30.04.1965
Neðri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

196. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. felast tvær smávægilegar breytingar á gildandi l. um Listasafn Íslands. Hin fyrri lýtur að því, með hverjum hætti menningarsjóður skuli greiða Listasafninu það fé, sem honum er ætlað að greiða því, til listaverkakaupa. Í gildandi l. segir, að menningarsjóður skuli af tekjum sínum greiða Listasafninu a.m.k. 1/2 millj. kr. til listaverkakaupa á ári. En þegar l. voru sett, var þessi upphæð um það bil 1/6 af árlegum tekjum menningarsjóðs. Nú hefur reynslan hins vegar orðið sú, að árlegar tekjur menningarsjóðs eru nokkuð breytilegar frá ári til árs og þykir því mun eðlilegra, að ákvæðið sé þannig, að menningarsjóður skuli greiða tiltekinn hluta af tekjum sínum árlega til Listasafnsins til listaverkakaupa, þannig að fé hækki og lækki hlutfallslega með breytingum á tekjum menningarsjóðs og þar sem hlutfallið var 1/6, þegar l. voru sett, þykir eðlilegast að ákveða það nú 1/6 .

Síðara atriðið lýtur að því, hverjir skuli vera á kjörskrá við kosningu í safnráð, en samkv. gildandi l. eiga myndlistarmenn að kjósa 3 af 5 meðlimum safnráðsins. Ákvæði gildandi l. um þetta efni eru þau, að á kjörskránni skulu vera meðlimir í þeim myndlistarfélögum, sem starfandi eru og þannig var kjörskráin höfð, þegar fyrst var kosið til safnráðsins á árinu 1961. Nú hafa viðræður við forustumenn myndlistarmanna hins vegar leitt það í ljós, að hætta gæti verið á því að ákvæði l., eins og þau eru, gætu reynzt mjög illframkvæmanleg við næstu kosningu í safnráð, sem á að fara fram á hausti komanda. Ég er þeirrar skoðunar, að eins og lagagr. um þetta efni er orðuð, væri t.d. ekki hægt að neita myndlistarfélagi, sem nemendur Myndlista- og handíðaskólans stofnuðu eða meðlimum slíks félags, sem nemendur Myndlistaskólans stofnuðu, um að vera á kjörskránni, ef þeir stofnuðu myndlistarfélag og óskuðu eftír því, að meðlimir þess yrðu teknir á kjörskrá, vegna þess að í frv. segir ekkert annað en það, að á kjörskrána skuli taka meðlimi í þeim félögum myndlistarmanna, sem starfa. Það vantar m.ö.o. í lögin, eins og þau nú eru, alla skilgreiningu á því, hvað skuli teljast félag myndlistarmanna eða hvaða menn skuli teljast myndlistarmenn. En bæði safnráðið og forustumenn þeirra tveggja myndlistarfélaga, sem nú starfa, eru allir á einu máli um, að þetta lagaákvæði sé ófullnægjandi og ekki sé hægt að efna til annarra kosninga til safnráðs á grundvelli þessara lagaákvæða. Þess vegna er hér lagt til, að þessu verði breytt í þá átt, að á kjörskránni í haust o.s.frv. verði allir þeir, sem nú eru í þeim tveim félögum myndlistarmanna, sem starfandi eru. En þá þarf auðvitað að finna einhverjar reglur fyrir því, hverjum skuli í framtíðinni bæta á kjörskrána. Þessir aðilar, sem ég gat um áðan, safnráðið og forustumenn hinna tveggja félaga, sem nú starfa, eru á einu máli um, að ekki sé hægt að styðjast við þá reglu, sem l. nú byggja á, þ.e. að viðbótarfélagar í þessum tveim félögum eða ný myndlistarfélög skuli eiga rétt á því að fá sína menn á kjörskrána. Þess vegna er gert ráð fyrir því að á kjörskrána skuli framvegis bæta þeim íslenzku myndlistarmönnum, sem tvö af eftirtöldum atriðum eiga við um: 1. Að myndlistarmaðurinn hafi átt verk á opinberri listsýningu innanlands eða utan, sem íslenzka ríkið beitir sér fyrir eða styður. 2) Að listamaðurinn hafi a.m.k. einu sinni hlotið listamannalaun af fé, sem Alþ. veitir árlega til listamanna og úthlutað er af sérstakri n., sem Alþ. kýs til þess. 3) Að verk hafi verið keypt eftir listamanninn til Listasafns Íslands, eftir að lög nr. 53 frá 1961, um Listasafnið, tóku gildi. M.ö.o.: ef tvö af þessum þrem atriðum eiga við um myndlistarmann, ber að taka hann á kjörskrá til kosningar á fulltrúa myndlistarmanna til safnráðs.

Um efni þessa frv. hefur verið haft samráð við safnráð Listasafnsins og forustumenn Félags ísl. myndlistarmanna og Myndlistarfélagsins, en þau tvö félög myndlistarmanna starfa nú og er mér óhætt að segja, að efni frv. hafi stuðning allra þessara aðila. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. Alþ. sjái sér fært, þótt ekki sé langt eftir þingtímans, að afgreiða þetta frv. og legg því til, að frv. verði vísað að lokinni þessari 1. umr. til 2. umr. og hv. menntmn.