03.05.1965
Efri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var fyrir nokkrum dögum afgreitt þar með shlj. atkv. hv. dm., eftir að menntmn. d. hafði einum rómi gert við frv. allvíðtækar brtt., sem samþ. voru að mestu leyti shlj. Aðeins ein brtt. við frv. kom fram frá einum meðlimi hv. menntmn., hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni. Sú brtt. náði ekki fram að ganga, en hún var eina brtt., sem flutt var við frv. að frátöldum þeim brtt., sem öll menntmn. stóð að og allar voru samþ. shlj.

Sökum þess að svo að segja alger samstaða náðist um afgreiðslu þessa mikilvæga máls í hv. Nd., þó að það hafi að vísu ekki orðið fyrr en nú fyrir fáum dögum, leyfi ég mér að vænta þess, að hv. Ed. sjái sér fært að taka málið til sem skjótastrar meðferðar og afgreiða það nú á þessu þingi, þó að mér sé að vísu ljóst, að tíminn til þess að fjalla um svo mikilvægt mál sem hér er um að ræða er ekki orðinn mikill, þar eð gert mun vera ráð fyrir því, að þinglausnir fari fram í miðri næstu viku. En bæði vegna þess, hve rækilegan undirbúning þetta mál hafði fengið, þegar það fyrst var lagt fyrir hið háa Alþ. og svo vegna þess, að Alþ. fjallar nú í þriðja sinn um frv., þó að það hafi að vísu hingað til ávallt verið í hv. Nd., leyfi ég mér nú samt að óska þess eða láta í ljós þá von, að sá rækilegi undirbúningur, sem málið fékk og sú mikla athugun, sem málið hefur fengið í menntmn. hv. Nd., muni verða til þess að auðvelda hv. Ed. og menntmn. hennar meðferð málsins á þeim skamma tíma, sem eftir er af þingtímanum.

Ég skal, til þess að eyða ekki dýrmætum tíma þingsins, ekki fara mörgum orðum um málið og þó vil ég freista þess að gera í sem stytztu máli grein fyrir þeim meginbreytingum á ríkjandi skipulagi íslenzkra rannsóknarmála, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér og skal ég þá greina á milli frv., eins og það upphaflega var lagt fyrir hv. Nd. af ríkisstj., og síðan gera grein fyrir þeim brtt., sem hv. Nd. samþykkti samhljóða í s.l. viku.

Rannsóknaráð ríkisins, sem stofnað var árið 1939 og aðstoðaði atvmrn. við yfirstjórn atvinnudeildar háskólans, er nú skipað þrem mönnum eftir tilnefningu stærstu þingflokkanna. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að rannsóknaráð ríkisins verði ráðgjafarstofnun, sem vinni að eflingu hagnýtra rannsókna í landinu, en einnig að, eflingu undirstöðurannsókna, að því leyti sem þau verkefni eru ekki í höndum Háskóla Íslands og þá jafnan í fullu samráði við hann. Aðalverkefni rannsóknaráðs ríkisins eiga að vera efling og samræming hagnýtra rannsókna og undirstöðurannsókna í landinu. Það á að hafa samráð við hinar ýmsu rannsóknastofnanir og fá sem gleggsta yfirsýn yfir alla rannsóknarstarfsemi í landinu og gera till. til úrbóta, ef það telur rannsóknarstarfsemina ófullnægjandi, rannsóknarskilyrði ófullkomin eða merk rannsóknarefni vanrækt. Þá á ráðið að hafa með höndum athugun á hagnýtingu náttúruauðæfa landsins til nýrra atvinnuvega og atvinnugreina, gera till. um framlög ríkisins til rannsóknarmála og fylgjast með ráðstöfun opinberra fjárframlaga til rannsóknastofnana, sem l. taka til. Rannsóknaráðið á að hafa með höndum öflun fjármagns til rannsóknarstarfseminnar almennt til viðbótarframlagi ríkisins og tillögugerð um skiptingu þessa fjár milli rannsóknastofnana og rannsóknarverkefna. Rannsóknaráðið á að hafa í sínum vörzlum skýrslur um rannsóknir á sviði raunvísinda, sem kostaðar eru af opinberu fé, semja árlega skýrslu um rannsóknarstarfsemi í landinu og enn fremur stuðla að söfnun erlendra rita og annarra upplýsinga um vísindastörf, rannsóknarstörf og tækni og úrvinnslu þeirra til hagnýtingar fyrir atvinnuvegi landsins. Enn fremur á rannsóknaráðið að beita sér fyrir skjótri hagnýtingu tæknilegra nýjunga í atvinnuvegunum með kynningarstarfsemi og upplýsingaþjónustu.

