13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

177. mál, menntaskólar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður um þetta frv., m.a. vegna þess, að ég á sæti í þeirri hv. n., sem mun fá það til athugunar, en þar sem mjög langur tími er nú liðinn frá því, að visað var til þeirrar n. frv. um menntaskóla, vildi ég segja um þetta örfá orð.

Frv. um menntaskóla á ísafirði, sem við Vestfjarðaþingmenn fluttum snemma á þessu þingi, hefur beðið 5 mánuði í n. án þess að vera tekið þar til afgreiðslu. Þó er það ekki svo, að þetta mál hafi ekki borið á góma á fundum n. Hv. form, menntmn., hv. 5. þm. Vesturl., hefur sýnt fullan vilja í því að leysa það mál, svo að allir geti við unað. Hann hefur látið okkur nm. fylgjast með því, hvað ríkisstj. hygðist fyrir í málinu og hann hefur verið milligöngumaður okkar nm. við hæstv. menntmrh. um þessi mál og við höfum beðið og beðið eftir lausn á málinu, að vísu ekki alveg rólegir kannske sumir okkar, en samt beðið eftir því, að till. kæmu frá hæstv. menntmrh.

Nú er það frv. komið fram og lýsi ég ánægju minni yfir því, hversu vel hefur tekizt til um lausn þessa máls. Ég tek undir það, sem tveir hv. Vestfjarðaþm. hafa hér sagt, að við erum ánægðir með þessa lausn í öllum aðalatriðum og sjáum árangur af því, sem við höfum beitt okkur fyrir bæði nú og á undanförnum árum.

Ég tek líka undir ummæli hv. 2. þm. Vestf. (SB) og hv. 5. þm. Vestf. (HV) um það, að tvö atriði í þessu frv. eru ekki alveg að okkar skapi, enda höfum við rætt um þetta okkar í milli, síðan frv. kom fram.

Fyrra atriðið er það, þar sem segir í frv., að menntaskóla á Vestfjörðum og Austurlandi skuli stofna, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. Nú hefur hæstv. menntmrh. gefið skýringu á þessu, sem er sú, að þar sem engin fjárveiting hefur enn verið veitt til slíkra skóla, en hins vegar á fjárl. fjárveiting til menntaskóla í Reykjavík, þá hafi það þótt lögfræðilega séð réttara að hafa þetta svona. En hann lýsir jafnframt því yfir, að hæstv. ríkisstj. muni leggja fram tillögur á næsta þingi, á fjárl. fyrir árið 1966, tillögur um fjárveitingar til þessara menntaskóla. Þar með sýnist mér, að hæstv. ráðh. hafi alveg fallizt á okkar sjónarmið, að þetta sé óþarft í frv. og hann sé okkur alveg sammála um þetta. Ég mun því leggja áherzlu á það í menntmn., að þetta ákvæði sé tekið út, enda engin þörf á því, eftir því sem hefur komið fram í ræðu hæstv. ráðh.

Um hitt atriðið, að það stendur í frv., að reisa skuli menntaskóla á Vestfjörðum, er það að segja, að allir, sem um þetta mál hafa fjallað utan þings og innan, eru sammála um, að þar komi ekki til greina nema einn staður, Ísafjörður og við erum því algerlega sammála um það, að þarna eigi að standa menntaskóli á Ísafirði, svo að ekki þurfi að koma neinn misskilningur um það, hvar honum er ætlað að vera, og býst ég við, að allir geti fallizt á þá breytingu.

Ég vil svo að lokum þakka hæstv. menntmrh. fyrir lausn þessa máls og jafnframt hv. formanni menntmn., 5. þm. Vesturl., fyrir það, að hann hefur beitt sér vel fyrir því að fá góða lausn á þessum málum á þessu þingi.