03.05.1965
Efri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

201. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur verið alllengi í smíðum og grg., sem því fylgir og miklar rannsóknir hafa fram farið, áður en ríkisstj. tók ákvörðun um að flytja frv. í því formi, sem það er nú.

Við Íslendingar höfum oft talað um það, að við eigum ýmsar auðlindir og hefur þá helzt verið talað um jarðhitann, vatnsföllin, gróðurmoldina og fiskimiðin. Og við höfum ekki í ríkum mæli getað hagnýtt okkur þessar auðlindir. Að vísu stefnir þetta allt í rétta átt. Við höfum ræktað landið og við erum á leið með að reka landbúnaðinn með nýtízku hætti. Við höfum hagnýtt okkur fiskveiðar og fiskiðnað og tileinkað okkur nýtízkutækni á því sviði. Við höfum notað jarðhitann að nokkru leyti, m.a. með því að hita upp húsin og sparað þannig mikinn gjaldeyri. Við höfum einnig um nokkurt skeið virkjað vatnsföll, þótt ekki sé hægt að segja, að það hafi enn orðið í stórum stíl. Það má segja, að það séu tvær aðalvirkjanir hér á landi, það er Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin. Sogið var fyrst virkjað samkv. l. frá 1933 og fyrstu virkjun þar lokið 1937. Þetta var vitanlega mikið átak miðað við þann tíma og miðað við þann fjármagnsskort, sem þá ríkti í landinu og miðað við það, að atvinnuvegir landsmanna voru miklu fábreyttari þá en nú. Síðan hefur verið bætt við virkjunum við Sogið, þannig að það er fullvirkjað. Laxá í Þingeyjarsýslu hefur verið virkjuð og ýmsar smærri vatnsvirkjanir hafa verið gerðar um landið, þannig að nú nálgast það að vera um 100 þús. kw, sem er virkjað hér á landi, en það er nærri því að vera 2% af vatnsafli, sem er virkjanlegt með hægu móti, en ekki nema 11/2% af vatnsafli, sem talið er vera virkjanlegt og mundi svara kostnaði að virkja miðað við þá samkeppni, sem enn er fyrir hendi um virkjun vatnsafls. Til þess að hagnýta auðlindir landsins þarf mikið fjármagn,og það er ekki nema eðlilegt, að við höfum búið við fjármagnsskort. Miðað við það, að atvinnuvegir landsmanna hafa fram á síðustu áratugina verið reknir með frumstæðri tækni og miðað við, að fámenni sé hér í landi, en mikið, sem þarf að gera og framkvæma á stuttum tíma, þá er eðlilegt, að hér hafi verið fjármagnsskortur og má vitanlega reikna með því, að það verði einnig um sinn, þótt miklar breytingar hafi orðið á því á seinni árum, að fjármagnið hefur aukizt og möguleikarnir til þess að komast yfir fjármagn hafa batnað.

Það frv., sem hér er um að ræða, er til komið eftir miklar og nákvæmar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum á vegum raforkumálaskrifstofunnar. Vatnasvæðið fyrir Suður- og Suðvesturland hefur verið rannsakað, þ.e. Þjórsársvæðið og Hvítársvæðið í Árnessýslu og á Norðurlandi Laxársvæði í Þingeyjarsýslu og Jökulsársvæðið á Fjöllum. Ýmsir staðir hafa verið rannsakaðir til þess að fá samanburð á þessum málum. Það eru 52 staðir, sem hafa verið rannsakaðir meira og minna, á Þjórsársvæðinu 19 staðir, Hvítársvæðinu 18 staðir, Jökulsársvæðinu 3 staðir, Laxársvæðinu 7 staðir og öðrum svæðum 5 staðir, samtals 52 staðir. Það er talið, að það sé unnt að virkja á 90 stöðum í landinu, en þeir staðir eru vitanlega mjög misjafnir, sumir dýrir og aðrir hagstæðari og þá er vitanlega fyrst lagt til að virkja það, sem er hagstæðast og bezt. Við höfum tæplega efni á öðru, og geri ég ráð fyrir, að allir hv. alþm. verði sammála um, að það beri að taka það fyrst, sem er hagstæðast. En menn þurfa að sannfærast um það, áður en einhver ákveðinn staður er samþykktur, að rannsóknirnar, sem að baki liggja, hafi verið þannig unnar, þannig gerðar, að eðlilegt sé að byggja á þeim.

