16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

16. mál, orlof

Björn Jónsson:

Ég verð að lýsa ánægju minni með, að þetta frv. er komið fram hér á hv. Alþingi, og yfir því, að það muni brátt verða að lögum. Eins og hæstv. félmrh. skýrði frá, er frv. flutt af hálfu ríkisstj. til efnda á loforðum, sem gefin voru af hennar hálfu í sambandi við samkomulag verkalýðshreyfingarinnar og hennar á s.l. vori, og er hvorki of né van um efndirnar á þessu loforði, því að frv. felur ekki í sér neinar aðrar breyt. á orlofslöggjöfinni en þær, sem loforð var gefið um.

Ég athugaði, eftir að ég var kominn til þings, umr., sem höfðu orðið um þetta í hv. Nd., og þar tók ég eftir því, að hæstv. ráðh. sagði við 1. umr. í hv. Nd., að ráðuneyti hans hefði haft orlofsmálin til athugunar að undanförnu, og hann sagði einnig þá og endurtók það núna, að sá áfangi, sem næðist með samþykkt þessa frv., væri ekki stærri en svo, að hann aðeins mjókkaði bilið milli íslenzkrar orlofslöggjafar og hliðstæðrar löggjafar á Norðurlöndum. Mér finnst ekki alveg fjarri, að í þessum ummælum felist a.m.k. óljós ádráttur um það, að meiri og frekari aðgerða sé von af hálfu hæstv. ríkisstj. í orlofsmálunum heldur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Og ég vildi gjarnan við þetta tækifæri fá frekari staðfestingu á því, ef þetta er rétt ályktun.

Það er vissulega rétt, að þetta samningsatriði frá samningum verkalýðsfélaganna í vor, sem hér á að lögfesta eftir gefnu loforði, er engan veginn fullnægjandi, þ.e.a.s. ef við hugsum svo hátt eða viljum hugsa svo hátt að vilja halda í við þróun þessara mála hjá grannþjóðum okkar og reyndar fleiri þjóðum, þar sem orlof er nú orðið annars staðar á Norðurlöndum allt að einum mánuði, eins og í Svíþjóð, eða 24 eða sem næst því 24 virkir dagar og orlofsfé 9%. Eftir sem áður vantar sem sagt verulega á það, að orlofsréttindi hér, bæði að þessu leyti og ekki síður um ýmis smærri atriði, séu ekki lakari en gerist sem lágmark annars staðar á Norðurlöndum.

Nú er það skoðun mín, að hér á landi séu einmitt alveg sérstakar ástæður og sérstök rök fyrir fullkomnum orlofsréttindum og að þau í raun og veru ættu að vera betri hér en annars staðar. Þar á ég einkanlega við það, að vinnudagur er hér stórkostlega miklu lengri en annars staðar þekkist, eða líklega sem svarar allt að 2—3 dagsverkum á hverri viku og jafnvel enn þá meira í sumum starfsgreinum. Slíkur vinnudagur kallar auðvitað m.a. á stórlega bætt orlofsréttindi, þá að vissulega sé þörf fyrir fleiri lagfæringar í sambandi við vinnudaginn og jafnvel enn þá meiri. Þar koma líka til sérkenni okkar atvinnuhátta og jafnvel stórbreytingar, sem hafa orðið á síðustu árum í atvinnurekstri okkar, t.d., svo að ég nefni einhver dæmi, í útgerð stórra síldveiðiskipa og annarra stórra fiskiskipa, sem af hagkvæmniástæðum mega helzt aldrei stöðvast nema til

allra nauðsynlegustu viðgerða, og svo að ég nefni annað dæmi, hina stöðugu vaktavinnu í 12 klst. a.m.k. og oft 18 á sólarhring í síldarverksmiðjunum. En þessi vaktavinna stendur oft hvern sólarhring frá 12—18 tíma á sólarhring í jafnvel 4—5 mánuði á ári nú orðið. Og það er margt af þessu tagi, sem skapar ný vandamál í sambandi við þann brýna rétt og ég vil segja um leið andlega og líkamlega þörf á eðlilegri hvíld frá störfum. Þar þyrftu auðvitað að koma til samhliða aðgerðir varðandi sjálfan hinn daglega vinnutíma og svo varðandi orlofsréttindin.

