10.05.1965
Efri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

8. mál, náttúrurannsóknir

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég hafði við 3. umr. þessa máls hér í hv. d. flutt við frv. nokkrar brtt. Þessar brtt. voru í samræmi við óskir og ábendingar háskólaráðs, sem það hafði sent með erindi n. þeirri, sem um málið fjallaði hér í hv. d. Þessar brtt. mínar voru samþ., og ég er hv. d. þakklátur fyrir það og er þess fullviss, að háskólaráð metur þann velvilja og þá tillitssemi í sinn garð, sem fram kom með þessari afstöðu hv. d. Nú sé ég, að hv. Nd. hefur aftur fært frv. í sitt fyrra horf. Það tel ég miður farið. Hins vegar tók ég það fram, þegar ég talaði hér við 3. umr. málsins, að ég hefði skilning á óskum forstöðumanna Náttúrugripasafnsins um það, að sett yrði ný löggjöf um starfsemi stofnunarinnar og vildi ekki eiga hlut að því, að setning slíkrar löggjafar yrði hindruð, jafnvel þótt ég kynni að verða óánægður með hana í einstökum atriðum. Ef ég nú flytti þessar brtt. mínar að nýju og þær yrðu aftur samþ., yrði málið að koma fyrir sameinað þing, þannig að með tilliti til þess, að þingið á nú aðeins eftir að starfa í 2 daga, má telja lítt framkvæmanlegt að koma þessari löggjöf gegnum þingið, ef svo fer. Með tilliti til þessa svo og fyrrgreindrar afstöðu minnar hef ég ákveðið að flytja þessar till. ekki að nýju við þessa umr.