08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

30. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er hv. síðasta ræðumanni alveg sammála um, að þau verkefni, sem hann gat um og hefur flutt till. um, að yrðu hlutverk sérstakrar deildar innan Hafrannsóknastofnunarinnar, eru mjög mikilvæg. En þar sem ég veitti því athygli, að hv. menntmn. hefur ekki tekið þessa till. upp og þess vegna má búast við því, að hún nái ekki fram að ganga, vildi ég samt sem áður láta eftirfarandi getið:

Ég tel, að þó að till. nái ekki fram að ganga, sé það, sem hún felur í sér, í raun og veru verkefni Hafrannsóknastofnunarinnar og vitna þar til 6. tölul. í 17. gr., en þar segir, að meðal verkefna Hafrannsóknastofnunarinnar séu tilraunir með ný veiðarfæri og veiðiaðferðir og rannsóknir þar að lútandi, svo og rannsóknir á hagkvæmustu gerð fiskiskipa,og í 18. gr. segir, að eitt af 4 verksviðum Hafrannsóknastofnunarinnar séu veiðitæknirannsóknir. Og með sérstakri hliðsjón af því, að skv. 54. gr. frv. er ráðh. heimilt að ákveða deildaskiptingu í rannsóknastofnunum og skipa deildarstjóra, að fengnu áliti forstjóra og stjórnar viðkomandi stofnunar, með hliðsjón af því, að ráðh. getur heimilað deildaskiptingu, hygg ég, að óhætt sé að lýsa því yfir, að ráðh. muni, þegar tímabært þykir, gera þessa starfsemi að sérstakri deild í Hafrannsóknastofnuninni, því að enginn vafi er á því, að hér er um mjög mikilvæg verkefni að ræða.

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, til þess, ef till. næði ekki fram að ganga, að það yrði ekki túlkað þannig, að það sé eitthvert vanmat á mikilvægi þeirra verkefna, sem hv. ræðumaður fjallaði um í ræðu sinni.