Allsherjarendurskoðun orlofslöggjafarinnar er því að mínu viti orðin ærið brýnt verkefni, sem hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj. ber að sinna og það án verulegrar tafar. Á síðasta Alþingi gerði ég með flutningi frv. um breyt. á orlofslögunum ofur litla tilraun til að fá fram nokkrar bráðnauðsynlegar leiðréttingar á orlofslögunum. Þær leiðréttingar voru í fyrsta lagi, að orlofsféð yrði hækkað í 8%, í öðru lagi, að fastir starfsmenn fengju orlofsfé greitt af aukavinnu, eins og skjólstæðingar verkalýðshreyfingarinnar fá með samningum, í þriðja lagi, að konur héldu orlofsréttindum sínum að fullu, þó að þær væru frá verkum allt að 3 mánuði vegna barnsburðar, og svo í fjórða lagi, að ríkisstj. yrði heimilað að fela verkalýðssamtökunum, þ.e.a.s. Alþýðusambandi Íslands, framkvæmd orlofslaganna, að því leyti sem hún er í höndum póststjórnarinnar.

Þessu frv., sem eins og menn sjá á þessum efnisatriðum fól þó aðeins í sér nokkrar lágmarksbreytingar til bóta, var því miður ekki betur tekið hér á hv. Alþingi en svo, að það hlaut ekki þinglega meðferð og var ekki afgreitt úr n. Ég vildi mega vona, að þetta frv., sem hér er rætt um, mætti þrátt fyrir það, hvernig það er til komið, skoðast sem vottur um einhverja hugarfarsbreytingu, að einhverra hugarfarsbreytinga sé von hér innan veggja í þessu mikilvæga réttindamáli.

Það er svo að lokum vissulega ástæða til þess að staldra aðeins við þá staðreynd, að það löggjafaratriði, sem hér ræðir um, er til komið með þeim hætti, sem raun er á, þ.e.a.s. með því, að það er sett á oddinn af hálfu verkalýðshreyfingarinnar í samningum við atvinnurekendur og við ríkisstj. um kaup og kjör. Ég fyrir mitt leyti fagna því síður en svo, að þessar úrbætur skuli bera þennan veg að. Ég tel nefnilega, að hér sé ekki um slíkt mál að ræða, að það sé æskilegt eða eðlilegt, að verkalýðshreyfingin sjái sig til neydda að nota það sem skiptimynt við gerð kaupsamninga. Þessi skoðun mín byggist á því, að ég tel, að hér sé fyrst og fremst um að ræða hluta af einum sjálfsagðasta mannlega rétti, þ.e.a.s. þeim að mega njóta hæfilegrar hvildar frá störfum. Og fullnæging þess réttar er ekki að mínu viti neitt sérhagsmunamál verkalýðssamtakanna, þó að hún sé baráttumál þeirra, heldur að hér sé um að ræða almennt þjóðfélagslegt réttindamál og þjóðfélagslegt hagsmunamál, en ekki fyrst og fremst kaupgjaldsatriði. En það er einmitt þessi grundvallarhugsun, sem er nú orðið og hefur verið alllengi viðurkennd í verki um Norðurlönd og víðar, með því að löggjafarvaldið hefur tekið þar meira eða minna í sínar hendur frumkvæði í þessu máli, og það er þetta, sem hefur gert þann gæfumun, sem er á meðferð þessara mála og framkvæmd þar og hér.

Ég vil svo ljúka þessum fáu orðum mínum með því að óska þess, að einmitt þessi afstaða, eins og hún hefur birzt í félagsmálalöggjöf Norðurlanda til orlofsmálanna, og raunar til annarra verkalýðsréttindamála almennra einnig, mætti sem fyrst skapast hjá þeim, sem ráða úrslitum mála hér á hv. Alþingi.