28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

192. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur gefið fyrirsvarsmönnum dráttarbrauta og skipasmíða fyrirheit um það að styðja þá í ráðagerðum, sem uppi eru til þess að stækka dráttarbrautirnar í landinu, bæði litlar og gamlar dráttarbrautir, sem nú eru ekki nægjanlega vel búnar til þess að sinna viðgerðarþörf hins nýja og stóra bátaflota okkar og einnig að veita einhvern atbeina, eftir því sem verða má, til þess að þessir aðilar geti hafið skipasmíðar í landinu í ríkari mæli, en verið hefur og þá fyrst og fremst stálskipasmíðar, sem verið hafa mjög litlar hér fram til þessa. Þetta frv. er einn liður í því að efna þessi fyrirheit. En eins og kunnugt er og fram kemur í aths., geta dráttarbrautir og skipasmiðastöðvar, ef þær eru byggðar af sveitarfélögum, komizt undir hafnarlög, þannig að ríkisábyrgðarþörf er ekki sérstök fyrir hendi. Sú almenna heimild, sem þar er í l., yrði notuð. En það eru ýmsir aðilar, sem nú eru með ráðagerðir í þessum efnum, einkafyrirtæki, sem skortir ríkisábyrgð í sambandi við ráðagerðir þeirra, en það verður að ætla, að það mundi greiða allverulega fyrir þeim í sambandi við lánsfjárútveganir.

Ég held, að það þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta frv., það skýrir sig sjálft, en vildi mega leggja til, að frv. yrði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og hv. iðnn.