Helztu virkjunarstaðir, sem til greina koma eftir þessa nákvæmu athugun, eru 10. Þótt 52 staðir hafi verið rannsakaðir nákvæmlega, er tæplega um meira en 9–10 staði að ræða, sem kemur til greina nú á næstunni að virkja. Það hafa verið gerðar nákvæmar kostnaðaráætlanir um þessa staði og auk þess hefur Andakilsárvirkjunin látið rannsaka Kláffoss í Hvítá í Borgarfirði án íhlutunar raforkumálastjórnarinnar. Virkjun Kláffoss bendir til, að það megi gera þar hagstæða virkjun, en hún er lítil og kemur naumast til greina að taka hana fyrir. fyrr en á seinna stigi. Aðrir staðir, sem koma til greina, eru Brúará, Búrfell, Hveragerði hér sunnanlands og fyrir norðan Dettifoss og Laxá.

Í frv. því, sem hér hefur verið útbýtt meðal hv. alþm., er tafla, þar sem sjá má kostnaðarmismun á hinum ýmsu virkjunum. Þessi tafla er á bls. 15 og er prentuð sem fskj. með frv. og þarf í rauninni ekki útskýringa við. Ef virkjað er við Búrfell, 1. áfangi 105 þús. kw, kostar hver virkjuð kwst. 10,3 aura, hvert virkjað kw 8.300 kr. Séu virkjuð 70 þús. kw í fyrsta áfanga kostar hver kwst. 12,9 aura, eða 10.500 kr. hvert kw. Sé Búrfell hins vegar fullvirkjað, kostar hver kwst. 8,6 aura, en meðalverð í virkjuninni er um 7.400 kr. Séu hins vegar athugaðir aðrir staðir til samanburðar á þessari töflu, kemur það í ljós, að þeir eru allmiklu óhagstæðari og í sambandi við þetta frv. ætla ég að halda mér við virkjunarstaði hér á Suður- og Suðvesturlandi, og eftir að við höfum lesið þessa töflu, kemur það í ljós, að Búrfell sé langhagstæðast. Hvort sem við virkjum það án alúminíumsverksmiðju, 70 þús. kw, eða fullvirkjum 210 þús. kw við Búrfell, verður Búrfellsvirkjun miklu hagstæðari.

Með þessu frv. er lagt til, að heimilað verði að virkja 210 þús. kw. Það hefur verið rætt um það að gera samninga við Svisslendinga um alúminíumverksmiðju, ef þeir samningar eru fáanlegir, samningar, sem við getum gengið að. Af því leiðir, að við virkjum með öðrum hætti ,en annars væri, í 1. áfanga 105 þús. kw miðað við það, að reist væri strax 30 þús. tonna alúminiumverksmiðja, sem tæki þá um helminginn af þessari virkjun í 1. áfanga. Síðar, ef samningar fást við Svisslendingana, er gert ráð fyrir, að alúminíumverksmiðjan yrði stækkuð upp í 60 þús. tonn. Væri þá búið að virkja upp í 210 þús. kw og alúminíumverksmiðja af þeirri stærð tæki rúmlega helminginn af Búrfellsvirkjuninni fullvirkjaðri.

Nú er ekkert vitað um það enn þá, hvort samningar fást um alúminíumverksmiðjuna. Samningarnir eru ekki komnir á það stig, að við getum nokkuð fullyrt um það. En þá er sá möguleiki að virkja við Búrfell með öðrum hætti og þá verður fyrsti áfanginn 70 þús. kw og hver kwst. 12,9 aurar. Í smávirkjunum hér á landi er reiknað hins vegar með, að meðalverð sé 20 aura kwst., t.d. hér í Soginu, og er því ljóst, að um allmikinn verðmismun er að ræða.

