13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

177. mál, menntaskólar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. 11. þm. Reykv. (EÁ) sagði um þetta frv. almennt og hef engu við það að bæta.

En ég kvaddi mér hljóðs til þess að lýsa sérstakri ánægju yfir því, að með þessu frv., ef að lögum verður, er tekin sú stefna, föst og ákveðin, að stofna menntaskóla á Austurlandi, en stofnun menntaskóla á Austurlandi hefur lengi verið baráttumál Austfirðinga og við þm. Austf. höfum flutt það málefni oftar en einu sinni hér á hv. Alþingi. Nú vona ég, að úr þessu verði, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið ákvæði um þetta efni upp í menntaskólafrumvarpið. Ég veit, að ég mæli fyrir munn okkar allra þingmanna af Austurlandi, sem stöndum að flutningi frv. um menntaskóla á Austurlandi á öðru þskj., þegar ég lýsi ánægju minni yfir þessu.

Lögfesting menntaskólans á Austurlandi er stór atburður og áreiðanlega þýðingarmikill áfangi í menningarmálum Austurlands og við vonum, að það muni ekki líða á löngu, unz byrjað verður að framkvæma lögin og koma skólanum upp. Þörfin fyrir menntaskólana vex óðfluga, eins og ýmsir ræðumenn hafa bent á hér í dag, miklu örar, en við eigum auðvelt með að gera okkur grein fyrir núna. Og þó að mönnum hafi fundizt á undanförnum árum sem erfiðleikar mundu á því verða að setja á fót menntaskóla á Austurlandi og Vesturlandi, þá hygg ég, að það muni fara í þessum byggðarlögum eins og á Akureyri og í ljós komi, að þeir erfiðleikar eru ekki eins miklir og menn fyrir fram álíta. Ég hef bjargfasta trú á því, að eins fari í þessu tilliti bæði eystra og vestra og fór nyrðra á sinni tíð.

Ég vil svo að lokum taka undir það, sem hv. 2. þm. Vestf. (SB) sagði, að ólíkt væri viðfelldnara að breyta til og ákveða blátt áfram í þessum lögum, að stofna skuli menntaskála á Vestfjörðum og Austurlandi, en að skilyrðisbinda það, eins og gert er í frv., við fjárveitingu í fjárl. Það væri eðlilegra að ganga hreint til verks í þessu, eins og hann benti á og vil ég taka undir það. En ég endurtek ánægju mína yfir því, að skólastofnun á Austurlandi skuli hafa verið tekin inn í frv.