05.05.1965
Efri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þessu til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku til vegaframkvæmda var vísað til fjhn. Í frv. þessu felst heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka innlent eða erlent lán, að upphæð allt að 1351/2 millj, kr., til fjögurra tilgreindra þjóðvega, sem eru sundurgreindir í frv., en þar af er langmestur hlutinn ætlaður til framkvæmda við Reykjanesbraut, 115 millj. kr.

Þessi fjárhæð, sem þarna er ætlað að taka að láni, er, eins og reyndar hefur fram komið við 1. umr. málsins, mun hærri, en gert var ráð fyrir í vegáætluninni, sem nýlega var samþ. hér á Alþingi, en ástæðan til þess er, eins og kunnugt er sú, að það hefur verið ákveðið að steypa þann kafla af veginum, sem eftir er, en í vegáætluninni var gert ráð fyrir, að hann yrði malbikaður. Það mun hafa komið fram af hálfu hæstv. samgmrh. í umr. um vegáætlunina, að það væri ekki búið að taka fullnaðarákvörðun um það, hvort heldur vegurinn yrði steyptur eða malbikaður, en sú upphæð, sem sett var inn í vegáætlunina, var miðuð við kostnað við að malbika veginn. En vissulega hefði verið eðlilegra, að þessi fyrirvari hefði verið settur inn í áætlunina sjálfa.

Þá hefur þessi upphæð einnig hækkað nokkuð vegna breytts verðlags, þar sem þær fjárhæðir, sem greindar voru í vegáætluninni, voru miðaðar við kostnaðaráætlanir, sem gerðar voru á síðasta ári, en hafa nú hækkað.

Eins og greinir í nál., kvaddi n. vegamálastjóra á sinn fund og fékk hjá honum ýmsar upplýsingar varðandi ráðstöfun þessa lánsfjár. Hann gat þess m.a., eins og reyndar kom fram við 1. umr. málsins, að það væri fyrirhugað að taka vegarskatt á Reykjanesbraut eða Keflavíkurvegi og hann skýrði enn fremur frá því, að sú breyting, sem nú hefur verið ákveðin og fólgin er í því að steypa veginn allan í stað þess að malbika hann og hefur auðvitað mjög aukinn kostnað í för með sér, 45–50 millj, kr., að sú breyting mundi leiða til þess, að vegartollurinn yrði hækkaður og af hækkun vegartollsins mundi þessi upphæð nást öll í framtíðinni.

Þá er rétt að taka einnig fram, að fyrirhugað mun vera; að af þessari fjárhæð, 135 millj. kr., verði hægt að ná 27 millj. af sölu ríkisskuldabréfa eða spariskírteina skv. nýlega samþ. lögum hér á Alþingi um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka innlent lán.

Fjhn. hefur, eins og nál. á þskj. 631 ber með sér, samþ. að mæla með frv., en þrír nm., þ.e.a.s. hv. fulltrúar Framsfl. og Alþb. í n., hafa þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., er fram kynnu að koma.