13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

179. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ísland er, sem kunnugt er, aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og er hlutur Íslands í stofnfé sjóðsins 111/4 millj. dollara, en meginhlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að veita þeim aðildarríkjum sínum, sem lenda í tímabundnum greiðslu- eða gjaldeyriserfiðleikum, hagkvæm yfirdráttarlán til þess að vinna bug á þessum tímabundnu erfiðleikum.

Á síðasta aðalfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem haldinn var í Tokyó í sept. s.l., var samþ. að auka stofnfé sjóðsins um 25%. Samkv. því á Ísland nú kost á því að auka hlutdeild sína í stofnfé sjóðsins úr 111/4 mill j. dollara í 15 millj. dollara og aukast þá að sjálfsögðu skilyrði Íslands, ef á þarf að halda, til þess að fá hina hagkvæmu aðstoð sjóðsins alveg tilsvarandi.

Ríkisstj. telur einsýnt, að það sé í samræmi við íslenzka hagsmuni að nota sér þá heimild, sem nú er fyrir hendi, til þess að auka hlutdeild sína í stofnfé sjóðsins úr þessum 111/4 millj. í 15 millj. dollara og þar með auka skilyrði sín til hinnar hagkvæmu aðstoðar hjá sjóðnum, ef á henni kynni að þurfa að halda síðar meir. Ef aukning hlutdeildar í stofnfé sjóðsins verður, gilda um það þær reglur, að aðeins 1/4 hluti þarf að greiðast, en hitt kemur fram sem reikningsinnstæða hjá Seðlabanka Íslands. En samkv. l. frá 1961 er Seðlabankinn fyrir hönd Íslands fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þannig að sá 1/4 af aukinni hlutdeild í stofnfé sjóðsins, sem greiða þyrfti, mundi ekki þurfa að greiðast úr ríkissjóði, heldur mundi Seðlabankinn leggja það fé fram.

Það er efni þessa frv. að heimila ríkisstj. að semja um slíka aukningu á hlutdeild Íslands í stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vona ég, að hv. alþm. séu um það sammála, að það sé í samræmi við augljósa hagsmuni Íslands, að ríkisstj. fái heimild til slíks samnings um þá auknu hlutdeild í stofnfé sjóðsins, sem mundi veita tilsvarandi möguleika á auknum yfirdrætti hjá sjóðnum, ef ríkisstj. telur á slíku þurfa að halda.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.