16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

16. mál, orlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í samkomulagi því, sem gert var í júnímánuði s.l. á milli ríkisstj., Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, var eitt ákvæði um það, að orlof verkamanna, lögboðið lágmarksorlof, skyldi hækka úr 6% í 7%, þ.e.a.s. lengt úr 1 1/2 degi fyrir hvern unninn mánuð í 1 3/4 daga fyrir hvern unninn mánuð, sem þýðir 3 daga hækkun á ári, úr 18 dögum upp í 21.

Þetta var m.a. gert vegna þess, að orlofstímalengdin er nú orðin heldur minni hjá okkur en í nábúalöndunum. Í Danmörku er t.d. orlof 7 1/4 %, í Noregi mun það vera frá 1 1/2—2 dagar á mánuð, nokkuð mismunandi, og í Svíþjóð 2 dagar á mánuð. Þetta var þess vegna spor í þá átt að hafa orlofstímalengdina nokkuð svipaða og er í nágrannalöndunum. Þó að því marki sé ekki að fullu náð, þá er þetta þó í áttina.

Þetta frv. hefur verið til umr. í hv. Nd. og samþ. þar óbreytt, og ég tel ekki, að ég þurfi að hafa um það fleiri orð, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.