03.11.1964
Neðri deild: 10. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Fyrir rúmum 250 árum skrifaði enskur rithöfundur, Jonathan Swift, bækur um ferðalög Gullivers. Þar má m.a.finna þessa setningu:

„Hver sem gæti látið tvö kornöx eða tvö grös gróa á stað, þar sem áður aðeins greri eitt, væri meiri velgerðarmaður manna og þjóða, en allir stjórnmálamenn samanlagt.“

Í einni af frægustu ræðum, sem Harold Wilson, foringi brezkra jafnaðarmanna, hefur haldið, þeirri sem hann hélt á síðasta flokksþingi Verkamannaflokksins í Scarborough, þá nýkjörinn foringi flokksins, leggur hann einmitt út af þessari setningu hins enska rithöfundar, sem ég vitnaði til í upphafi máls míns. Hann gerði það til þess að leggja áherzlu á þýðingu vísinda og rannsókna fyrir þjóðarbúskap Breta og velmegun almennings í landinu. Undir 13 ára undanfarandi íhaldsstjórn var svo komið í Bretlandi, að hagvöxtur þar í landi var sá lægsti eða með þeim lægstu í allri Vestur-Evrópu. Harold Wilson sá enga aðra leið færari til þess að rétta við hlut lands síns á þessu sviði, en að leggja til að stórefla menntun og hvers kyns rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Flokkur Harolds Wilsons, Verkamannaflokkurinn, setti einmitt þetta atriði sem stefnuskráratriði nr. eitt í þeim kosningum, sem nýafstaðnar eru í Bretlandi, með þeim árangri, sem ég veit, að öllum hv. dm. er kunnur. Harold Wilson situr á forsætisráðherrastóli í Bretlandi og verður vafalaust mjög lærdómsríkt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með því, hvernig hann hyggst endurskipuleggja brezka atvinnuvegi með því að taka í stórauknum mæli vísindi, skipulagningu og tækni í þjónustu atvinnuveganna.

Ég hef nefnt þetta dæmi til þess að undirstrika mikilvægi þess frv., sem hér er nú til 1. umr. í hv. Nd., enda þótt ég viti, eins og raunar hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan, að frv. þetta er ekki svo víðfeðmt, að það nái yfir alla vísindastarfsemi og rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna, heldur er hér fyrst og fremst um að ræða, hvernig skipuleggja eigi rannsóknarstarfið, til þess að það gefi sem hagnýtasta og bezta raun fyrir atvinnuvegina og landsfólkið.

Mér þykir, til viðbótar þeim upplýsingum, sem komu fram í ræðu hæstv, ráðh. hér áðan, rétt að fara örfáum orðum um sögu þessa máls frá byrjun, því að eins og hæstv. ráðh. tók fram, er mál þetta mjög mikilvægt,og gegnir því furðu, hversu mikill seinagangur hefur verið á gangi málsins, frá því er því var skilað í hendur hæstv. ráðh. af atvinnumálanefnd á árinu 1960, eins og ég mun koma að síðar.

Saga þessa máls er nú nær 10 ára gömul. Hún hófst, er samþykkt var hér á hv. Alþingi till. til þál. þann 20. apríl 1955 um kosningu mþn. til að gera till. um nýjar atvinnugreinar og hagnýtingu náttúruauðæfa landsmanna. N. þessi hlaut nafnið atvinnumálanefnd ríkisins, og skipuðu hana þessir menn: Hermann Jónasson alþm., Magnús Jónsson alþm., Einar Olgeirsson alþm., Eggert G. Þorsteinsson alþm., Davíð Ólafsson alþm., Vilhjálmur Þór bankastjóri og Jóhann Jakobsson verkfræðingur. Í árslok 1956 vék Hermann Jónasson, sem þá var fyrir skömmu orðinn forsrh., úr n., en í stað hans var kjörinn Runólfur Þórarinsson verkfræðingur og framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðju ríkisins. Með þessari nefnd, að samningu þessa frv., störfuðu svo Steingrímur Hermannsson framkvæmdastjóri rannsóknaráðs ríkisins og Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur.

