29.10.1964
Neðri deild: 8. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

16. mál, orlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt að heyra það, að yfirleitt taka hv. þm. þannig undir þetta litla frv., að ég vona, að það fái greiðan gang í gegnum þessa hv. d. Þó virtist mér, að einn hv. ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. v., hefði nokkrar aths. að gera við það. Hann taldi, að með þessu væri verið að íþyngja útgerðinni, þarna kæmi 1% í viðbót við annað prósent, sem hefði verið tekið með launaskatti, og svona væri haldið áfram, þangað til að mér skildist að greiðslugetu a.m.k. útgerðarmanna væri ofboðið. Út af þessu vildi ég aðeins segja, að stefnan eða þróunin í þessum málum, bæði í nágrannalöndum okkar og hér hjá okkur, hefur verið sú, að með vaxandi þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu og þeirri öru tækniþróun, sem byggð hefur verið upp hér á landi síðustu árin og áratugina, ætti að vera hægt bæði að stytta vinnudaginn og auka möguleikana til þess, að vinnandi menn, bæði á sjó og landi, gætu fengið nokkurt frí til þess að rétta sig upp frá venjulegu daglegu striti. Ég er ekki í vafa um það, að þessi prósenta, 6—7% í orlof til sjómanna, sem þessi hv. þm. minntist á sérstaklega, sker ekki úr um afkomuna. Ef talið er, að afkoman hafi verið það bág fyrir, að þetta 1% riði baggamuninn, þá held ég, að það sé meira gert úr heldur en raunverulega er.

Í nágrannalöndum okkar hefur, eins og hér hefur komið fram, verið stefnt að því að auka orlofið. Í Danmörku t.d. er orlofið nú eftir síðustu breytinguna, sem gerð var þar í vor, komið upp í 7 1/4%, og í öðrum löndum Norðurlanda er prósentutalan jafnvel eitthvað hærri, þannig að við erum, eins og líka kom hér fram, orðnir á eftir, og þetta frv. gerir ekki nema minnka bilið á milli okkar og Norðurlandanna, það er ekki að fullu unnið upp með þessu frv. Sjálfsagt kemur að því, að þessi 7%, sem hér eru nefnd, verði hækkuð enn, enda álít ég það vel koma til greina og vel vera hægt með þeim auknu þjóðartekjum, sem nú eru fyrir hendi.

Ég vildi um sjómennina sérstaklega segja það, að ég tel, að þeir með sínum langa vinnudegi hafi alveg sérstaka þörf fyrir að fá gott og verulegt orlof. Það er náttúrlega mikil þörf fyrir þá, sem inni sitja og á skrifstofum vinna eða við verksmiðjuvinnu innanhúss, að þeir komist út, en ég álít ekki síður, þó að sjómenn stundi sína vinnu á sjónum og utan dyra, að þá þurfi þeir líka til þess beinlínis að hvíla sig eftir hinn langa vinnudag að fá sitt orlof á sama hátt og aðrir menn í landinu. Annað væri ranglæti að mínu viti. Ég vonast því til, að þetta sjónarmið hv. 5. þm. Norðurl. v. eigi sér ekki marga fylgjendur í þessari hv. d. og frv. fái, eins og ég sagði áðan, greiða afgreiðslu hér í deildinni.