30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

192. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Sigurður Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. hefur komið fram frá hæstv. ríkisstj. Það er áreiðanlega mjög tímabær ráðstöfun að reyna að hlynna eitthvað að atvinnu við dráttarbrautir og skipasmiðastöðvar, því að á undanförnum árum hefur uggvænlegt ástand myndazt í þessum atvinnugreinum víða um land, sérstaklega hvað viðvíkur skipasmíðunum. Þar kemur ekki eingöngu til greina skortur á stofnfé, heldur og skortur á rekstrarfé handa skipasmíðastöðvunum. Þessi rekstrarfjárskortur hefur m.a. orðið þess valdandi, að mörg hundruð millj. kr. í erlendum gjaldeyri hafa á nokkrum árum verið greiddar fyrir erlent vinnuafl við smíði fiskiskipa. Það hefði auðsjáanlega orðið mikill efnahagslegur ávinningur fyrir þjóðfélagið í heild, ef aðstæður hér heima fyrir hefðu verið þannig, að einhver hluti þessarar upphæðar, þótt ekki væri annað, hefði verið greiddur í vinnulaunum til íslenzkra aðila. Í sambandi við þetta má geta þess, að við byggingu fiskiskipa erlendis er kostnaðarverð skipsins lánað til lengri eða skemmri tíma. Venjulegast er lánað 70% af kostnaðarverðinu til nokkurra ára. En við smíði báta hér á landi verður skipasmíðastöðin að leggja fram allt kostnaðarverð bátsins þangað til 3–6 mánuðum eftir afhendingu hans, þegar fiskveiðasjóðslánið fæst. Sjá því allir, hvílíkur gífurlegur aðstöðumunur felst í þessu milli innlendra og erlendra skipasmiðastöðva. Þessi aðstöðumunur hefur gert það að verkum, að á sumum stöðum á landinu hefur orðið verulegur samdráttur í skipasmíðaiðnaðinum og jafnframt skapazt verri aðstaða til eðlilegs viðhalds bátaflotans á þessum stöðum, þar sem fagmenn, sem vinna við nýbyggingu og að viðhaldi skipanna, flytja burt sakir ónógrar atvinnu.

Það verður því samhliða, sem veittur er greiðari aðgangur að lánsfé til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva, að bæta úr þeim aðstöðumun, sem er við byggingu nýrra fiskibáta hér og erlendis. Þennan aðstöðumun má bæta t.d. með því að tryggja eðlileg stofnlán til smíða fiskiskipa innanlands, réttlátari tollaeftirgjöf af efni því, sem nota á til smíðanna og einnig lækkun á tollum á þeim áhöldum, sem eingöngu eru notuð til smíðanna. Sá mismunur, sem er á kostnaðarverði sambærilegra erlendra og innlendra báta, yrði ekki ýkjamikill, þegar ríkisvaldið væri búið að bæta svo samkeppnisaðstöðu innlendu skipasmíðastöðvanna sem mögulegt er.

Það væri ekki úr vegi að geta þess hér, að í júlí hefti blaðsins Íslenzkur iðnaður, árg. 1964, er að finna upplýsingar um opinberan stuðning við skipasmíðastöðvar í ýmsum löndum og kemur þar fram m. a., að í Vestur–Þýzkalandi, Frakklandi, Ítalíu og Bandaríkjunum fær skipasmíðaiðnaðurinn mikinn beinan fjárhagslegan stuðning auk annarrar óbeinnar aðstoðar.

En í sambandi við stofnlán til skipasmíða langaði mig til að spyrja hæstv. iðnmrh. um það, hvað líður framkvæmd á þál. frá síðasta þingi um eflingu innlendra skipasmíða, sem flutt var af hv. 11. landsk. þm. Þó að nauðsynlegt sé að hlynna að nýbyggingu skipa innanlands, er hitt atriðið ekki síður mikilvægt, að með samþykkt þessa frv. skapast betri aðstæður til að tryggja fjármagn til stofnlána vegna nýbygginga eða stækkunar dráttarbrauta, er fullnægi þörf þess fiskiskipaflota, sem komið hefur til landsins á undanförnum árum, til viðhalds og endurbóta. Um upphæð lánaábyrgðarinnar hef ég ekkert að athuga, en tel þó, að fljótt muni þurfa að sækja um heimild til hækkunar á upphæð ábyrgðarinnar.

Að lokum vil ég mælast til þess, að brtt. sú, sem er á þskj. 555 og flutt er af 3. landsk. þm., 5. þm. Reykv. og mér, um hækkun á þeim hluta kostnaðarverðs, er hæstv. ríkisstj. tekur ábyrgð á, úr 60% í 75%, sú till. verði samþykkt.