Atvinnumálanefndin vann við undirbúning þessa frv. mikið og gott starf. Hún sneri sér til flestra þeirra atvinnugreina, þeirra félaga og þeirra einstaklinga, sem með atvinnurekstur hafa að gera í landinu og ákvæði frv. kynnu að snerta og ræddi við þá um undirbúning frv. Í apríl mánuði árið 1960 var svo komið, að meiri hl. atvinnumálanefndar, þ.e.a.s. 6 af 7 nm., lagði fyrir viðkomandi ráðh. fullútbúið frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Atvinnumálanefndin varð ekki alveg sammála um frv. þetta, eins og hv. 3. þm. Reykv. lýsti hér áðan. Hann taldi sig ekki geta átt samleið með meiri hl. n. af ástæðum, sem hann hefur hér greint frá og ég hirði ekki um að endurtaka, en skilaði hins vegar álíti sjálfur, í byrjun janúar 1962, eftir því sem ég bezt fæ séð af þeirri grg., er fylgir frv. til l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem var lagt fram hér í desembermánuði 1962.

Í ágústmánuði 1961 var efnt til ráðstefnu í Reykjavík, eins og hæstv. ráðh. vék að örfáum orðum áðan, ráðstefnu raunvísindamanna um rannsóknarmálefni í þágu atvinnuveganna. Ráðstefna þessi var fjölsótt og þótti takast vel. Til grundvallar umræðum á ráðstefnu þessari, sem sótt var af flestum vísindamönnum í raunvísindum hérlendum og raunar fleiri, var álit meiri hl. atvinnumálanefndar. Þessar umr. hafa síðar verið gefnar út í sérstöku bókarformi, sem ég hef m.a. lesið og ég hygg, að ég geti fullyrt eftir að hafa lesið þá skýrslu, að langstærstur hluti þeirra fundarmanna, sem þessa ráðstefnu sat, hafi í meginatriðum verið algerlega sammála því meirihlutaálíti, sem atvinnumálanefndin hafði sent frá sér til rn. í apríl 1960 og að meginstofni er það frv., sem við erum hér að ræða. Það, sem ég kann því að segja á eftir, er m.a. byggt á þessu álíti raunvísindamanna, sem ég tel, að gerst geti um þetta mál fjallað og þekki bezt til, hvernig mest megi fá út úr og bezt megi haga skipulagi rannsóknarstarfa í þágu atvinnuveganna.

Eftir að raunvísindaráðstefnan hafði fjallað um þetta frv. og sent frá sér álít um það, gerðist það síðar í málinu, að hæstv. menntmrh. fól tveim ágætum mönnum, ráðuneytisstjórunum Gunnlaugi Briem og Birgi Thorlacius, að yfirfara frv. og athuga í leiðinni þær ábendingar og þær umr., sem orðið höfðu á raunvísindaráðstefnunni. Þessir tveir ágætu menn endurskoðuðu frv. og gerðu á því nokkrar breytingar, sem flestar gengu út á að auka áhrif ráðh. og ráðuneyta yfir rannsóknastofnunum frá því, sem atvinnumálanefndin hafði talið skynsamlegt og eðlilegt og frá því, sem ráðstefna raunvísindamanna hafði talið eðlilegt og skynsamlegt.

Það var loks í desembermánuði 1962, að frv. þetta leit fyrst dagsins ljós hér á hv. Alþingi, þ.e.a.s. nærri 2 árum eftir að meiri hl. atvinnumálanefndar skilaði fullbúnu frv. í hendur hæstv, ráðh. Þá komst frv. aldrei lengra en það, að það fór í n. eftir 1. umr. í annarri deild og sofnaði þar síðan svefninum langa. Síðar var frv. aftur lagt fyrir í marz mánuði s.l., en svo seint á þingtímanum, að útilokað var að fá það samþykkt á því þingi, enda fór svo, að málið var ekki afgreitt á því þingi. Það er því í þriðja skipti nú, sem þetta frv. er lagt fram. Það er óbreytt, eins og það er nú, frá því, sem var í marz s.l., er það var lagt fram, en á því hafa hins vegar verið gerðar nokkrar breytingar og sumar allveigamiklar og geta orkað tvímælis frá þeim till., sem meiri hl. atvinnumálanefndar hafði gert í sínu frv. 1960. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að fara nokkrum orðum um breytingar hæstv. ráðh., því að á hans ábyrgð hljóta þær breytingar að vera settar fram, sem frv. hefur inni að halda, frá því, sem atvinnumálanefndin hafði upphaflega gert ráð fyrir, í þeim tilgangi einum að biðja þá hv. nefnd, sem frv. þetta fær til athugunar, að athuga, hvort það sé öruggt, að þær séu til bóta, hvort þær séu líklegar til þess, að við fáum betri niðurstöður á skipulagningu á rannsóknarstarfseminni. heldur en við hefðum fengið, ef frv., eins og meiri hl. atvinnumálanefndar hafði gengið frá því, hefði verið lögfest óbreytt.

