05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

138. mál, læknaskipunarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get að mestu leyti tekið undir það, sem hv. frsm. félmn. sagði um það frv., sem fyrir liggur. En mér þykir ástæða til að rifja þetta mál nokkuð upp, vegna þess að snemma á þessum vetri var ég með fyrirspurn til hæstv. heilbrmrh. um það, hvaða ráðstafanir ríkisstj. ætlaði sér að gera, til þess að öll lögákveðin læknishéruð landsins yrðu skipuð héraðslæknum. En þá stóðu málin þannig, að 8 héruð voru læknislaus.

Eins og fram kom í þeim umræðum, tilkynnti hæstv. ráðh., að þetta frv., sem hér er til umr., væri á næsta leiti og yrði lagt fyrir hv. Alþ. þá innan tíðar og enn fremur, að í þessu frv. mundu verða ýmsar réttarbætur, sem fælu í sér, að læknar mundu meira sækja eftir því að vera úti á landsbyggðinni, heldur en til þessa hefði verið. Og eftir að ég hef kynnt mér þetta frv., vil ég leyfa mér að færa þakkir til hæstv. heilbrmrh. og þeirra manna, sem hafa staðið að samningu þessa frv., sem hér liggur fyrir, vegna þess að ég tel, að þar sé verulega komið til móts við þá aðila, sem verið hafa illa settir í þessum efnum á undanförnum árum og ég vænti þess líka, að þeir menn, sem eiga að starfa eftir þessum lögum, kunni að meta þær ráðstafanir, sem löggjafinn gerir til þess að tryggja þeim betri aðbúð, en áður hefur þekkzt víðs vegar á landinu.

Ég er þó þeirrar skoðunar, að sú till., sem hv. 9. þm. Reykv. flytur varðandi það, að aðstoðarlæknar séu 12 í stað 8 í frv., sé til mikils öryggis, vegna þess að við vitum, að nú orðið þýðir ekki að ætlast til þess, að héraðslæknar fái ekki lögákveðinn hvíldartíma. Þessir menn verða ævinlega að vera til staðar og tiltækir undir mjög örðugum kringumstæðum, hvenær og hvar sem er í því umdæmi, sem þeim tilheyrir og víðar. Það er því lágmarkskrafa, sem hægt er að gera, að það séu til læknar, sem leysa þá af hólmi, þegar þeir eiga að taka sín lögákveðnu frí. Og ég tel, að það verði miklu öruggara með því að það séu 12 aðstoðarlæknar í stað 8, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég er líka sammála því, sem fram kom í vetur, þegar hv. 3. þm. Vestf. kom með till. um það, að ef læknishéruð yrðu læknislaus, þá yrði komið á móts við þá íbúa, sem í þeim héruðum væru, á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með því, að ríkið kostaði helming af þeim kostnaði, sem það hefði í för með sér að ná í lækni frá nærliggjandi læknishéruðum. Og í öðru lagi, að ríkið greiddi helming kostnaðar við að koma sjúklingum til sjúkrahúss, ef á þyrfti að halda.

Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum, þegar ég sá þetta frv., er ég varð þess áskynja, að það var ekkert um þessi efni í frv., einmitt vegna þess að hæstv. heilbrmrh. tók mjög vel undir þessa till. hv. 3. þm. Vestf. Og þessi till. hefur legið fyrir í hv. Nd., en ekki hlotið samþykki þar og hef ég tekið hana óbreytta upp. Og ég vænti þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþykkja till. mína á þskj. 640.

Ég tel, að þótt þessi till. verði samþykkt hér í þessari hv. þd., eigi það ekki að verða til þess að tefja þetta mál og það geti hlotið samþykki á þessu þingi, eins og ég veit, að við erum allir sammála um.

Ég vænti svo, að hv. þm. samþykki þá till., sem ég hef hér lagt fram um þessi efni.