30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var alltaf ráð fyrir því gert, að afla þyrfti heimilda til lántöku vegna vegaframkvæmda. Það er í fyrsta lagi vegna Reykjavíkurbrautar, í öðru lagi Siglufjarðarvegar, í þriðja lagi Múlavegar og í fjórða lagi Ólafsvíkurvegar við Enni, viðbót við þá heimild, sem var fyrir hendi. Þessum vegi hefur nú verið lokið, en það vantaði 3 millj. kr. lánsheimild, til þess að hægt væri að ljúka veginum og er nú farið fram á það hér. Hér er farið fram á nokkru hærri heimildir, en gert var ráð fyrir, að kostnaður væri við hvern veg fyrir sig. Í vegáætlun var gert ráð fyrir 4 millj. kostnaði við Múlaveg, en hér er farið fram á lánsheimild upp á 4.5 millj. Í Siglufjarðarveg var gert ráð fyrir 12 millj., en lánsheimildin er miðuð við 13 millj. Það var gert ráð fyrir, að við að steypa Reykjanesveg væri kostnaður 110.6 millj., en hér er miðað við 115 millj. Þetta er gert í öryggisskyni, ef kostnaðurinn skyldi hækka eitthvað vegna kauphækkana eða annars kostnaðarauka og getur það ekki komið að sök, þó að heimildin sé nokkuð rífleg miðað við þá kostnaðaráætlun, sem fyrir liggur. Samkv. þessu er hér farið fram á lánsheimild upp á 135.5 millj. kr., sem þarf að afgreiða, áður en þessu þingi lýkur.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. alþm. veiti því athygli, að í vegáætluninni var gert ráð fyrir kostnaði við að ljúka Reykjanesbrautinni frá Kúagerði og að Njarðvíkum, 62.5 millj. kr. Hins vegar var áætlun um kostnað við að steypa veginn 110.6 millj. Nú hefur verið horfið að því ráði að steypa veginn frá Kúagerði að Fitjum og malbika þaðan til Njarðvíkur, en það er vegarkafli, sem alltaf er verið að taka upp, vegna þess að það er inni í kauptúninu. Þetta verður miklu dýrara fyrir það, að steypt er heldur, en malbikað, en að athuguðu máli þótti eðlilegt að steypa veginn með tilliti til þess, að það hefur nú þegar verið steyptur verulegur kafli af veginum og þessi vegur hefur þá sérstöðu, að það verður tekið umferðargjald til þess að standa undir töluverðum hluta af kostnaðinum.

Hins vegar er ég sannfærður um það, að aðrar hraðbrautir hér í kringum Reykjavík, Austurvegur, Vesturlandsvegur og aðrar hraðbrautir, verða eftirleiðis malbikaðar, vegna þess að það er ódýrara og það verður kallað hratt eftir framkvæmdum, og ég geri ekki ráð fyrir, að á þeim vegum verði tekið umferðargjald.

Ég tel, að það sé rétt stefna, sem Reykjavíkurborg hefur tekið upp, þ.e. að hraða malbikun yfir sem stærst svæði, eins og við höfum greinilega séð á s.l. ári, þ.e. að fá slétt slitlag á sem flestar götur,og við getum ekki beðið eftir því árum saman lengur, að fjölförnustu vegir t.d. Austurvegur og Vesturlandsvegur upp að Álafossi og síðan upp í Kollafjörð, þeir komi með varanlegt slitlag. Þetta er svo mikill sparnaður á sliti og benzíni, að það hefur verið reiknað út, að þetta gæti munað allt að 4.000 kr. á hvern bíl á ári, ef hann ekur eftir sléttum malbikuðum eða á holóttum malarvegum og þess vegna er það, að það hlýtur að verða niðurstaðan að hraða því að koma slitlagi á sem víðast. Og það gengur betur, það verður öruggara og hefur verið reiknað út, að þegar til lengdar lætur, þá hefur orðið jafnvel meiri sparnaður í því að malbika. En eins og ég sagði, Reykjanesbrautin hefur þá sérstöðu, að það hefur þegar verið steyptur verulegur hluti af henni og það er fyrirhugað að taka þar umferðargjald, sem naumast verður komið við annars staðar.

Ég vildi svo, herra forseti, leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 3. umr. og hv. fjhn.