30.04.1965
Efri deild: 77. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur verið bent á það við þessa umr., að það er ekki samræmi í þeim tölum, sem settar eru í þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku til vegaframkvæmda og þess, sem í vegáætluninni stendur. Hæstv. ráðh. segir, að þessi mismunur gagnvart Reykjanesbraut stafi að mestu leyti af því, að nú hafi verið ákveðið að steypa veginn, en á tímabili hafi verið ráðgert að malbika hann.

Hæstv. ráðh. segir enn fremur, að það sé hægt að breyta vegáætlun með lögum. Ég skal ekki fullyrða neitt um það. En ekki væri óeðlilegt að líta þannig á, eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Sunnl. (HB), að vegáætlunin takmarki framkvæmdirnar, en ef tekið verði hærra lán, þá bíði hluti af því fé til næsta árs, þeirra framkvæmda, sem þá yrðu gerðar.

En það er annað, sem ég vildi leyfa mér að benda á. Ef samræmi væri á milli talna í þessu frv. og vegáætluninni, þá mundi ekki óeðlilegt, að þm. litu þannig á, að þetta frv. væri einungis staðfesting á því, sem efnislega hefði verið ákveðið, þegar vegáætlunin var sett. En ef farið verður að breyta tölum til einstakra framkvæmda og hæstv. ráðh. segir, að það sé opið að breyta vegáætluninni með lögum, þá sýnist ekki óeðlilegt, að það geti komið til athugunar að bæta inn nýjum vegum, hækka lán, sem ákveðin eru í vegáætluninni, til annarra vega en þeirra, sem í þessu frv. greinir. Ef það má breyta vegáætluninni um einstaka vegi, með lagafrv. sem þessu, þá hlýtur það einnig að vera opin leið að breyta fleiri atriðum vegáætlunarinnar á sama hátt og ég vildi gjarnan, að þetta yrði athugað í þeirri n., sem fær málið til meðferðar.

Þá hefur það enn fremur blandast inn í þessar umr., að fyrirhugað sé að skera niður um 20% ríkisframlag til vegaframkvæmda á þessu ári og hæstv. ráðh. segir, að fjvn. hafi verið gert þetta kunnugt, áður en vegáætlunin var sett. Ég hef heyrt um þessar ráðagerðir og ég geri ráð fyrir því, að það sé út af fyrir sig rétt, að fjvn. hafi haft hugmynd um, að ríkisstj. stefndi að þessu.

Nú er það álitamál, hvernig þessi niðurskurður verður framkvæmdur eða hve víðtækt valdsvið ráðh. er í því efni. Ég hef heyrt talað um, að það ætti að vinna að því þannig, að þingmenn kjördæmanna í samráði við vegamálastjóra og e.t.v. ráðh. reyndu að ná samkomulagi um, að einstökum verkum, sem ákveðin eru í vegáætluninni, yrði frestað, en ekki þannig, að það yrði lækkuð fjárveiting til hverrar einstakrar framkvæmdar sem þessum niðurskurði nemur.

Nú hygg ég, að það sé álít a.m.k. sumra manna, sem vanir eru stjórnsýslu og bera gott skyn á lögfræðileg efni, að með ráðherraúrskurði eða stjórnarráðstöfun sé ekki hægt að breyta vegáætlun, samþykki þingsins, á þann hátt að fresta algerlega einstökum framkvæmdum, taka einstakar framkvæmdir út úr og fresta þeim, eins og ég hef heyrt talað um, að í ráði væri, hitt muni fremur standast, að lækka fjárveitingu eða draga af fjárveitingu til hverrar framkvæmdar sem þessu nemur. Ég skal ekki fullyrða um þetta, en að sjáifsögðu hlýtur það að koma til athugunar. Og ég vil enn fremur benda á það og leggja á það áherzlu, að í fjárl., sem þessi stjórnarákvörðun mun vera grundvölluð á, segir orðrétt þannig, með leyfi hæstv. forseta, að „ríkisstj. er heimilt að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé er veitt til í fjárl. fyrir árið 1965.“ Þessi heimild nær einungis til þess að fresta til ársins 1966. En nú er þessu þannig varið um vegáætlunina, að það var búið að raða niður bæði fjárveitingunum og einstökum verkum árið 1966, 1967 og 1968 og þá virðist ekki geta orðið í þessu sambandi nema um tvennt að velja, annaðhvort að raska vegáætluninni til frambúðar, þ.e.a.s. sú röskun, sem nú yrði í sambandi við niðurskurðinn, segði til sín einnig við framkvæmdir næstu ára, eða hitt, sem mér þykir eðlilegra, að um leið og ákveðið yrði að fresta til ársins 1966 tilteknum framkvæmdum í vegagerð, þá sé um leið raunverulega gefið fyrirheit um það af hæstv. ríkisstj. að auka ríkisframlagið til vegaframkvæmda í sambandi við fjárl. fyrir árið 1966 sem þeim niðurskurði nemur, er kann að eiga sér stað á þessu ári. Með því móti væri hægt að vinna þetta upp aftur á árinu 1966. En ég sé ekki, að það verði hægt með öðru móti, þar sem búið er fyrir fram að ákveða tekjurnar og raða niður einstökum verkum í vegaframkvæmdum næstu ár.

Ég vil því beinlínis gera ráð fyrir því, að í sambandi við þetta tal hæstv. ráðh. og ákvörðun hæstv. ríkisstj. um að fresta vissum verkum í vegaframkvæmdum felist það fyrirheit, að það verði bætt upp og framkvæmdir auknar sem því nemur á árinu 1966 með sérstöku framlagi á fjárl. þess árs.