13.04.1965
Neðri deild: 68. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

177. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. því miður fannst mér kenna aðeins keims af undanbrögðum í svari hæstv. menntmrh. varðandi þessa aukasetningu: „þegar fé er veitt til þess á fjárl.“, varðandi Austfjarða- og Vestfjarðaskólana. Hann vitnaði til þess, að þetta hefði ekki þurft að taka fram varðandi menntaskólann nýja í Reykjavík, af því að það væri þegar búið að veita fjárveitingar til hans í fjárl. Þetta er ekki rétt, hæstv. menntmrh. Ég er hér með fjárl. og í þeim segir: „Til byggingar Menntaskólans í Reykjavík.“ Það er til hins almenna menntaskóla. Það hefur engin fjárveiting verið veitt á fjárl. mér vitanlega til nýs menntaskóla í Reykjavík, enda ekki lagaheimild fyrir honum, fyrr en nú með þessu frv., þegar það hefur verið gert að lögum.

Ég held því að annaðhvort eigi að standa: þegar fé er veitt til þeirra á fjárl. allra saman, ellegar þá að það sé með öllu óþarft að hafa þessa aukasetningu varðandi hina tvo skólana. Og einmitt eftir yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um það, að ríkisstj. sé ráðin í því að veita fé á næstu fjárl. til þessara skóla og ekki síður til Austfjarða- og Vestfjarðaskóla heldur en hinna, þá ætti aukasetningin að mega falla niður. En það hefur ekki fremur verið veitt fé á fjárl. til nýs menntaskóla í Reykjavík heldur en til hinna.

Ég er því þeirrar skoðunar enn sem fyrr, að „þegar“ og „ef“ eigi ekki fremur við í lagagreininni um Austfjarða– og Vestfjarðaskólana heldur en hina skólana, sem nefndir eru og mundum við vera miklu sáttari við hæstv. menntmrh., ef hann féllist á, að þetta félli niður.