11.05.1965
Efri deild: 89. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

167. mál, bann við okri

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í ákvæðum 5. gr. l. nr. 58 frá 1960, um bann við okri, dráttarvexti o.fl., er kveðið svo á, að greiði skuldari eigi skuld sína á réttum tíma, sé hann skyldur til frá eindaga skuldarinnar, unz hann greiðir hana, að greiða skuldareiganda í dráttarvexti af henni einum meir af hundraði en heimilað er í 1. gr. sömu laga, þ.e.a.s. þarna er sett sú regla, að dráttarvextir skuli almennt eða vanskilavextir vera 1% hærri, en þeir vextir, sem voru á skuldinni, áður en hún var eindöguð eða komin í vanskil. Hins vegar segir svo í l. um Seðlabanka Íslands, að Seðlabankinn hafi heimild til þess að ákveða hámarksvexti og það hefur ekki þótt frá lagalegu sjónarmiði nægilega skýrt, hvaða regla ætti að gilda um dráttarvextina, hvort það væri regla laganna um bann við okri, dráttarvexti o.fl. um, að dráttarvextir skuli vera 1% hærri, en aðrir vextir eða hvort Seðlabankinn hafi skv. lögum Seðlabankans, 13. gr., heimild til þess að ákveða þessa dráttarvexti, án þess að honum séu settar fastar reglur um það, hvernig hann ákveður þá. Í þessu frv. felst það að setja ótvíræðar reglur um, að það sé Seðlabanki Íslands, sem ákveði, hvað skuli vera hæstu leyfilegu dráttarvextir á hverjum tíma, enda er það svo, að Seðlabankinn fer með ákvörðunarvald um fjárhæð vaxta og þess vegna ekki óeðlilegt, að hann hafi einnig þetta vald til að ákveða dráttarvexti og þá er jafnframt tekinn af allur vafi um lagalegan ágreining í þessum efnum.

Þessu máli var vísað til fjhn. og n. hefur mælt með því, að frv. verði samþ., en tveir nm. voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins, eins og sést á nál. á þskj. 728.