Þá vil ég í fyrsta lagi víkja að 1. gr. frv., en þar segir: „Rannsóknaráð ríkisins er sjálfstæð ríkisstofnun, sem heyrir undir menntmrn.“ Samkv. till. atvinnumálanefndar var gert ráð fyrir því, að rannsóknaráð ætti að falla undir forsrn. Till. munu einnig hafa komið fram um, að rannsóknaráðið félli undir ríkisstj. alla sem heild, eins og fordæmi munu vera fyrir um hliðstæða stofnun hér í landinu, þar sem um Efnahagsstofnunina er að ræða. Með því að fara aðra hvora þessa leið, tel ég, að væri verið að undirstrika enn betur, en gert er með frv., eins og það nú er, mikilvægi verkefnis og starfssviðs rannsóknaráðsins. Og eftir því sem ég fæ nýjustu upplýsingar um frá þjóðlöndum fyrir vestan okkur og fyrir austan okkur, þar sem rannsóknastarfsemin er talin komin einna lengst, þá mun það vera algengast, að nefnd eða ráð svipað því, sem rannsóknaráð ríkisins er hjá okkur, falli undir forsrh. eða jafnvel ríkisstj. sem heild. Ég vil nefna sem dæmi, að Svíar, sem hafa tiltölulega nýja löggjöf um sín rannsóknarmálefni, hafa lagt þessi mál undir forsrh. og þeir hafa gert meira en það, því að í l. sjálfum er gert ráð fyrir því, að forsrh. Svíþjóðar sitji í sjálfu rannsóknaráðinu og sé formaður þess. Þetta gera Svíar til þess að undirstrika, hvað þeir telja verksvið og starfsemi rannsóknaráðsins mikilvæg. Svipað fyrirkomulag, hygg ég, að sé á skipulagi rannsóknarstarfa hjá Dönum, Frökkum og Indverjum og e.t.v. fleiri ríkjum.

Breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., gera ráð fyrir, að rannsóknaráð verði ekki yfirstjórnandi hinna einstöku rannsóknastofnana, eins og kom hér líka fram vel áðan í ræðu hæstv. ráðh., en ég tel einmitt nauðsynlegt og það hafði reynslan sýnt, að taumarnir frá hinum ýmsu rannsóknastofnunum komi allir saman í rannsóknaráði ríkisins, það sé eins konar yfirstjórnandi þeirra 5 rannsóknastofnana, sem 9. gr. frv. ráðgerir, að settar verði á stofn með samþykkt frv. Í þessu sambandi langar mig til og til stuðnings því, sem ég hef hér fram að færa, að lesa — með leyfi hæstv. forseta — grg. þá, er fylgdi með 1. gr. frv. eins og því var skilað frá atvinnumálanefndinni í des. 1962, en þar segir svo:

„Gert er ráð fyrir því, að rannsóknaráð ríkisins sé sjálfstæð ríkisstofnun og er þá átt við, að stjórn stofnunarinnar sé fyrst og fremst í höndum rannsóknaráðs sjálfs, en ekki í höndum ráðuneytis. Að vísu yrði framlag ríkisins til rannsóknaráðs á fjárl., en þess er vænzt, að stofnunin geti fengið framlög annars staðar frá og yrði ráðstöfun slíks fjármagns í höndum rannsóknaráðs. Í þeim löndum, sem fremst standa um skipulag rannsóknarmála, eins og t.d. Noregi og Hollandi, er það sjálfstæði, sem rannsóknarstarfsemin nýtur, talið einn höfuðkostur þessa skipulags.“ Enn fremur: „Rannsóknaráð ríkisins heyrir undir forsrh. og var það talið rétt með tilliti til þess, að hinar einstöku rannsóknastofnanir atvinnuveganna heyra hver undir viðkomandi ráðh.“