Það hefur verið gerð áætlun um rekstrargjöld í sambandi við virkjunina og kemur í ljós, að stórvirkjun upp í 210 þús. kw verður vitanlega ódýrust í rekstri og liggur það í augum uppi. Það hefur verið gerður samanburður á rekstrargjöldum hinna ýmsu virkjana eða valkosta, sem fyrir hendi eru, og er gert ráð fyrir, að til ársloka 1975 mundu notendur spara um 100 millj. kr., — ef ráðizt væri í Búrfellsvirkjun í stað smávirkjana og 60 tonna alúminíumbræðsla væri fyrir hendi til þess að kaupa rúmlega helming orkunnar, mundu sparast 100 millj. kr. til ársloka 1975 eða að meðaltali 14 millj. kr. á ári, en það svarar til að vera 19% af áætluðum gjöldum Sogsvirkjunarinnar 1965. Á árunum 1976–1983 eru árleg útgjöld 22.5 millj. kr. hærri í kosti B 1, þ.e. án alúminíumverksmiðju. Við þann mun ber að bæta verðmæti þeirra 170 plús 60, sem sagt 230 millj. kwst., sem Búrfell hefur umfram smávirkjanir í árslok, sbr. töflu 4 og 5, sem prentaðar eru með frv. En ef þessi orka væri metin á 5 aura kwst., sem er mjög lágt, hækkar framangreindur 22.5 millj. mismunur á ári í 34 millj. kr., en þetta jafngildir á árunum 1976–1983, að notendur spari sér 33.5 millj. kr. til viðbótar áðurnefndum 100 millj., sem ég nefndi á árunum 1969–1975. Og auk þess má benda á, að smávirkjanaleiðin gefur á árunum 1969–1975 um 66 megavött og 485 millj. kwst. á ári, sem kosta 780 millj. kr., eða 11.800 kr. kw eða 161 eyri kwst. í stofnkostnaði. En sé Búrfellsleiðin valin, fást hins vegar 84 megavött og 720 millj. kwst. á ári fyrir 740 millj. kr., sem kosta 8.800 kr. kw eða 103 aura kwst. í stofnkostnaði. Þetta er ákaflega mikill munur í stofnkostnaði og sýnist ljóst vera, að ekki komi til mála að hugsa sér smávirkjanaleiðina, þegar þessi samanburður liggur fyrir. Og þegar við tölum um stofnkostnað við Búrfell, er meðtalinn kostnaðurinn við gastúrbínustöð og það, sem talið er nauðsynlegt að hafa til vara vegna ístruflana og bilana í stöðinni og hugsanlegra bilana á línum.

Ég var að tala áðan um Búrfellsvirkjun án alúminíumbræðslu og hér á bls. 19 er prentuð með tafla, sem sýnir, hvernig sú útkoma er, og er niðurstaðan sú, að Búrfellsvirkjun án alúminíumbræðslu sé erfið fyrstu árin, en samanborið við smávirkjanir er hún miklu betri, þegar fram í sækir eða sem svarar 360 millj. kr. á 16 árum. Og einnig það sýnir, að jafnvel þótt ekki fáist samningar um alúminíumverksmiðju, er Búrfellsleiðin það langhagstæðasta, svo framarlega sem menn treysta því, að þeim rannsóknum, sem liggja að baki þessum fullyrðingum, megi treysta. En mér kemur ekki annað til hugar en svo megi vera, með því að okkar færustu menn hafa unnið að þessum málum mörg undanfarin ár og auk þess hefur erlent firma, sem þekkt er á alþjóðlegum vettvangi, Engineering Harza Company International, unnið að þessum málu, og þetta firma er viðurkennt og þekkt, þannig að Alþjóðabankinn lánar út á mannvirki, sem þetta fyrirtæki skrifar upp á og þess vegna er það mikils virði fyrir okkur. Þótt við eigum góða verkfræðinga, sem við að sjálfsögðu getum treyst, eru þeir ekki þekktir á erlendum vettvangi og það er þess vegna mikils virði fyrir okkur, að þetta heimsþekkta firma er tilbúið að skrifa undir þessar áætlanir og samþykkja þær.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. alþm. hafi nú, þótt frv. sé ekki lengi búið að vera í þeirra höndum, lesið frv. með athygli og fskj. og séu þess vegna orðnir allkunnugir þessum málum, auk þess sem alþm. fengu allir í haust skýrslur um þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið um þetta mál. Og ég reikna þess vegna alls ekki með, að nokkur efist um að, að þessum málum hafi verið unnið með eðlilegum hætti og fullkominni samvizkusemi.

