13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

177. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. hefur farið fram á það við stjórnarandstöðuna, að hér væri gengið frá ýmsum málum í dag, áður en þinginu væri gefið páskaleyfi og skal ég ekki eyða tíma hv. þd. með því að halda langa ræðu um þetta mál, aðeins vildi ég segja um það örfá orð.

Hæstv. ríkisstj. hefur tekið þann kost að flytja frv. til laga um menntaskóla og marka þar með nokkra stefnu í þeim málum í næstu framtíð og afgreiða þar með í raun og veru þau þrjú menntaskólafrumvörp, sem nú liggja fyrir þinginu. Ég held, að við flm. þessara frv. höfum ekkert við þessa aðferð hæstv. ríkisstj. að athuga og raunar get ég tekið undir það, að það hafi verið skynsamlegt úrræði að afgreiða þessi frv. öll þannig með einu. Ann ég hæstv. ríkisstj. þess vel að hafa gert þessi góðu mál að sínum og skal ég aðeins bæta því við, að það hefði gjarnan mátt nokkru fyrr vera.

Með þessu frv. er því slegið afdráttarlaust föstu, að menntaskólar skuli vera 6, tveir í Reykjavík, einn á Akureyri, einn á Laugarvatni, einn á Vestfjörðum og einn á Austurlandi skv. 1. málsl. 1. gr. Einnig er því slegið afdráttarlaust föstu, að skólarnir á Austurlandi og Vestfjörðum skuli vera heimavistarskólar. Það er í raun og veru nokkuð sjálfsagður hlutur, að slíkir skólar séu heimavistarskólar, en það er ágætt, að það er beint tekið fram í lagagreininni.

En þá kemur að 3. mgr., sem er um það, að menntaskólana á Vestfjörðum og á Austurlandi skuli stofna, þegar fé sé veitt til þess á fjárl.

Ég hafði, þegar ég sá þessa mgr. í frv., hugsað mér að bera fram brtt. um, að þessi málsliður félli niður, þar sem ég kom ekki auga á það, hvers vegna þyrfti að taka það sérstaklega fram um þá, en ekki hins vegar um skólann, sem við átti að bætast í Reykjavík? Ég hefði haldið, að eðlilegast væri, að ekkert „þegar“ eða „ef“ væri fremur sett um skólana á Vestfjörðum og Austfjörðum, heldur en um þann skóla, sem lögin, þessi sömu lög, ákveða, að byggður skuli í Reykjavík. Ég held, að ef þessi mgr. er látin standa í frv., geti það valdið efasemdum og tortryggni, máske alveg að óþörfu og eins og hv. tveir alþm. hafa þegar tekið fram, þá mun ég eindregið óska þess, að hæstv. ríkisstj. fallist á, að lagaákvörðunin um stofnun þessara skóla verði fortakslaus og ekki teknir út úr skólarnir á Vestfjörðum og Austfjörðum og þeir bundnir því, að fjárveitingar verði sérstaklega til þeirra upp teknar í fjárlögum. Ég fæ ekki betur séð, en að slíkt þurfi þá alveg eins um skólann í Reykjavík, og ef ekki þarf að taka það fram varðandi þann skóla, þá ætti þess ekki heldur að þurfa um þessa úti á landsbyggðinni.

Ég beini því þess vegna til hæstv. menntmrh. og þeirrar n., menntmn., sem tekur nú við málinu, að það verði athugað, hvort ekki verði á það sætzt, að sömu ákvæði gildi um alla þessa nýju skóla, sem þarna er ákveðið að stofna skuli skv. 1. mgr. 1. gr.

Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni með þetta frv. og mun styðja að því, að þau menntaskólafrumvörp, sem fyrir þinginu liggja, fái afgreiðslu með þessu frv. og tek því jákvæða afstöðu til þess.