Enn fremur vil ég leyfa mér til rökstuðnings þessu sama atriði að lesa upp úr grg, sama frv. um 3. gr., þar sem segir:

„Gert er ráð fyrir því, að forsrh. sé formaður rannsóknaráðs. Þetta tíðkast nokkuð erlendis meðal þjóða, sem nýlega hafa endurskipulagt rannsóknarstarfsemi sína, eins og t.d. í Frakklandi, Indlandi og Ísrael. Slík skipan skapar nauðsynleg tengsl við ríkisstj. landsins og eykur áhrifavald rannsóknaráðs.“

Í 9. gr. frv., þar sem fjallað er um, að á vegum ríkisins skuli starfræktar eftirtaldar rannsóknastofnanir, eftir því sem nánar er ákveðið í l. þessum, Hafrannsóknastofnunin, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun iðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins, — um stjórnir þessara fimm sérstöku rannsóknastofnana gerir frv. ráð fyrir stórauknum áhrifum ráðh. og ráðuneyta um skipan þeirra, eins og glöggt kom fram í þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar um frv. á undan minni ræðu. Þetta er veigamikil breyting frá því, sem meiri hl. atvinnumálanefndar taldi eðlilegast og bezt fyrirkomulag þessara mála. Ég tel þessar breytingar mjög vafasamar og vil biðja þá hv. n., sem málið fær til meðferðar, að athuga, hvort svo sé ekki. Ég tel, að ríka nauðsyn beri til þess, að rannsóknastofnunum þessum sé fengið eins mikið sjálfsforræði og frekast er unnt og gæta verði þess, að tengsl þeirra við atvinnuvegina verði sem nánust. Ég tel, að nægjanlegt sé það eftirlit af hálfu ríkisvaldsins með starfsemi þessara rannsóknastofnana, sem það getur fengið með því að skipa formenn stofnananna og gegnum þær fjárveitingar, sem veittar eru á fjárl. hvers árs til starfsemi þeirra.

57. gr. frv. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Forstjórar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastofnunar iðnaðarins, Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunarinnar skulu halda fund ársfjórðungslega eða oftar, ef þurfa þykir, til að ræða málefni, sem sameiginleg eru þessum stofnunum. Þeir setja sér fundarreglur.“

Mér virðist, að með þessu ákvæði, sem er nýmæli eða var ekki í till. atvinnumálanefndar, þá sé verið að stofnsetja vísi að nýju rannsóknaráði til viðbótar því, sem fyrir er.

Í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt um starfssvið og verkefni rannsóknaráðs og bent á hættuna, sem því væri samfara að skerða vald þess og sjálfstæði, vil ég bæta því við, að sé rannsóknaráðinu ætlað að starfa eðlilega, hlýtur það að kalla saman iðulega á hverju ári forstjóra hinna ýmsu rannsóknastofnana og raunar fleiri stofnana, en um er getið í frv. sjálfu, enda mun sú hafa verið hugsun atvinnumálanefndarinnar, sbr. grg. þá, sem fylgir frv. frá 1962 og ég hef hér vitnað til áður. Þá mundi sjálfkrafa á þeim fundum myndast slík viðræðunefnd rannsóknastofnananna eins og 57. gr. frv. gerir ráð fyrir. Ég tel því grein þessa óþarfa, verði valdsvið rannsóknaráðsins ekki skert frá því, sem það er, enda tel ég skaðlegt að útiloka með l. framkvæmdastjóra rannsóknaráðsins frá því að sitja á slíkum fundi með framkvæmdastjórum hinna ýmsu rannsóknastofnana.