Það hefur verið skrifað nokkuð um þessi mál og það hefur komið fram, að sérfræðingar hafi ekki að öllu leyti leyti verið sammála. Sérstaklega hefur einn verkfræðingur, Sigurður Thoroddsen, talað um ístruflanir í Þjórsá og talið, að ísinn væri mikið vandamál. Það hefur að vísu verið vitað áður, að ísrek er í Þjórsá, að ístruflanir geta komið í vissum árum. Eigi að síur hefur Sigurður Thoroddsen sagt í mín eyru og ég hef sagt, að ég mundi hafa það eftir honum vegna þess, sem hann hefur áður um þetta skrifað, að þrátt fyrir þessi ísvandamál væri virkjun við Búrfell það hagstæðasta, sem við gættum ráðizt í, eins og sakir stæðu. Og mér fannst þetta út af fyrir sig ákaflega mikils virði. Það er eðlilegt, að menn geri sér grein fyrir vandanum. Það geta orðið ístruflanir. Það hafa farið fram mælingar í Þjórsá um 10 ára skeið og það hefur komið í ljós, að þetta ísvandamál á 10 árum mundi nú ekki leiða til þess, að það þyrfti marga daga að nota varastöðvarnar. En varastöðvarnar þurfa að vera til, bæði vegna ísvandamálsins og vegna hugsanlegra bilana, sem gætu komið upp í stöðinni og vegna hugsanlegra línubilana og vegna varastöðvanna verður látið duga að byggja aðeins eina línu, en annars væri ekki talið forsvaranlegt annað en þær væru tvær miðað við svona stóra virkjun.

Eins og fyrr getur, er gert ráð fyrir, að virkjunarkostnaður við Búrfell, miðað við 210 þús. kw virkjun, verði meira en helmingi lægri, en miðað við smávirkjanirnar. Og ef við litum á Sogið, sem talið hefur verið mjög hagstætt, sjáum við á töflu, sem prentuð er hér með frv. á bls. 34, að hver kwst. í Soginu kostar um 20 aura, en í Búrfelli miðað við fullvirkjun ekki nema 3,6. Þegar virkjuð hafa verið 150 þús. kw við Búrfell, er gert ráð fyrir að gera miðlun í Þórisvatni. En þegar sú miðlun er fengin, er talið, að ísvandamálið verði mun minna. Það er líka vitað, að fyrir ofan Búrfeil eru ýmsir virkjunarstaðir, t.d. við Hrauneyjarfoss og í Tungnaárkrók. Þessir staðir eru taldir hagstæðir til virkjunar, en rannsóknum er ekki komið það langt þar, að það verði fullyrt um það, hvað kwst. kosti. Í Þjórsá allri er talið vera talsvert á 2. millj. kw, sem mætti virkja með góðu móti eða fjórði partur af virkjanlegu vatnsafli á landinu. Sérfræðingar telja þó, að þrátt fyrir marga virkjunarstaði í Þjórsá verði Búrfellsvirkjun það hagstæðasta, sem við eigum yfir að ráða.

