05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

166. mál, víxillög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með shlj. atkv. Efni þess er að samræma ákvæði víxillaga um dráttarvexti eða vexti af víxlum, sem lenda í vanskilum, gildandi ákvæðum um vexti af vanskilaskuldum. Skv. ákvæðum víxillaga eru víxilvextir eftir gjalddaga víxils þeir sömu og fyrir gjalddaga auk þóknunar, sem er 1/3% af víxilfjárhæðinni. Um s.l. áramót hækkaði Seðlabankinn hins vegar vexti af vanskilaskuldum, í því skyni að stuðla að aukinni skilvísi við greiðslu skulda. Nú er þannig munur á almennum dráttarvöxtum skv. ákvæðum Seðlabankans og vöxtum af vanskilavíxlum.

Ef þetta frv, yrði að lögum, mundu dráttarvextir vegna víxilskulda verða 1% fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði, að óbreyttri ákvörðun Seðlabankans um dráttarvexti innlánsstofnana og vextir af vanskilavíxlum því í samræmi við aðra vanskilavexti, sem gilda skv. ákvörðun Seðlabankans.

Þetta frv. var upphaflega flutt í nánu samráði við bankana og vona ég, að hv. Ed. fallist á að samþ. frv. nú á þessu þingi.

Að svo mætu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. fjhn.