Samkv. frv. á verkefni rannsóknaráðs fyrst og fremst að vera í því fólgið að vera ráðgjafi ríkisstj. og Alþ. í rannsóknarmálum, vera höfuðaðili að mótun opinberrar stefnu í rannsóknarmálum. Ráðið á hins vegar ekki að hafa með höndum yfirstjórn rannsóknastofnana, svo sem nú á sér stað og er það meginbreyting frá ríkjandi skipulagi.

Í frv. ríkisstj. var gert ráð fyrir því, að í rannsóknaráði ættu sæti 17 menn og skyldu vera fulltrúar atvinnuvega, Seðlabanka, háskólans og Alþ. Ráðið á að vera ólaunað, en kjósa úr sinum hópi 5 manna framkvæmdanefnd. Gert var ráð fyrir því, að rannsóknaráðið heyrði undir menntmrh., sem skipaði formann þess og framkvæmdastjóra. Þannig voru ákvæði stjfrv.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að á vegum ríkisins skuli starfræktar þessar rannsóknastofnanir: Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun iðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins. Meginbreyting frá ríkjandi skipulagi er sú, að Atvinnudeild háskólans yrði lögð niður, Hafrannsóknastofnunin kæmi í stað fiskideildar og Rannsóknastofnun landbúnaðarins í stað búnaðardeildar, en í stað iðnaðardeildar kæmu tvær stofnanir, Rannsóknastofnun iðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins kæmi í stað Rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands.

Nú lýtur hver deild Atvinnudeildar háskólans, stjórn deildarstjóra undir yfirstjórn rannsóknaráðs og atvmrn. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hver rannsóknastofnun verði sjálfstæð ríkisstofnun, sem heyri undir hlutaðeigandi fagráðuneyti, þ.e.a.s. nú eru allar rannsóknastofnanir undir stjórn eins og sama rn., atvmrn., og undir stjórn eins og sama ráðh., en í verkaskiptingarúrskurði forseta hefur menntmrh. eða mér verið falin yfirstjórn Atvinnudeildar háskólans og þar með allra þessara rannsóknastofnana. Í stjfrv. og á það var einnig fallizt af hv. menntmn. Nd., er gert ráð fyrir því, að framvegis komi hver rannsóknastofnun undir stjórn hlutaðeigandi fagráðh., Rannsóknastofnun sjávarútvegsins færi undir stjórn sjútvmrh., stofnun landbúnaðarins undir stjórn landbrh., hinar tvær stofnanir iðnaðarins undir stjórn iðnmrh., en rannsóknaráðið á eftir sem áður að vera undir stjórn menntmrh. og þó ekki bundið við persónu ákveðins manns, heldur vera undir stjórn menntmrn. og menntmrh., enda eru önnur rannsóknarstörf í landinu á vegum þess rn. og þá fyrst og fremst Háskóli Íslands. Rannsóknaráðið á hins vegar ekki að hafa nein afskipti af stjórn rannsóknastofnana, sem algerlega hverfa undir stjórn hlutaðeigandi fagráðuneyta. Rannsóknastofnunum er hins vegar fengin sérstök stjórn og auk þess gert ráð fyrir skipun sérstakra ráðgjafarnefnda við einstakar rannsóknastofnanir.

