16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

16. mál, orlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði eftir mér frá umr. í Nd. Ég sagði þar frá því, að ráðuneytið hefði að undanförnu haft þetta mál í athugun, og einmitt við þá athugun kom í ljós, að orlofstímalengdin í næstu nágrannalöndum okkar, á Norðurlöndum, væri meiri hjá þeim en hún hefur verið hjá okkur.

Hins vegar var það samkomulag, sem gert var í júnímánuði s.l. milli Vinnuveitendasambandsins, Alþýðusambandsins og ríkisstj., orsökin til þess, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt. Það samkomulag, sem gert var í júnímánuði s.l., var meira en samkomulag á milli ríkisstj. og Alþýðusambandsins. Það var líka samkomulag milli þessara tveggja aðila og vinnuveitenda, þannig að ríkisstj. gat ekki annað gert, á meðan þetta samkomulag gilti, en að flytja frv., sem hér liggur fyrir, eins og samkomulagið gerði ráð fyrir að það yrði. Ég hef ástæðu tiI þess að ætla, að ef orlofstímalengdin væri gerð meiri en frv. fer fram á og samkomulagið var um, þá hefðu vinnuveitendasamtökin kannske ástæðu til þess að segja, að við hefðum rofið samkomulagið með því að flytja frv. um lengri orlofstíma en samið var um. Ég tel þess vegna, að ríkisstj. sé bundin af samkomulaginu, sem gert var á milli þessara þriggja aðila, á meðan samkomulagið er í gildi. Hitt er svo annað mál, að ég tel sjálfsagt að athuga þessi mál áfram, og kemur þá vitanlega til álita, hvort ekki er hægt að fara út í að lengja þann orlofstíma, sem í þessu frv. er ákveðinn. Mismunurinn á ákvæðum þessa frv. og t.d. orlofstímanum í Noregi og Danmörku er ekki ýkjamikill. Það er Svíþjóð, sem er þarna mest á undan, hefur 2 daga fyrir hvern unninn mánuð, þar sem við höfum ekki nema 1 3/4. Það er mesti munurinn, en á hinum Norðurlöndunum er munurinn ekki ýkjamikill, þó að hann sé nokkur. Sjálfsagt tel ég að athuga það síðar, hvort ekki væri unnt að þoka okkar orlofstíma eitthvað enn áfram til jafns við það, sem gerist hjá þeim. Hitt tel ég ekki rétt, að við ofan í það samkomulag, sem gert var við atvinnurekendur, færum, á meðan það samkomulag er í gildi, lengra en samkomulagið gerir ráð fyrir.

Hv. þm. sagði, að frv. væri hvorki of né van við það, sem samningurinn gerði ráð fyrir. Það er einmitt það, sem það er. Það er hvorki of né van. Það er nákvæmlega það, sem um var samið, og ekki annað. Hefðum við farið neðar, þá hefði Alþýðusambandið haft ástæðu til að segja, að við hefðum rofið samkomulagið. Hefðum við farið lengra, hefði Vinnuveitendasambandið haft ástæðu til, að mínu viti, að segja, að við hefðum rofið samkomulagið. Svona varð það að vera, nákvæmlega eins og um var samið.