16.11.1964
Efri deild: 17. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

16. mál, orlof

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins gefa þá yfirlýsingu vegna ummæla hv. 4. þm. Norðurl. e., að það voru engir baksamningar gerðir við neina í viðræðunum í júnímánuði s.l., ekki við Alþýðusambandið né vinnuveitendur. En einmitt vegna þess, að engir baksamningar voru gerðir, þá telur ríkisstj. sig bundna við þau ákvæði samningsins, sem þar greinir, því að ef við færum nú að bera fram frv., sem færi í bága við samkomulagið, þá teldi ég, að sá aðilinn, sem það gengi út yfir, gæti með réttu talið, að það væri verið að brjóta samkomulagið. Eg er ekki með þessu að draga í efa, að Alþingi geti á hvaða stundu sem er sett lög um breyt. á orlofslögunum og öðrum lögum. En hinu tel ég ríkisstj. vera bundna af, að flytja ekki eða beita sér fyrir, að hér verði sett lög um þetta atriði öðruvísi en samkomulagið, sem gert var í sumar, gerir ráð fyrir. Verði af ríkisstj. hálfu farið út fyrir þetta, þá finnst mér, að það sé alveg óvefengjanlegt, að um brot á samkomulaginu sé að ræða. Hitt er svo aftur frjálst, bæði hv. 4. þm. Norðurl. e. og öðrum hv. þm., að bera fram hvaða till. sem er í þessu skyni og Alþingi að samþ. þær till. eða hafna þeim. Það er allt annað mál. En á meðan þetta samkomulag er í gildi, tel ég ríkisstj. bundna af að beita sér ekki fyrir neinni þeirri breytingu á lögunum, sem brýtur í bága við samkomulagið.