05.05.1965
Efri deild: 81. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 644 og vildi segja um hana nokkur orð. Ég flutti að vísu brtt, við vegáætlunina ásamt tveim þm. Vestf., en þær brtt. voru allar felldar, eins og að venju lætur. Ég mundi ekki hafa flutt fleiri brtt., ef það hefði ekki staðið alveg sérstaklega á. Það er komið á daginn, að vegasambandið er ekki þýðingarlítið fyrir afskekkt héruð. Það hefur komið á daginn núna í vetur, þegar veðráttan hefur verið svo sem hún hefur verið og hafísinn hefur komið að landinu. Með því vegasambandi, sem þegar er í innhluta Strandasýslu, hefur í vetur lengst af verið fært bæði með farþega og þungavörur, en við norðurhluta sýslunnar eða Árneshrepp er ekkert vegasamband, eins og þm. er kunnugt. Í marga mánuði hefur verið ófært nema nokkra daga til hafna í allri sýslunni og sambandið í lofti hefur ekki verið til staðar heldur, vegna þess að flugvöllurinn á Gjögri hefur verið ófær lengst af síðustu mánuðina. Til Árneshrepps, til og frá hreppnum, hafa því verið lokaðar allar leiðir í lofti, á sjó og á landi. Svo heppilega vildi til og það var alveg sérstakt lán, að fyrir rúmri viku svignaði ísinn dálítið frá, þannig að það var hægt að senda skip norður með vörur og ef þessi sérstaka heppni hefði ekki verið með, þá var neyðarástand yfirvofandi, vegna þess að það skorti nauðsynlegustu vörur bæði fyrir menn og málleysingja.

Eftir þessa reynslu tel ég, að Alþingi geti ekki komizt hjá því að veita fé til þess að leggja þennan stutta vegarspotta, sem tengir Arneshrepp við innhluta sýslunnar. Það kostar einar 2 millj.

Sýslunefnd Strandasýslu hefur setið á fundi undanfarna daga og hafa þar vegamálin verið rædd og þetta sérstaka ástand, sem skapazt hefur um norðurhluta sýslunnar. Sýslunefndin hefur gert samþykkt, sem oddviti sýslunefndar hefur sent öllum þm. Vestf. og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þessa samþykkt.

.„Sýslumaðurinn í Strandasýslu.

Hólmavík, 29. apríl 1965.

Á aðalfundi sýslunefndar Strandasýslu þetta ár var samþykkt eftirfarandi:

Eftir að hafa kynnt sér hina nýju fjögurra ára áætlun um framlag til þjóðvega í Strandasýslu samþykkir sýslunefndin eftirfarandi þingmönnum og vegamálastjóra til athugunar:

Sýslunefndin lýsir yfir algerri vanþóknun sinni á ákvörðun vegamálastjórnar og Alþingis um framlög til þjóðvega í Strandasýslu næstu fjögur árin, eins og þau eru ákveðin á fjögurra ára áætlun þeirri, sem liggur fyrir. Telur hún, að réttur Strandasýslu sé svo hrapalega fyrir borð borinn, miðað við vegaþarfir sýslunnar og miðað við önnur héruð, að ekki má láta því ómótmælt. Þess vegna skorar fundurinn á vegamálastjórnina og þingmenn Vestfjarðakjördæmis að taka til rækilegrar endurskoðunar framlög ríkisins til þjóðvega í Strandasýslu hin næstu fjögur ár og hafa fullkomna hliðsjón af eftirfarandi atriðum: Það ástand, sem nú hefur skapazt vegna hafísins á Húnaflóa og fyrir Norðurlandi, ætti að minna á einangrun fólksins í Árneshreppi, meðan það ekki kemst í vegarsamband. Það er því augljóst, að ekki hefur verið minni þörf á að útvega lánsfé til að geta lokið þeim kafla, sem þarf til þess að tengja saman vegarsambandið á Vestfjörðum, heldur en það fé, sem varið er til Reykjanesbrautar. Það er því krafa Strandamanna, að á einhvern hátt verði séð fyrir því, að þarna komist á vegarsamband þegar á þessu sumri. Skorar fundurinn á þm. Vestfjarðakjördæmis að láta sýslunefnd Strandasýslu vita, áður en yfirstandandi Alþingi er lokið, hvort þessum málum verði sinnt eða ekki.“

Menn mættu nú halda, að þessir menn væru þannig gerðir, að þeir stilltu lítt orðum sínum í hóf, þegar þeir athuga þessa fundarsamþykkt. En ég get fullvissað hv. alþm. um það, að sýslunefndin er skipuð mönnum, sem vita vel, hvað þeir segja og kunna að stilla orðum sínum í hóf, en með því að hafa það í huga, þá sést, hvílík alvara fylgir þessum orðum, sem ég las upp og kemur greinilega fram í fundarsamþykktinni.

Þrátt fyrir þessar kröfur, sem gerðar eru í samþykktinni um auknar vegabætur í Strandasýslu, hef ég ekki tekið upp nema eina tillöguna, till., sem fjallar um það að tengja saman vegina í innsýslunni og norðursýslunni. Ef það hefði verið til staðar nú, hefðu ekki verið nein vandræði með flutninga norður í Árneshrepp og fólk, sem þarf að komast þaðan t.d. sökum veikinda, hefði getað farið þann veg.

Ég get sagt ykkur það, að um tíma, þegar leit út fyrir, að það ætlaði að verða alvarlegur skortur og var orðinn alvarlegur skortur á ýmsum nauðsynjavörum, þá stóðum við, sem vorum að reyna að koma vörum þangað, í stöðugu sambandi við hreppsbúa og ríkisstj., sem heimilaði að senda varðskip til þess að brjóta leiðina norður og leiðbeina öðru skipi. Þá kom til orða að senda flugleiðis matvörur, vegna þess að það væri yfirvofandi skortur, en völlurinn reyndist ófær og það var engin leið til á sjó, landi eða í lofti norður eða þaðan, algerlega lokaður heimur.

Ég veit, að það reynist oft til lítils að bera fram brtt. En ég vil satt að segja vona, að í þessu tilfelli beri það árangur. Ég sé ekki, hvernig þingið getur gengið fram hjá þeirri staðreynd og þeirri reynslu, sem staðreyndirnar hafa fært okkur upp í hendurnar, að þessi hluti af landinu er algerlega lokaður frá öðrum landshlutum og ófært þangað og þaðan, hvað sem í skerst.

Ég vil satt að segja vona, að þrátt fyrir þær venjur, þær ríku venjur, sem við höfum að fella brtt. frá minni hl., þá sýni þó deildin núna í þessu tilfelli þá röggsemd að samþ. brtt. mína. Sú fjárhæð, sem þarf til þess að rjúfa einangrun Árneshrepps, svarar til andvirðis myndarlegs einbýlishúss í Reykjavík, stærri er nú upphæðin ekki. Og það er ekkert undarlegt, þegar teknar eru að láni milljónir í brautir nálægt Reykjavík til þess að byggja upp nýja vegi, þar sem vegir eru fyrir, þó að þessu fólki finnist það vera æðilítið um það hugsað og það næstum því yfirgefið, þegar það er ekki hægt að fá einar 2 millj. til þess að tengja saman vegina í norðurhluta og innri hluta sýslunnar.

Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð.