslu á orlofi af kaupi með samningunum á s.l. sumri, hafi verið réttlátt og mjög eðlilegt, eins og á stóð, því að um það er ekki að villast, að við höfum hér á landi dregizt talsvert aftur úr nágrannaþjóðum okkar í sambandi við orlof og orlofsgreiðslur. Það mun nú vera orðið algengast í löndunum í kringum okkur, að reiknað sé með 9% orlofi, en með þessu samkomulagi var verið að hækka greiðslurnar hér úr 6% upp í 7%, svo að því fer alls fjarri, að við séum komnir óeðlilega langt í greiðslu orlofsfjár, eins og mér heyrðist einna helzt á þeim ræðumanni, sem hér talaði næstur á undan mér, hv. 5. þm. Norðurl. v.

Þá vil ég einnig í sambandi við það, sem kom fram í hans ræðu, mótmæla því sem algerum misskilningi, að sjómenn á okkar fiskiskipaflota séu raunverulega atvinnurekendur. Ef við ættum að kalla þá atvinnurekendur, vegna þess að þeir taka kaup sitt í hlutum úr afla, þá gætum við á nákvæmlega sama hátt kallað alla þá launþega atvinnurekendur, sem t.d. koma til með að vinna á einn eða annan hátt í ákvæðisvinnu. Hér er vitanlega algerlega ruglað saman, eins og sérstaklega nú er háttað útgerðarrekstri. Þar sem allur rekstrarkostnaður er útgerðarinnar, þá er vitanlega ekki hægt að blanda því saman að kalla sjómenn útgerðarmenn, þó að þeir taki kaup sitt sem hlut úr afla. Og vitanlega eiga sjómenn sama rétt og aðrir launþegar á því að fá greitt orlofsfé til þess að standa undir hinum eðlilega orlofskostnaði, þegar að honum kemur.

Það má ekki heldur í þessu sambandi láta það villa sér sýn, þó að á einstaka aflabátum sé um það að ræða, að þar geti orðið háir aflahlutir. Þegar rætt er um kaup sjómanna með tilliti til þess, hvort réttmætt sé að borga orlof á það, verður vitanlega að leggja til grundvallar meðaltalskaup, sem kemur út yfir fiskveiðiflotann, en ekki taka það kaup, sem kann að koma út í einstökum tilfellum á skipum, sem eru með alveg óvenjulegan afla.

Reynslan er því miður sú, að meira að segja þegar jafnvel aflast á síldveiðum og gert hefur á þessu ári, eru það margir tugir báta, sem eru vel úr garði gerðir, sem er þannig ástatt með, að þeir fiski ekki fyrir lágmarkskauptryggingu á síldveiðunum. Og það gefur vitanlega auga leið, að það er mikill munur á launakjörum eða kaupi slíkra sjómanna og hinna, sem eru á þeim skipunum, sem hæstan eða mestan gefa aflann.

Á því er enginn vafi, að það liggja almenn rök til þess, að orlofsfé sé nokkuð hækkað hér á landi, ef við berum okkar aðstæður saman við aðstæður í nágrannalöndunum. Og ég hélt satt að segja, að öll andstaða gegn því að greiða orlof á hlut sjómanna væri fyrir löngu úr sögunni.

Það er svo málefni alveg út af fyrir sig, þegar hér kemur upp framsóknarmaður og kvartar yfir því, að sjútvmrh. standi sig illa, a.m.k. í sambandi við hinn feiknalega duglega landbrh., sem sé frekur og duglegur og standi sig vel í þeim málum. En hvað um það, ég vil vænta þess, þrátt fyrir þessar athugasemdir, sem hér komu fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að þá verði ekki um neina andstöðu hér á Alþingi að ræða gegn frv., sem hér liggur fyrir, og ekki heldur gegn því, að sjómenn fái að halda þeim orlofsgreiðslurétti, sem þeir hafa þegar unnið sér með samningum og með lagasetningu.