28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

191. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því frv., sem hæstv. iðnmrh. hefur nú mælt fyrir. Ég vil taka það fram, að ég tel, að sú breyting sem hér er gert ráð fyrir, sé mjög til bóta, því að eins og hæstv. ráðh. gat um, hefur dregizt nokkuð að setja reglur um þessa mjög svo þýðingarmiklu breytingu, sem lögin, sem samþykkt voru í fyrra, gera ráð fyrir á lausaskuldum iðnaðarins og það er því fullkomlega eðlilegt, að það ár, sem farið hefur til undirbúnings þessarar reglugerðarsetningar eða þessarar fyrirkomulagsákvörðunar, sé tekið með, þegar nú á að fara að vinna að málinu og enn fremur finnst mér eðlilegt að taka eldri skuldirnar einnig með og raunar sjálfsagt og sjálfsagt athugunarleysi við setningu laganna á sínum tíma, því að þær geta í mörgum tilfellum verið ekki síður þungbærar heldur en þær, sem síðar er stofnað til, svo að ég tel sem sagt, að þetta frv. sé til bóta.

Það er vissulega rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði tekið langan tíma að koma þessu í kring og ég fagna því þess vegna sérstaklega, að nú skuli málið vera komið á það stig, eins og hæstv. ráðh. upplýsti, að úr þessari breytingu geti orðið, því að nauðsyn á þessum breytingum er mjög brýn.

Það er alkunna, að iðnaðurinn býr við mjög erfið kjör af ýmsum ástæðum og þar er lánsfjárskorturinn ekki hvað sízt þrándur í götu. Með því stórhækkandi verðlagi, sem verið hefur hér að undanförnu, krefst allur atvinnurekstur stöðugt meira rekstrarfjár og við vitum, að iðnaðurinn ekki hvað sízt hefur búið við nokkuð skarðan hlut, að því er þetta efni varðar. Ýmislegt fleira kemur til, sem knýr á, að iðnaðurinn fái nú góða úrlausn sinna mála. Eins og hér hefur raunar áður verið vikið að, hafa gerzt ýmsar þær breytingar á þjóðfélagsháttum, sem hafa gert aðstöðu iðnaðarins mjög erfiða: minnkaðir verndartollar, meiri innflutningur og meiri samkeppni erlendis frá frá fyrirtækjum og atvinnugreinum, sem þar búa við betri kjör, en við höfum getað búið okkar iðnaði og þess vegna er hætt við, að hann standi nokkuð höllum fæti og það er raunar svo, því að mörg iðnfyrirtæki hafa orðið að draga verulega saman rekstur sinn, sum jafnvel loka, eins og alkunnugt er. Erindi mitt hingað var því einungis það að fagna því, að þetta mál skyldi nú vera komið á það stig, sem hæstv. ráðh. upplýsti, að þess megi vænta, að iðnaðurinn njóti nú þeirrar fyrirgreiðslu, sem fyrir löngu var honum ákveðin.