06.05.1965
Efri deild: 83. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

203. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. tók mjög vel og drengilega í þá málaleitun, sem ég bar hér fram í gær, að það væri leitað eftir rökum fyrir þeirri málaleitun, sem felst í þessu frv. og í því skyni gerði hann það að till. sinni, að málinu væri vísað til n. með það fyrir augum, að fjhn. gæti haft tal af fyrirsvarsmönnum þessara aðila og fengið fram þau rök, sem liggja til þess, að það er gert ráð fyrir því, að samningum og ákvörðun um launakjör opinberra starfsmanna sé frestað svo mjög sem í þessu frv. greinir. Ég verð að láta í ljós vonbrigði yfir þeim vinnubrögðum, sem hv. frsm. n. lýsti hér áðan.

Ég tók það skýrt fram í máli mínu hér í gær, að ég vefengdi ekki á nokkurn hátt það, sem í grg. frv. sagði, að það væri ósk og samkomulag beggja aðila að fá þessa fresti. En í grg. var ekki tekið fram, hvaða ástæður lægju til þeirra óska. Þó að við viljum gjarna fara eftir óskum þessara aðila, er ekki til mikils mælzt, að það komi fram, hvaða ástæður liggja þar á bak við. Það hefði þess vegna verið það minnsta að mínu álíti, sem hægt hefði verið að gera, að fjhn. hefði eftir það, sem á undan var gengið, og eftir því sem hæstv. fjmrh. sagði boðað fyrirsvarsmenn þessara aðila á fund og leitað eftir upplýsingum um þetta atriði. Mér finnst það ekki til of mikils mælzt, að opinberir starfsmenn fái vitneskju um það, á hverju það byggist, að þeir eiga að bíða eftir því þangað til 1. des. að fá ákvörðun um, hver launakjör þeirra eiga að vera 2 næstu árin. Það má vel vera, að hv. fjhn. hafi afsökun sína í því, að á hana hlaðast nú mál og hún hafi ekki undan við að afgreiða þau. En það er í sjálfu sér engin afsökun.

Ég segi enn og aftur það, sem ég sagði í gær, að ég efast ekkert um, að það sé samkomulag á milli þessara aðila um þetta. Og ég fyrir mitt leyti tek það til greina á þann hátt, að ég mun greiða þessu frv. atkv. En það hefði verið það allra minnsta, að það hefði fengizt fram, hvaða rök liggja til þess, að þessi háttur er hafður á, ekki sízt vegna þess, að þessi málsmeðferð, sem þarna er ráðgerð, stangast alveg berum orðum á við það, sem talið var nauðsynlegt í aths. við frv. um kjarasamninga á sínum tíma, að það lægi fyrir a.m.k. 4 mánuðum fyrir áramót hver launakjörin yrðu, til þess að það væri hægt að taka tillit til þess í ákvæðum fjárlaga. En nú á að vera hægt að taka tillit til þess 1. des., þegar fjárlög ættu, ef allt væri með felldu, að vera afgreidd eða í öllu falli að vera komin langleiðis.