Í stjfrv. var gert ráð fyrir því, að stjórnir rannsóknastofnananna skyldu skipaðar eins og ég nú skal lýsa, en einmitt við þetta atriði voru aðalbrtt. hv. menntmn. Nd. Samkv. frv. áttu í stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar að vera þrír menn, forstjóri stofnunarinnar, fiskimálastjóri og maður tilnefndur af ráðgjafarnefndinni. Í stjórn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins áttu að vera með sama hætti forstjóri stofnunarinnar, fiskimálastjóri og maður tilnefndur af ráðgjafarnefnd. Í stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins áttu að eiga sæti forstjóri stofnunarinnar, búnaðarmálastjóri og maður tilnefndur af tilraunaráði Rannsóknastofnunarinnar. Í stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins áttu hins vegar að eiga sæti 5 menn, forstjóri Rannsóknastofnunarinnar, einn tilnefndur af Félagi ísl. iðnrekenda, einn af Sambandi ísl. samvinnufélaga og tveir menn, sem ráðh. átti að skipa án tilnefningar. Í stjórn Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins áttu hins vegar að vera þrír menn, forstjórinn, einn tilnefndur af Landssambandi iðnaðarmanna og einn, sem ráðh. átti að skipa án tilnefningar. Kerfið í uppbyggingu stjórnanna í frv. ríkisstj. var þannig það, að ráð var fyrir því gert, að meiri hl. stjórnanna væri jafnan opinberir starfsmenn, sem skipaðir hafa verið til starfa sinna af ráðh. Í stjfrv. var alls staðar gert ráð fyrir því, að forstjóri stofnunarinnar ætti sæti í stjórninni og væri jafnframt formaður hennar. Var það gert til þess að tryggja, að nauðsynleg sérþekking væri jafnan fyrir hendi í stjórn stofnananna til þess að stuðla að festu í framkvæmdastjórninni og í því skyni að efla samstarf stjórnar og þeirra, sem í stofnuninni ynnu. Í stjfrv, var alls staðar gert ráð fyrir því, að í stjórnum rannsóknastofnana yrðu þrír menn, nema í stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins, þar var gert ráð fyrir 5 mönnum. Alls staðar var gert ráð fyrir því, að forstjóri rannsóknastofnunarinnar ætti sæti í stjórninni og væri formaður hennar. Hinir stjórnarmennirnir áttu að vera skipaðir sem hér segir: Í stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins átti fiskimálastjóri að eiga sæti í stjórninni og enn fremur maður tilnefndur af ráðgjafarnefnd hlutaðeigandi rannsóknastofnunar. Í stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins átti búnaðarmálastjóri að eiga sæti í stjórninni og maður tilnefndur af tilraunaráði stofnunarinnar. Í stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins áttu að eiga sæti tveir menn tilnefndir af Félagi ísl. iðnrekenda og Sambandi ísl. samvinnufélaga og aðrir tveir tilnefndir af iðnmrh., m.a. vegna opinberra iðnfyrirtækja og fyrir iðnrekendur, sem standa utan fyrrnefndra samtaka. En ástæðan fyrir því, að fulltrúum Félags ísl. iðnrekenda og Sambands ísl. samvinnufélaga var fengið sæti í stjórn þessara rannsóknastofnana, er sú, að í frv. eru ákvæði um vissar greiðslur af hálfu iðnaðarins til rannsóknastofnananna. Í stjórn Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins áttu að eiga sæti menn tilnefndir af Landssambandi iðnaðarmanna og maður tilnefndur af iðnmrh.

Í frv. var gert ráð fyrir því, að hlutaðeigandi ráðh. skipi alla helztu starfsmenn rannsóknarmálanna, þ.e. framkvæmdastjóra rannsóknaráðs, forstjóra einstakra rannsóknastofnana og alla sérfræðinga, en annað starfsfólk ráði hlutaðeigandi stjórnarnefnd. Á þessu hefur menntmn. einnig gert breytingu, sem ég skal geta um á eftir.

