06.05.1965
Efri deild: 82. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

177. mál, menntaskólar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þessu þingi og enn fremur á undanförnum þingum hafa einstakir þm. borið fram frv. um stofnun menntaskóla á Vestfjörðum og á Austurlandi og enn fremur um nýjan menntaskóla í Reykjavík. Þessi frv. hafa ekki haft brautargengi hér á hv. Alþ., þó að öllum sé það ljóst, að aukin menntun er óhjákvæmileg og stúdentafjöldinn fer hraðvaxandi. Það er enn fremur ljóst, að húsakynni Menntaskólans í Reykjavík eru orðin allt of þröng, miðað við þann nemendafjölda, sem þar stundar nám. Það er einnig skoðun þeirra, sem hafa beitt sér fyrir, að stofnaðir yrðu menntaskólar á Austurlandi og Vestfjörðum, að það styrki aðstöðu landshlutanna að fá þangað menntastofnanir af þessu tagi. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, hefur ríkisstj. tekið þessi mál upp á þann veg að sameina þau í eitt frv., sem efnislega nær sama marki og þau frv., sem hér er minnzt á. Þetta er vissulega fagnaðarefni, og menntmn. þessarar d., sem hefur fjallað um þetta mál, varð sammála um að leggja til að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.