Með frv. er prentaður kafli úr skýrslu Harza, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég lesa hér lokaorðin, þ.e. niðurstöður þessa firma:

„Þær athuganir, sem yfirlit er gefið um í skýrslunni, hafa leitt í ljós, að Búrfellsvirkjun er tæknilega viðráðanleg og ekki er um nein óvenjuleg byggingartæknileg vandamál að ræða. Enn fremur, að virkjun í þeim virkjunarstigum, sem gert er ráð fyrir, er framkvæmanleg og hefur ekki í för með sér tvíverknað. Miðað við orkuspá fyrir Suðvesturland, mun ekki vera þörf á aukningu raforkuvera umfram þessa virkjun fram til ársins 1975, þegar frá er talin hin sérstaka vatnsaflsþörf hinnar fyrirhuguðu alúminíumverksmiðju. Á grundvelli verkfræðilegra athugana og áætlana vorra um virkjun vatnsafls á Íslandi undanfarin 7 ár, höfum við komizt að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt sé og rökrétt að velja Búrfell sem næsta virkjunarstað til að nægja orkuþörf Suðvesturlands.“

Þetta eru lokaorð hins erlenda firma og eru skoðanir verkfræðinga þess firma, sem hér hafa starfað og eru þær í samræmi við skoðanir íslenzkra verkfræðinga, sem um þessi mál hafa sérstaklega fjallað. Það sýnist því vera öruggt, að þær rannsóknir, sem hér er vitnað til, hafi verið þannig framkvæmdar, að á þeim megi byggja og þess vegna er frv. flutt og þessi ákvörðun tekin að leggja nú fyrir Alþingi frv. um það að virkja við Búrfell allt að 210 þús. kw virkjun.

Þetta frv. er nefnt frv. til laga um landsvirkjun og það væri kannske eðlilegt, að einhverjir spyrðu: Hvers vegna landsvirkjun? Það er vitanlega vegna þess, að það er fyrirhugað, að landsvirkjunin, sem nú hefst með Búrfellsvirkjuninni, haldi áfram að virkja ýmis fallvötn til nota fyrir landsmenn, ekki aðeins hér á Suður- og Suðvesturlandi, heldur jafnvel um landið allt og þess vegna er gert ráð fyrir því, að Norðlendingar eigi þess kost að gerast aðilar að landsvirkjuninni.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur setji á stofn virkjanafyrirtæki, sem nefnist Landsvirkjun og að ríkið og Reykjavíkurborg verði sameignaraðilar og eigi sinn helminginn hvor. Þetta sýnist vera eðlilegt framhald af því, sem hefur verið undanfarið í sambandi við virkjun Sogsins. Nú þegar Sogið er fullvirkjað, á Reykjavíkurborg helming og ríkið helming þessara virkjana. Með því að ríkið og Reykjavikurborg sameinist nú um þetta fyrirtæki og leggi eignir Sogsins í fyrirtækið, verður fyrirtækið mun sterkara en annars hefði orðið. Notendurnir eru flestir hér í Reykjavík og þess vegna eðlilegt, að Reykjavík sé aðili. Með því að ríkið tryggi sér helming í fyrirtækinu, ætti hagsmunum annarra, sem utan Reykjavíkur búa, að vera borgið.

Og þá er tilgangur Landsvirkjunarinnar skv. 2. gr. að byggja og starfrækja mannvirki til vinnslu og flutnings á raforku til almenningsnota og iðnaðar, að yfirtaka eða kaupa með samningum orkuver og aðalorkuveitur frá öðrum aðilum og starfrækja þessi mannvirki í sama skyni, að selja raforku í heildsölu til héraðsrafmagnsveitna, rafmagnsveitna ríkisins og iðjufyrirtækja, að svo miklu leyti sem héraðsrafmagnsveitur eða rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki milligöngu um raforkusölu til slíkra iðjufyrirtækja, að annast áætlunargerð um nýjar rafstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæðum Landsvirkjunarinnar.

Og skv. 3. gr. Starfsemi Landsvirkjunar skal í upphafi beinast að öflun raforku fyrir þau orkuveitusvæði, sem nú eru tengd Sogsvirkjuninni. Sýni áætlanir fyrirtækisins, að fjárhagslega sé hagkvæmt að leggja aðalorkuveitur frá orkuverum Landsvirkjunarinnar til annarra orkuveitusvæða, skal einnig heimilt að tengja þau orkuverum fyrirtækisins. Áður en til framkvæmda kemur, skal hafa náðst samkomulag milli hlutaðeigandi aðila um raforkuverð og sölusamningar gerðir. Verkefni á orkuveitusvæði Landsvirkjunar skal nánar skilgreint í reglugerð.