Þá er að geta þeirra mikilvægu nýmæla í frv. um sérstaka fjáröflun tveggja rannsóknastofnananna, þ.e. Rannsóknastofnunar iðnaðarins og Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Gert er ráð fyrir því, að iðnfyrirtæki, verksmiðjur og verkstæði greiði gjald, sem nemi 2 af þús. af kaupi verkafólks og fagmanna, til þess að standa straum af hluta kostnaðar Rannsóknastofnunar iðnaðarins. Undanþegin eru fyrirtæki, sem vinna úr sjófangi og landbúnaðarafurðum, svo og áburðarframleiðsla. Gera má ráð fyrir því, að þetta gjald geti numið hátt á 2. millj. kr. Þar sem brýna nauðsyn ber til þess að stórefla hér rannsóknir í þágu iðnaðar landsmanna og telja má, að hér sé um hóflegt gjald að ræða miðað við þann mikla ávinning, sem öflug rannsóknastofnun gæti veitt iðnaðinum, hafa þessi ákvæði verið sett í frv. Þá er og gert ráð fyrir því, að af öllu innfluttu timbri, sementi og steypustyrktarjárni skuli greiða 1/2% aðflutningsgjald og 1/2% framleiðslugjald af sementi, sem framleitt er hér á landi. Skulu gjöld þessi renna til Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins. Má einnig gera ráð fyrir, að gjald þetta muni nema hátt á 2. millj. kr. Þess er einnig rétt að geta hér, — ég mun ekki hafa farið alveg rétt með í upphafi máls míns áðan, að ekki hafi verið ágreiningur í hv. Nd. nema um eina till. frá hv. 3. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, — það varð einnig ágreiningur um það, hvernig þess fjár, sem þessar tvær rannsóknastofnanir iðnaðarins eiga að fá, skyldi aflað. Fulltrúar hv. Framsfl. lögðu til, að þessar fjárhæðir yrðu ekki innheimtar af iðnaðinum, af iðnfyrirtækjunum, heldur greiddi ríkissjóður tillag til þessara stofnana, sem þessu svaraði a.m.k. Þær till. náðu ekki fram að ganga. Þó að þær hefðu verið felldar, fór eins um flm. þessara till. og hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, að allir aðilar studdu frv., eftir að þessar brtt. höfðu verið felldar.

Ég hef þá gert grein fyrir helztu breytingunum á skipulagi íslenzkra rannsóknarmála, sem þetta frv. gerði ráð fyrir, eins og það var lagt fram af ríkisstj. fyrir hv. Nd. s.l. haust. Og nú skal ég í örfáum orðum gera grein fyrir þeim brtt., sem hv. menntmn. Nd. stóð samhljóða að og voru samþ.

N. lagði til, að fjölgað væri í rannsóknaráði úr 17, eins og stjfrv. hafði gert ráð fyrir, í 21. Var það samþ. í hv. Nd., að í ráðinu skyldu eiga sæti 7 alþm., en ekki 5 og mun það vera við það miðað, að allir núv. þingflokkar fái fulltrúa við venjulega hlutfallskosningu í Sþ. Þá er og gert ráð fyrir því, að forstjórar allra 5 rannsóknastofnananna eigi sæti í ráðinu, en áður var aðeins gert ráð fyrir 3 fulltrúum rannsóknastofnananna. Þá var samþ., að menntmrh. skuli vera formaður rannsóknaráðsins, en í stjfrv. var gert ráð fyrir því, að hann skyldi skipa formann ráðsins. Þá var sú brtt. og samþ., að forstjórum rannsóknastofnana skyldi heimilað að taka sæti í framkvæmdanefnd rannsóknaráðsins, en eins og ég gat um áðan, er gert ráð fyrir, að ráðið kjósi 5 manna framkvæmdanefnd. Það var fellt niður úr stjfrv., að framkvæmdastjóri rannsóknaráðsins þurfi að hafa háskólapróf í raunvísindum. Menntmn. Nd. taldi menn, sem menntaðir væru í öðrum greinum, einnig geta komið til greina í það starf. En sá, sem nú gegnir því starfi, er háskólamenntaður í raunvísindum og er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því, að á starfi hans verði nein breyting.

Ein brtt. er gerð um stjórnir allra rannsóknastofnananna og það er í rauninni sú meginbrtt., sem hv. Nd. gerði á frv. Það var fellt niður úr frv., að forstjórar stofnananna skyldu jafnan eiga sæti í stjórn þeirra. Sú skipun á stjórnum stofnananna, sem Nd. gerði ráð fyrir, er sú, að einn í þriggja manna stjórninni skuli ávallt skipaður af ráðh. án tilnefningar, annar ávallt tilnefndur af þeirri stofnun, sem næst stendur rannsóknastofnuninni, Fiskifélaginu, Búnaðarfélaginu o.s.frv. og þriðji maðurinn af ráðgjafarnefnd stofnunarinnar og eru þá allar stjórnir stofnunarinnar skipaðar með hliðstæðum hætti.

