30.03.1965
Neðri deild: 60. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

168. mál, tékkar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Einnig þetta frv. er flutt í framhaldi af þeirri ákvörðun Seðlabankans um s.l. áramót að nota sér heimild í l. um Seðlabankann að ákveða hæð dráttarvaxta. í þessu frv. felst það eitt, að verði það að l., skulu sömu dráttarvextir gilda vegna vanskila tékka og Seðlabankinn hefur ákveðið almennt á hverjum tíma, þ.e.a.s. dráttarvextirnir skulu vera vegna tékkaskulda 1% pr. mánuð eða brot úr mánuði að óbreyttri þeirri ákvörðun Seðlabankans, sem hann tók um s.l. áramót um dráttarvexti almennt, og mundu dráttarvextir af vanskilatékkum þá einnig þannig breytast í kjölfar breyttrar ákvörðunar Seðlabankans um dráttarvexti vegna vanskila.

Ég vil leggja til, að þessu máli verði einnig vísað til 2. umr. og hv. fjhn.