29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

16. mál, orlof

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins við þessa 1. umr. láta í ljós ánægju mína yfir því, að samningar hafa náðst um það að lengja orlof, að hækka orlofsfé í 7%. Mér er sagt af fróðum mönnum, að gert sé ráð fyrir, að það samsvari um 24 daga orlofi, en samkv. upplýsingum, sem við höfum frá Noregi t.d., þá er þar gert ráð fyrir 28 daga orlofi. Það er nokkuð augljóst, að við erum á eftir að þessu leyti, og megum við þó allra sízt við því, vegna þess að hér er vafalaust unnið lengur að staðaldri á hverjum sólarhring en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli. Mun það eiga við bæði á sjó og landi, og ekki er vinnutíminn síður langur á sjónum en á landi. En til þess að hafa ofan af fyrir sér þurfa menn vafalaust að leggja meira að sér en víða annars staðar. Við megum því allra sízt við því að dragast aftur úr í orlofsmálum.

Ég sé því ástæðu til að fagna því, að samkomulag varð um þessa breytingu, og mun hiklaust veita henni brautargengi, og þá einnig því, sem ég tel sjálfsagt, að sjómenn sitji við sama borð og þeir, sem vinna í landi. Ekki þurfa sjómenn síður á sínu fríi að halda eða fá tilbreytingu frá sínum störfum en aðrir menn. Líklega eru engir, sem hafa fremur þörf á því að geta fengið orlofsfé en þeir.