2. mgr. 58. gr. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Forstjórar þeirra rannsóknastofnana, sem hér eiga hlut að máli, skulu hafa umsjón með landssvæðum, framkvæmdum og sameiginlegum byggingum og tækjum, sem um getur að ofan, en einstakar byggingar skulu þó vera til óskertra umráða þeirra stofnana, sem þær nota.“ Atvinnumálanefnd eða meiri hl. hennar gerði hins vegar ráð fyrir því, að rannsóknaráð ríkisins annaðist þetta verkefni og tel ég það miklu eðlilegra. M.a. hefur Reykjavíkurborg þegar fyrir nokkru ráðstafað til rannsóknaráðs og raforkumálastjóra nær 50 ha lands að Keldnaholti. Ætlunin hefur verið sú, að þessir aðilar úthluti síðan einstökum rannsóknastofnunum landsskika á þessu svæði, sem þær hafi til óskertra umráða og byggi sjálfar fyrir sig á. Þetta hefur verið gert fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins nú þegar. Ég tel því, að þessari mgr. ætti að breyta, t.d. þannig, að rannsóknaráð ríkisins skuli hafa umsjón með óráðstöfuðu landssvæði og sameiginlegum framkvæmdum í byggingum og tækjum, sem um getur að ofan, en einstakar byggingar skuli þó vera til óskertra umráða þeirra stofnana, sem þær nota. Ég bið hv. n., sem frv. fær til athugunar, að taka þessa ábendingu til velviljaðrar athugunar.