Þá gerði Nd. ráð fyrir því, að forstjórar stofnananna skyldu semja starfsáætlanir og leggja fyrir stjórnir stofnananna og forstjórarnir skyldu ráða starfsfólk, en ekki ráðh., eins og gert hafði verið ráð fyrir í stjfrv. og eru sams konar breytingar gerðar um allar stofnanirnar. Veitingarvald á embættum starfsmanna við stofnanirnar er m.ö.o. flutt frá ráðh. eða frá rn. til forstjóra stofnananna.

Þá lagði n. til, að ráðgjafarnefnd skyldi vera við allar rannsóknastofnanirnar, eins og raunar var gert ráð fyrir áður og að forstjórar stofnananna skyldu ávallt eiga sæti í ráðgjafarn., en ekki stjórnunum, eins og stjfrv. hafði gert ráð fyrir. Hins vegar skyldu þeir ekki verða sjálfkjörnir formenn þeirra. Þá er gert ráð fyrir því, að ráðh. geti með samþykki stjórna viðkomandi stofnana fjölgað í ráðgjafarn. og veitt nýjum aðilum sæti í þeim, ef ástæða þykir til.

Þá er og gert ráð fyrir því í brtt. þeim, sem Nd. samþykkti, að ráðh. geti ákveðið deildaskiptingu rannsóknastofnana og skipað þar deildarstjóra, en brtt. hv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, var einmitt um að lögbinda stofnun einnar slíkrar rannsóknarstofu. N. taldi hins vegar heppilegra að afgreiða þetta atriði í heimildarformi til hlutaðeigandi ráðh.

Þá er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. geti ráðstafað húseign Atvinnudeildar háskólans í þágu íslenzkrar vísindastarfsemi, en n. tekur fram í nál. sínu, að um leið og ríkið sjái rannsóknastofnunum fyrir nýju húsrými, en svo sem kunnugt er, hefur bygging rannsóknahverfis þegar verið hafin í Keldnaholti, þá tekur n. fram, að hún telji eðlilegt, að Háskóli Íslands fái þetta hús til sinna afnota, enda stendur það á háskólalóðinni í miklu nábýli við aðalbyggingu háskólans.

Þá er enn fremur gert ráð fyrir því, að framkvæmdastjóri rannsóknaráðs geti kallað forstjóra stofnananna saman til funda til að ræða um sameiginleg málefni, og að síðustu, að sérfræðingar rannsóknastofnananna geti kennt við Háskóla Íslands og er heimilt að skipa þeim málum með reglugerð.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir frv., eins og það upphaflega var flutt og þeim breyt., sem það hefur tekið í meðferð hv. Nd. Í þessu frv. er fyrst og fremst talað um skipulagsmál rannsóknanna, en allir, sem eru þessum málum kunnugir, munu vera sammála um, að einmitt það, hvernig rannsóknarmálin séu skipulögð, geti haft verulega þýðingu, m.a. fyrir skilyrði til þess að afla fjár til þeirra og hins vegar og ekki síður fyrir það, hvern árangur aukið fé beri í hagnýtum niðurstöðum. Þó er rétt að geta þess, að í frv. er ekki einungis fjallað um bætt skipulag rannsóknastofnananna og rannsóknarmála yfirleitt, heldur eru þar einnig athyglisverðar till. um auknar fjárveitingar til þessara mála.

Ég vil að svo mæltu, herra forseti, leyfa mér að ítreka þá ósk, sem ég bar fram í upphafi máls míns, að hv. Ed. sjái sér fært að afgr. þetta mál á þeim skamma tíma, sem þingið á eftir að starfa, vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín, að samþykkt þessa frv. mundi verða íslenzkri rannsóknarstarfsemi hin mesta lyftistöng, en um það munu allir vera sammála, að fátt eða ekkert er nú nauðsynlegra í íslenzku þjóðlífi, svo sem raunar annars staðar meðal allra þjóða, en að efla rannsóknarmál, að taka vísindi og tækni í sívaxandi mæli í þágu íslenzkra atvinnuvega. Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. menntmn.