11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

199. mál, lántaka til vegaframkvæmda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það mun vera þannig með flesta, að þeir þurfa ýmislegt að læra. En hræddur væri ég um það, að ekki væri gott að fara í kennslustund til hv. 3. þm. Vesturl., hvorki hvað vegamál snertir né annað.

Hv. þm. segir, að það sé engin heimild til þess að fresta vegaframkvæmdinni. Það hefur verið ákveðið að lækka 47 millj. kr., sem eru í fjárl., um 20%. Þetta var fjvn. tilkynnt. Þetta hefur hv. þm. verið tilkynnt, og í fjvn. hefur það verið bókað, að ætlazt er til, að þm. kjördæmanna hafi samráð við vegamálastjóra og ráðuneytið um það, hvaða framkvæmdum verði frestað. Það er því ekkert um annað að ræða heldur en það, að þessar 47 millj. verða lækkaðar um 20%. Það hefur verið ákveðið og þýðir ekkert fyrir hv. 3. þm. Vesturl., sem á sæti í fjvn., að koma hér og láta sem svo, að hann viti ekki um, að þetta hefur verið ákveðið.

Hv. þm. talar um það, að vegáætlunin sé úrelt, af því að nú sé farið fram á lántökuheimild og þessi lántökuheimild er með ríflegra móti, aðeins hærri en gert er ráð fyrir í vegáætluninni. Nú er það svo, að vegáætlunin er gerð samkv. þál. frá Alþingi. En sjálfsagt hefur hv. 3. þm. Vesturl. ekki dottið það í hug, að þessi ályktun, vegáætlunin, væri óbreytanleg með lögum frá Alþ. Vegáætluninni verður vitanlega ekki breytt nema með lögum frá Alþ. En hingað til hefur alltaf þótt fært að breyta ályktunum Alþ. með lögum. Ekki svo meira um það, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði.

Það má segja, að það sé mjög vinsamlegt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að benda vegamálastjórninni á, að það vanti nú reyndar hærri lántökuheimild, en farið er fram á. En ég vil þá geta þess til skýringar á því, sem ég ætla, að hv. 1. þm. Norðurl. v. reyndar viti, hafi fengið upplýsingar hjá ráðuneytisstjóranum í samgmrn. um það, að þessi 21 millj., sem hv. þm. talar um, það eru bráðabirgðalán hjá Aðalverktökum og það hefur skeð fyrr, að það hefur ekki verið leitað lánsheimildar fyrir bráðabirgðalánum. En það er ætlunin að athuga það fyrir haustið, þegar vitað verður nákvæmlega, hvað mikið er um að ræða, því að þessar 115 millj., sem farið er fram á til að ljúka Keflavíkurveginum, eru áætlunarupphæð. Vonandi þarf ekki að nota það allt og þegar lokið er við að steypa veginn, þá er vitað, um hve háa upphæð er að ræða og þá verður vitanlega gengið frá lánsheimildum fyrir öllu, sem að láni hefur verið tekið, um leið og bráðabirgðalánunum verður breytt í föst lán. Það er þess vegna ekki ástæða til að hækka lántökuheimildina frá því, sem farið er fram á með þessu frv. Út af fyrir sig er ekkert nema eðlilegt, þó að hv. þm. benti á þetta, úr því að hann kom auga á það, en vegamálastjórnin ætlar sér ekki að taka lán án heimildar eða láta þau standa án heimildar.

Um Ennisveginn er það að segja, að það er engin ástæða til þess að breyta frv., en það mun rétt vera, að þessi heimild, sem hér er farið fram á, er óþörf, vegna þess að það var önnur heimild fyrir hendi, en það getur nú ekkert sakað, þótt þessi heimild sé látin vera með. Það tekur ekki að breyta frv., því að það verður ekki meira lán tekið í þennan veg, sem lokið var að byggja á s.l. ári.

Um Keflavíkurveginn er það að segja, að á tímabili var til athugunar að malbika það, sem eftir var af honum. En það er staðreynd, að talsverður hluti þessa vegar hefur þegar verið steyptur. Þessi vegur hefur þá sérstöðu, að það er ætlað að taka umferðargjald á veginum, og eftir atvikum þótti þá eðlilegt að ljúka við veginn á þann hátt, sem byrjað hefur verið á, þótt það sé mín skoðun, að aðrar hraðbrautir muni verða malbikaðar. Ég tel, að það sé rétt stefna, sem Reykjavíkurborg hefur tekið upp, að reyna að komast yfir sem lengsta vegi og fá gott slitlag á þá. Þannig sparast slit og eyðsla á ökutækjum og ef við ætlum að steypa Vesturlandsveginn og Austurveginn og aðra fjölfarna vegi, verðum við vitanlega miklu lengur að bíða eftir því að fá traust slitlag á þá, heldur en með því að malbika. Ég ætla einnig, að það verði erfitt að koma því við að taka umferðargjald af öðrum vegum og þess vegna hefur Keflavíkurvegurinn algera sérstöðu.

Um brtt. hv. 3. þm. Vestf. á þskj. 699, sem er samhljóða till., sem hv. 1. þm. Vestf. flutti í hv. Ed., er það að segja, að það þykir ekki eðlilegt að samþykkja þessa till. í sambandi við það mál, sem hér er um að ræða. Það er ekki vegna þess, að það vanti skilning á vandamálum þeirra, sem búa þarna vestur á Ströndum. Og ég hygg, að það megi segja, að það verði athugað, á hvern hátt megi koma til móts við þessa menn, sem vissulega eru einangraðir og illa staddir vegna íssins. Það er miður smekklegt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að vera að tala um, að það verði nafnakall um þessa till., það sjáist í Alþingistíðindunum í framtíðinni, hverjir hafi verið á móti því að rétta hjálparhönd til þeirra, sem illa eru staddir. Í þessu felst nokkurs konar hótun. En ég hygg, að hv. þm. standi það nú alveg af sér og það sé alveg eftir að reyna á það, hverjir standi raunverulega með þeim, sem þarna búa, eða á móti, Og víst er það, að Strandamenn munu spyrja að því í dag: Hvernig stendur á því, að okkur vantar veg? Hvernig stendur á því, að það er ekki búið að leggja veg til okkar? Hvernig stendur á því, að það var ekki farið að tala um það, fyrr en núv. ríkisstj. kom til valda? Þeir munu spyrja að því, og ég geri ráð fyrir því, að Strandamenn muni eiga eftir að þreifa á því, hverjir standa með þeim í verki og hverjir eru það helzt í orði.