Eins og hæstv, ráðh. gat um hér áðan, er að finna í frv. þessu tekjustofna til skipulagsmála og rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna. Hæstv, ráðh. upplýsti í ræðu sinni áðan, að hvor þessara tekjustofna um sig mundi gefa tæpar 2 millj. kr. á ári. Ég hafði nú haldið, að það væri dálítið meira, en vafalaust eru það réttar upplýsingar, sem hæstv. ráðh. hefur hér flutt. En í sambandi við þetta vil ég aðeins segja, að mér þykja þeir tekjustofnar, sem þetta frv. tryggir til rannsóknarstarfa eða skipulagsmála þeirrar starfsemi, allt of lágir. Og ég tel meira en vafasamt, að innheimta eigi tekjur til þess að standa undir starfsemi sem þessari á þann hátt, sem frvgr. tvær gera ráð fyrir. Eins og hæstv. ráðh. vék að, leggja allar þjóðir, sem vilja byggja upp lífskjör í landi sínu, á það meginkapp nú að auka hvers kyns vísindi, hvers kyns menntun, hvers kyns rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Ég hygg, að ég geti fullyrt, að mjög margar þjóðir verji allt frá 1–2% af heildarverðmæti þjóðarframleiðslunnar til rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna. Þetta mundi svara því, að við Íslendingar legðum til þessara mála milli 150 og 200 millj. kr. á ári. Mörg ríki verja einnig frá 3 upp í 5% af útgjöldum fjárl. hvers árs til þessarar starfsemi, en það mundi svara til þess, að við legðum til þessara mála milli 90 og 100 millj. kr. á ári. Nú skal ég fúslega játa, að mjög mikið af þessum útgjöldum er vegna rannsókna í þágu hervarna viðkomandi ríkja, sem við, sem betur fer, erum lausir við og þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að ætlast til þess, að við séum fullir jafningjar um fjárframlög til þessara mála og þessar þjóðir, þar sem útgjöld vegna rannsókna í þágu hervarnanna gleypa kannske fjórðung eða upp undir helming af þeim peningum, sem til þessara mála ganga. En á móti því kemur hins vegar það, að við erum aðeins byrjendur í þessari grein. Flestar menningarþjóðir fyrir vestan okkur og austan hafa um áratugaskeið varið milljónafúlgum, billjónafúlgum til hvers kyns rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna og þeir eru þegar komnir langt á undan okkur. Við megum taka sannarlega mjög vel á, eftir því sem efni og aðstæður leyfa, ef við eigum að geta brúað að nokkru leyti það forskot, sem þær þegar hafa. Ég held því, að þeir tekjustofnar, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, að gangi til þessara mála, en upplýsingar um þá er að finna í 55. gr. frv., hrökkvi hvergi til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem þessi starfsemi hlýtur óhjákvæmilega að hafa í för með sér, eigi að reka hana skynsamlega. Hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan að vísu, að tímabært væri, eins og hann orðaði það, að stórauka fjárveitingar til hvers kyns rannsókna í þágu atvinnuveganna, og vil ég sérstaklega fagna þeirri yfirlýsingu hans og vona, að ekki verði á því mikil bið, að við hana verði staðið af þeim, sem með þau mál fara. En eins og ég sagði áðan, gerir frv. ráð fyrir nýjum tekjustofnum. Annars vegar á að leggja á einn nýjan skatt í viðbót við alla þá, sem hæstv. ríkisstj. hefur áður á lagt, þ.e.a.s. skatt á iðnaðarvinnu í landinu, og samkv. 53. gr. á enn að bæta einum nýjum skattinum ofan á alla þá nýju skatta, sem ég veit ekki, hversu margir eru orðnir á valdaferli hæstv. ríkisstj., en skv. henni á að bæta nýjum skatti á sement og timbur og járn, sem í eðli sínu hlýtur að verka þannig, að hann kemur fyrst og fremst niður á þeim, sem eru að ráðast í það stórvirki að byggja íbúðarhúsnæði yfir sig, eins og ekki væri hlaðið nóg af pjönkum á þá Skjónu af hvers kyns opinberum álögum. Ég vil mjög undirstrika, að ég tel óhæfu að leggja þennan skatt á byggingarefnið. Ég viðurkenni, að það er þörf á auknum tekjum til rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna, en ég hygg, að það sé hægt að finna miklu réttlátari skattlagningarleið en þá, sem frv. gerir hér ráð fyrir. Ég get trúað því, að hæstv. ráðh., ef hann talar hér á eftir, segi, þegar ég hef haldið því fram, að hvergi sé nægjanlega nógu langt gengið í fjárveitingum til rannsóknarstarfsemi í þágu atvinnuveganna, að hér sé um að ræða enn eitt yfirboð af hálfu framsóknarmanna, sem enginn taki alvarlega. Ef svo færi, að hæstv. ráðh. kynni að svara þessu þannig, þá vil ég fyrir fram leyfa mér að svara þeim ummælum með því að vitna til þess, sem George Brown, varaformaður brezka Verkamannaflokksins, sagði gjarnan, þegar hann var að útlista stefnuskrá Verkamannaflokksins fyrir brezkum kjósendum og þáv. stjórnarflokkur, Íhaldsflokkurinn benti á, að það væri svo sem enginn vandi að benda á ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir, en hvar ætti að fá fé til að ráðast í þessar framkvæmdir, þá var svar Browns í aðalatriðum það, að hann teldi, að þetta væri hægt að tryggja með því að velja verkefnin í réttri röð. Ég tel, að rannsóknir í þágu atvinnuveganna séu verkefni, sem eigi að vera mjög ofarlega á þeim röðunarlista, sem hver ríkisstj. á Íslandi ætti að hafa um opinberar framkvæmdir, og þess vegna tel ég, að vel væri hægt að velja langtum meira fé til þessarar rannsóknarstarfsemi og menntunar heldur en frv. gerir ráð fyrir og veit ég, að hæstv. ráðh. er mér sammála um það, því að hann upplýsti í ræðu sinni áðan, að engir peningar hefðu ávaxtað sig betur, — það væri reynsla nágrannaríkjanna, sem hann nefndi, — að engir peningar hefðu ávaxtað sig betur en þeir, sem varið hefði verið til þessara mála.

Ég vil svo að endingu aðeins lýsa því yfir, að þrátt fyrir það að ég hafi bent á og reynt að vekja athygli á því, að breytingar þær, sem frv. þetta gerir ráð fyrir frá því, sem það var, er atvinnumálanefndin skilaði því í upphafi, geti mjög orkað tvímælis, þá fagna ég mjög framkomu þessa frv. Ég tel hins vegar, að breyt. séu það vafasamar og gangi gegn þeirri þróun, sem orðið hefur í þessum málum hjá nágrannarikjum okkar, bæði í austri og vestri, sem hafa endurskipulagt þessi málefni fyrir stuttu, að hv. menntmn. hljóti að skoða það mjög vel og vandlega, hvort þær séu til nokkurra bóta. Hæstv. ráðh. bauð líka upp á áðan, að ríkisstj. væri til viðtals um breytingar á frv. og það er þess vegna, sem ég hef reynt að undirstrika það í ræðu minni núna, að breytingarnar kynnu að vera mjög varhugaverðar.