11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál, en vil vekja athygli á meðferð vegamála hér á hv. Alþingi. Um áramótin 1963–1964 voru afgreidd hér ný vegalög, þar sem gert var ráð fyrir því að semja vegáætlun til 4 ára. Og þeir hæstv. stjórnarsinnar hafa gert stundum tilraun til að hæla sér af því, að allt annað yrði nú að vinna að þessum málum framvegis, þegar búið væri að undirbyggja þau vel og unnið væri eftir fastgerðri áætlun, er væri til 4 ára. Og fyrir samkomulag hér í þinginu fékkst því breytt á þann veg, að endurskoða skyldi þessa áætlun á 2 ára fresti í staðinn fyrir 3 ára fresti.

Nú hefur á þessu þingi, sem nú er senn að ljúka, verið lögð fram fyrsta 4 ára áætlunin. Hún var lögð fram um miðjan desember og var svo tekin til meðferðar í febrúar. Þegar hún hafði legið hér í hv. Alþ. í 3 mánuði, kom ríkisstj. og embættismennirnir með verulegar breytingar á þessari áætlun, vegna þess að hún var orðin úrelt. Verðlagsbreytingar fyrir áhrif söluskattshækkunar ríkisstj. höfðu gert það að verkum, að það þurfti að endurskoða vegáætlunina eftir 3 mánuði. Þessi áætlun var síðan samþ. á hv. Alþ. Það mun hafa verið í apríl, sem það var gert, en hún var ekki búin að vera í gildi — sennilega búið þó að staðfesta hana, þegar inn í fjvn. voru sendar till. til breytinga á 4 ára áætluninni. Hæstv. ríkisstj. hafði nefnilega þóknazt að lækka fjárveitingu á fjárlögunum um 20% og nú var gerð till. um að breyta því í vegáætluninni. Þegar þetta mál kom til meðferðar í fjvn., var meðferð þess mótmælt og sýnt fram á það með rökum, að það væri ekki hægt að framkvæma það á þann hátt, sem lagt var til. Meiri hl. n. óskaði eftir fresti í málinu og það hefur ekki verið tekið til meðferðar síðan og gert ráð fyrir, að fjvn. hafi lokið störfum. Ég lít því svo á, að hæstv. ríkisstj. hafi fallið frá þessari ákvörðun sinni um að lækka vegaféð, enda er engin heimild í vegáætluninni til niðurskurðar, eins og hugsað var af hendi hæstv. ríkisstj.

Það liðu ekki nema 1 eða 2 vikur frá þessu, þangað til hæstv. ríkisstj. bar fram hér frv. á Alþ. til breyt. á vegáætluninni. Þetta frv. er nú til meðferðar hér í hv. d. í dag og það er byggt á því, að hún hafi um tíma hugsað sér að malbika Keflavíkurveginn, en upphaflega var áætlunin miðuð við, að hann yrði steyptur. Nú eru það engin ný sannindi og vissu allir, þegar farið var að steypa Keflavíkurveginn, að hann yrði dýrari en malbikun, en hitt vissu menn líka, að steinsteypan er varanlegri en malbikunin, og þess vegna var horfið að því ráði í upphafi, að vegurinn skyldi steyptur, en ekki malbikaður. Ekki veit ég, hvað olli þessu afturhvarfi hæstv. ríkisstj. í vetur, en hún hefur snúizt á nýjan leik í einn hring og kemur nú fram með brtt. við vegáætlun með þessu lagafrv.

Það eru fleiri vegir, sem hæstv. ríkisstj. óskar eftir að breytt verði fjárveitingu til eða lántökuheimild til á vegáætluninni, og samt hefur vegáætlunin ekki staðið í 4 mánuði. Svo heldur hæstv. ríkisstj., að hún geti samið um vegáætlun til 4 ára, þegar hún getur ekki einu sinni látið hana standa breytingalausa í 4 vikur, hvað þá 4 mánuði. Þetta sýnir á vissan hátt vinnubrögð hæstv. ríkisstj. og hún þarf ábyggilega að læra verulega miklu meira í vinnubrögðum, áður en hún getur látið sér detta í hug að láta samþ. áætlun til 4 ára. Á þessu vildi ég vekja athygli.