25.02.1965
Efri deild: 46. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

8. mál, náttúrurannsóknir

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra, að það er enginn grundvallar skoðanamunur milli okkar hv. 3. þm. Norðurl. v. um þá meginstefnu, sem fylgja eigi í þeim málum, sem hér er um að ræða. En ég vildi aðeins bæta einu atriði við það, sem ég sagði áðan um þetta efni, þar eð mér því miður láðist að segja þar söguna alveg alla og það gæti valdið nokkrum misskilningi.

Þegar ég lét þess getið, að ætlazt væri til þess, að háskólamenntun framhaldsskólakennara yrði á vegum heimspekideildar háskólans, á það við framhaldsmenntun kennara í hugvísindagreinum. En ég hefði átt að láta þess getið, að það er tilætlun háskólans og gert í fullu samráði við menntmrn., að framhaldsmenntun kennara í raunvísindagreinum verði á vegum verkfræðideildar. Ástæða þess, að ég gat einungis um hlut heimspekideildar í þessum efnum, er sú, að hennar till. eru þegar fullsamdar, en verkfræðideildin hefur ekki enn lokið sinni tillögugerð um málið. Og ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt í því formi, sem það er nú og ekki gert ráð fyrir að sameina Náttúrufræðistofnun háskólanum sem kennsludeild, er sú, að ætlunin hefur verið að gera slíkt ekki fyrr en tekin væri upp kennsla í almennum náttúruvísindum við háskólann. Sú kennsla, sem þar er talin nauðsynleg í sambandi við menntun framhaldsskólakennara, er með góðu móti talin geta farið fram á vegum verkfræðideildar og ekki þörf á að koma upp sérstakri náttúrufræðideild við háskólann til þess að sjá framhaldsskólakennurum fyrir menntun í sínum kennslugreinum. Þess vegna er til þess ætlazt, að sú menntun fari fram á vegum verkfræðideildar. Vona ég, að þessar upplýsingar nægi til þess að skýra það mál, sem hv. þm. vék að í síðustu ræðu sinni.