05.05.1965
Neðri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

57. mál, eftirlit með útlendingum

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. til l. um eftirlit með útlendingum og eru nm. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Frv. þetta, sem er stjfrv., er komið frá hv. Ed., þar sem það var samþ. óbreytt.

Eins og hæstv. dómsmrh. tók fram við 1. umr. málsins, er frv. samið af n., sem í áttu sæti þeir Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík, Elías Elíasson deildarstjóri í dómsmrn. og Jón Sigurpálsson fulltrúi við útlendingaeftirlitið. Er aðalbreytingin, sem í frv, felst, miðuð við gildandi lög frá 1936 um eftirlit með útlendingum, en lagaákvæðin færð til samræmis við samning milli Norðurlandanna um vegabréfaeftirlit við landamæri Norðurlanda, en sá samningur var gerður árið 1957 og er hann prentaður sem fskj. með þessu frv.

Í 14. gr. þessa samnings er gert ráð fyrir, að Ísland geti gerzt aðili að honum og á fundi Norðurlandaráðs, sem haldinn var í Reykjavík árið 1960, var samþ. ályktun þess efnis, að Ísland gerðist aðili að áðurnefndum samningi og með frv. þessu eiga að vera sköpuð skilyrði fyrir, að svo geti orðið og hin íslenzka löggjöf um eftirlit með útlendingum færð til samræmis við það. Með margnefndum samningi milli Norðurlandanna eru öll löndin gerð að einu samfelldu vegabréfasvæði, þannig að útlendingar, þ.e. menn frá öðrum löndum en Norðurlöndum sjálfum, mundu þá aðeins vera háðir vegabréfaskyldu eða eftirlitsskyldu við útmörk þessa svæðis, þegar þeir koma til einhvers Norðurlandanna í fyrsta skipti, en eru síðan ekki háðir vegabréfsskyldu á milli Norðurlandanna innbyrðis.

Í frv. þessu eru svo nokkrar aðrar veigaminni breytingar og lagfæringar frá núgildandi löggjöf um eftirlit með útlendingum, sem miðaðar eru við breyttar aðstæður frá því, að l. voru sett árið 1936. Tel ég ekki ástæðu til að gera sérstaklega grein fyrir þeim breytingum, enda er í grg. með frv. gerð nákvæm grein fyrir öllum þeim breytingum og nýmælum, sem í frv. felast, miðað við gildandi lög.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns, leggur allshn. einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.