30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

192. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. var fyllilega sammála um afgreiðslu þessa máls efnislega, en við þrír nm. áskildum okkur rétt til að flytja till. varðandi upphæð ríkisábyrgðarinnar, það takmark, sem ríkisábyrgðin miðaðist við.

Það blandast áreiðanlega engum hugur um, að það ber mjög brýna nauðsyn til þess að koma upp hér dráttarbrautum, stækka þær, sem fyrir eru og skapa aðstöðu til þess, að skipasmíðar geti farið fram hér innanlands, og jafnhliða er það náttúrlega ljóst, að slík mannvirki kosta mikið fé og það er ekki líklegt, að einstaklingar eða eigendur slíkra mannvirkja, sem ekki væru á vegum bæjarfélaga eða hafnarsjóða, geti staðið undir þeim kostnaði nema að örlitlu leyti, — þeim mikla stofnkostnaði, sem hlýtur að vera við slík mannvirki. Af þeim sökum höfum við leyft okkur að flytja hér brtt. við þetta frv., sem er á þskj. 555, þess efnis, að í staðinn fyrir, að ríkisábyrgðin verði allt að 60%, verði hún 75%. Ég held, að það sé ekki neinn vafi á því, að þær lánastofnanir, sem kynnu að lána til þessara framkvæmda, muni fyrst og fremst gera kröfu til þess, að ríkisábyrgð sé að baki, og muni þá ekki af veita að hafa þessa heimild hærri en 60%. Þá má einnig geta þess, að til ýmissa fjárfrekra framkvæmda, svo sem síldarverksmiðjanna, stærri fiskiskipa, hefur ríkisábyrgðin verið allt að 80 eða 90% og er ekki óeðlilegt, að ríkisábyrgð til þeirra fyrirtækja, sem hér um ræðir, sé eitthvað í líkingu við það. Og þá má enn fremur geta þess, að slík mannvirki, sem byggð væru á vegum hafnarsjóða, njóta annarra kjara, fyrst og fremst 40% framlags og siðan 60% ríkisábyrgðar. Af þessum sökum leggjum við áherzlu á, að þetta mark, sem í frv. var sett, verði hækkað úr 60% í 75%, en fylgjum þó málinu mjög eindregið að öðru leyti.