04.05.1965
Efri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

191. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Lög um breytingu á lausaskuldum iðnaðarins, sem síðasta Alþ. samþykkti, voru afgreidd í maímánuði í fyrra. Það hefur dregizt lengur, en æskilegt hefði verið að koma þeim til framkvæmda, en ég hef lagt áherzlu á að hafa samráð við bankana og undir forustu Seðlabankans um reglugerð, sem sett yrði samkv. lögunum og framkvæmdin færi eftir. Þessi reglugerð verður gefin út væntanlega einhvern næstu daga. En við athugun málsins þótti eðlilegt að leggja til þessa breytingu, sem hér er gerð, að miða ekki eingöngu við lausaskuldir, sem stofnað hefur verið til á árunum 1957–1962, eins og l. gerðu ráð fyrir, heldur miða við árslok 1963 og ekkert fyrra mark um það, hvenær til skuldarinnar hefur verið stofnað.

Málið er komið frá Nd., og var fullt samkomulag um það þar. Vildi ég mega leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.