20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

57. mál, eftirlit með útlendingum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Árið 1963 var þremur mönnum falið að semja ný lög um eftirlit með útlendingum, Sigurjóni Sigurðssyni lögreglustjóra í Reykjavík, Elíasi Elíassyni deildarstjóra í dómsmrn. og Jóni Sigurpálssyni fulltrúa og það var sérstaklega með tilliti til fyrirhugaðrar aðildar Íslands að samningi hinna Norðurlandanna um afnám vegabréfaeftirlits við landamæri milli Norðurlandanna frá 12. júlí 1957. Og þessi samningur er prentaður með hér í íslenzkri þýðingu og tvö fskj. til nánari skilgreiningar á málinu.

Í 14. gr. þessa samnings er gert ráð fyrir því, að Ísland geti gerzt aðili að samningnum, en hann var gerður milli hinna Norðurlandanna fjögurra og á 8. fundi Norðurlandaráðs, sem haldinn var hér í Reykjavík 1960, var einróma samþ. ályktun þess efnis, að Ísland gerðist aðili að áðurnefndum samningi. Eins og kunnugt er, hafa Íslendingar undanfarið og frá því 1955 ekki þurft að bera vegabréf, þegar þeir fara til Norðurlanda, en sama regla hafði þá verið tekin upp árið áður milli hinna Norðurlandanna. Það, sem hér er um að ræða, ef Ísland með þessari löggjöf mundi gerast aðili að samningnum, er nokkurs annars eðlis. Það felst í því að auðvelda samgöngur enn milli Norðurlandanna innbyrðis, með því að koma á sameiginlegu norrænu vegabréfaeftirlitssvæði, þannig að útlendingar og þá aðrir, en Norðurlandabúar eða þegnar Norðurlandanna og Íslands, séu ekki háðir vegabréfaeftirlitsskyldu við landamæri milli Norðurlanda, heldur eingöngu við norræn útmörk svæðisins.

Frv. þetta er komið frá Ed. og voru engar breytingar á því gerðar þar og þar af leiðandi enginn ágreiningur um málið í deildinni.

Fyrir utan þau atriði, sem ég nú þegar hef vikið að, felst í löggjöfinni almenn endurskoðun á l. um eftirlit með útlendingum, sem eru frá 1936 og þörfnuðust ýmissa lagfæringa og breytinga, sem ég sé ekki ástæðu til þess að gera sérstaklega grein fyrir hér á þessu stigi málsins, en í grg. er gerð mjög nákvæm grein fyrir hverri einstakri grein, sérstaklega þar sem um nýmæli er að ræða.

Þar sem nú er liðið langt á þing, vildi ég mega mælast til þess, að sú n., sem fær málið til athugunar, gæti haft nokkurn hraða á um meðferð þess og ég vænti þess, að ekki verði heldur hér í þessari hv. d. neinn ágreiningur um málið, en nokkru máli skiptir að koma frv. frá sem lögum á þessu þingi. Það stendur fyrir dyrum fundur milli Norðurlandanna, ég held í lok næsta mánaðar, í sambandi við aukin samskipti þeirra í sambandi við útlendingaeftirlit og væri okkur styrkur að því, að þetta mál hefði þá náð fram að ganga.

Ég vil að svo mæltu leyfa mér að mælast til þess, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.