11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

193. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þær breytingar, sem með þessu frv. er lagt til, að gerðar verði á ljósmæðral. frá 1933, eru einungis varðandi launakjör ljósmæðra. Eins og greinir í aths. við frv., eru þessar breytingar í samræmi við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á l. um hreppstjóra og nýlega hafa verið samþykktar hér á þingi, en laun þessara tveggja hópa eru byggð á nokkuð svipuðum reglum, þ.e.a.s. lágmarkslaun miðuð við ákveðna íbúatölu í umdæmi, en hækka svo við það, sem fram yfir er þessa ákveðnu íbúatölu, fyrir hverja 10 íbúa.

Eins og segir í frv., hafa ljósmæðralaun fram til ársins 1963 hækkað í samræmi við almennar launahækkanir, sem orðið hafa hjá opinberum starfsmönnum, en eftir að launaákvæði kjaradóms komu til framkvæmda, voru þau aftur hækkuð um 15% og er það sama hækkun og þá var einnig látin gilda um hreppstjóralaun. Það er rétt að taka það fram, að þessi laun ljósmæðra eru fyrir það að skuldbinda sig til þess að gegna ljósmæðrastörfum. Að auki kemur að sjálfsögðu greiðsla fyrir hvert skipti, sem hún annast sængurkonu, tekur á móti barni og koma að sjálfsögðu tekjur af slíku til viðbótar hinum föstu launum.

Heilbr.- og félmn, hefur athugað þetta frv. og mælir með samþykkt þess. Einstakir nm. áskildu sér þó rétt til að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Ég hef ekki orðið vör við það meðal þskj., sem útbýtt hefur verið, að neinar slíkar brtt. hafi fram komið. Einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., var fjarverandi, þegar málið var afgr. í n., en eins og áður segir, lagði n. til, að frv. væri samþ.