05.05.1965
Efri deild: 80. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1427)

196. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með shlj. atkv. samkvæmt einróma meðmælum hv. menntmn. deildarinnar. Í því felast tvær smávægilegar breyt. á gildandi lögum um Listasafn Íslands.

Í gildandi lögum, sem eru frá árinu 1961, er svo kveðið á, að menntamálaráð skuli árlega greiða Listasafni Íslands 1/2 millj. kr. til listaverkakaupa safnsins. Þegar lögin voru sett, var 1/2 millj. kr. sem næst 1/8 hluti af árlegum tekjum menningarsjóðs. Nú hefur reynslan hins vegar sýnt, að tekjur menningarsjóðs eru nokkuð breytilegar frá ári til árs og þykir þess vegna skynsamlegra að hafa lagaákvæðið þannig, að menningarsjóður skuli árlega greiða a.m.k. 1/6 af tekjum sínum til Listasafnsins til listaverkakaupa í stað þess, eins og segir í gildandi lögum, a.m.k. 1/2 millj. kr.

Hin breytingin, sem í frv. felst, lýtur að samningu kjörskrár fyrir kosningu þeirra þriggja fulltrúa myndlistarmanna, sem lögum samkvæmt skulu eiga sæti í safnráði Listasafns Íslands. Í l. frá 1961 eru ákvæðin um kjörskrána þannig, að á kjörskrána skuli taka félaga þeirra félaga myndlistarmanna, sem starfa, þegar kosning fer fram og þannig var þetta, þegar fyrst var kosið í safnráðið haustið 1961. Nú hefur verið á það bent, bæði af hálfu safnráðsins sjálfs og af hálfu forustumanna þeirra tveggja myndlistarfélaga, sem nú eru starfandi hér á landi, þ.e. Félags íslenzkra myndlistarmanna og Myndlistarfélagsins, að ákvæði þessi séu ekki nógu skýr. Ef t.d. stofnað yrði nýtt félag, sem kallaði sig myndlistarfélag, jafnvel þótt t.d. meðlimir þess væru nemendur í Myndlista- og handiðaskólanum eða einhverjir aðrir einstaklingar, þá mundi skv. ákvörðun laganna, eins og þau eru núna, ekki vera unnt að neita að taka félagsmenn slíks félags á kjörskrá við kosningu í safnráð, og væri slíkt vitanlega óheppilegt. En samkomulag er um það milli safnráðsins og forustumanna þeirra tveggja myndlistarfélaga, sem nú starfa, að í þessum tveim myndlistarfélögum séu nú allir þeir, sem með sanni megi kalla starfandi myndlistarmenn á Íslandi og mundu því að sjálfsögðu verða á kjörskránni næsta haust.

Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að á kjörskránni í haust, — en í haust á að kjósa safnráð í annað sinn, — skuli vera allir þeir, sem nú eru félagar í hinum tveim myndlistarfélögum, Félagi íslenzkra myndlistarmanna og Myndlistarfélaginu og jafnframt eru sett ákvæði í frv. um það, hvernig kjörskráin skuli geta stækkað á komandi árum og er gert ráð fyrir því, að á kjörskrána skuli taka myndlistarmenn, ef tvö af eftirtöldum þrem atriðum eiga við um myndlistarmennina: 1) Að þeir hafi átt verk á opinberum listsýningum innanlands eða utan, sem íslenzka ríkið beitir sér fyrir eða styður. 2) Að myndlistarmaðurinn hafi a.m.k. einu sinni hlotið listamannalaun af fé því, sem Alþingi veitir árlega til listamanna af úthlutunarnefnd, sem Alþingi kýs. 3) Að verk hafi verið keypt eftir listamanninn á Listasafn Íslands, eftir að lögin um það tóku gildi. Á kjörskránni í haust mundu þannig verða skv. þessu frv., ef að lögum verður, allir þeir, sem nú eru meðlimir í báðum myndlístarfélögunum og auk þess þeir aðrir myndlistarmenn, sem tvö af þessum atriðum eiga við um, ef einhverjir kynnu að vera, en það mun ekki vera, eftir því sem lausleg athugun hefur leitt í ljós. Hins vegar eru þessi lagaákvæði, sem ég var að geta um núna síðast, nauðsynleg vegna framtíðarinnar, því að auðvitað verður að vera hægt að stækka kjörskrána og þá þykir eðlilegra, að sú stækkun fari fram eftir þessari viðmiðun, heldur en hún fari þannig fram, að menn bætist í myndlistarfélögin eða ný myndlistarfélög yrðu stofnuð.

Ég skal að síðustu geta þess, að frv. þetta er flutt að höfðu rækilegu samráði við safnráð Listasafns Íslands og forvígismenn beggja myndlistarfélaganna, sem nú starfa í landinu, Félags íslenzkra myndlistarmanna og Myndlistarfélagsin, og má því segja, að eining sé um það, að þessar breytingar séu æskilegar, meðal íslenzkra myndlistarmanna.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn., og vildi mjög mælast til þess við hv. menntmn., að hún afgreiddi málið þannig, að það geti hlotið fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi, vegna þess að miklir erfiðleikar mundu vera á því að haga kosningu til nýs safnráðs skynsamlega á næsta hausti, ef þessi breyting næði ekki fram að ganga.