Orkuveitusvæði Landsvirkjunar er hér Suðurland og Suðvesturland allt frá Hvammsfirði og austur um Vestur-Skaftafellsýslu, svo langt sem rafmagn frá samveitum verður tengt þar austur um. Það er nú talað um hér í grg. til Víkur, en hitt er vitað, að Skaftfellingar fyrir austan Mýrdalssand óska eftir að fá rafmagn austur þanga, og svo framarlega sem einkastöðvarnar þar verða lagðar niður, sýnist það vera mögulegt án of mikils kostnaðar að leggja línu þangað austur til hinna þéttbýlu sveita fyrir austan sand. Þess vegna væri réttara að segja, þótt þetta orðalag hafi komið inn í grg.: allt austur að Skeiðará.

Landsvirkjun tekur við öllum eignum Sogsvirkjunar og eimhverfilsstöð Reykjavíkurborgar við Elliðaár ásamt áhvílandi skuldum svo og rekstri þessara mannvirkja með öllum réttindum og skyldum, er honum fylgja. Jafnframt tekur Landsvirkjun við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins og Reykjavíkurborgar til virkjana í Soginu og í Þjórsá við Búrfell, sbr. 6. gr., svo og öllum áætlunum og undirbúningsframkvæmdum ríkisins vegna virkjunar við Búrfell.

Ríkið og Reykjavíkurborg leggja Landsvirkjun til sem endurgjaldslaust stofnframlag eignir þær og réttindi, sem greinir í 4. gr. í sameignarsamningi aðila um Landsvirkjun skal gerð nánari grein fyrir þessum framlögum og endurskoðuðu bókfærðu verði þeirra. Ríkisstj. er heimilt að ákveða, að ríkissjóður leggi Landsvirkjun til sem höfuðstól allt að 50 millj. kr. gegn framlagi frá Reykjavíkurborg jafnháu. Af höfuðstól þessum greiðir Landsvirkjun aðilum arð frá sjöunda rekstrarári að telja samkv. nánari ákvörðun.

Þá er 6. gr. um, að heimila að virkja upp í 210 þús. kw raforkuver, og 7. gr.: til byggingar nýrra aflstöðva og aðalorkuveitna þarf Landsvirkjun leyfi ráðh. þess, sem fer með raforkumál, áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum. Hvort heldur eru aflstöðvar eða aðalorkuveitur, skal Landsvirkjun senda ráðh. þeim, sem fer með raforkumál, uppdrætti að hinum nýju fyrirhuguðu mannvirkjum ásamt lýsingu á þeim. Getur ráðh. krafizt þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkjanna, sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.

Þá er það stjórn Landsvirkjunar. Hún skal skipuð sjö mönnum. Sameinað Alþingi kýs þrjá stjórnarmenn hlutfallskosningu og borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá. Ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur skipa sameiginlega sjöunda manninn og skal hann vera formaður. Nái eignaraðilar ekki samkomulagi um skipun oddamannsins, skal hann skipaður af hæstarétti. Varamenn jafnmargir skulu skipaðir á sama hátt. Kjörtími stjórnar skal vera sex ár. Nánari ákvæði um starfshætti stjórnarinnar og starfskjör stjórnarmanna skulu sett í reglugerð.

Og þá er það 9. gr. Stjórn Landsvirkjunar hefur á hendi yfirstjórn á rekstri fyrirtækisins, framkvæmdum þess og undirbúningi þeirra. Stjórn Landsvirkjunar ræður framkvæmdastjóra þann, er veitir fyrirtækinu forstöðu. Framkvæmdastjóri skal annast allan daglegan rekstur fyrirtækisins og skal hann eiga sæti á og stjórna fundum. Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna. Nánari ákvæði um starfssvið stjórnar og framkvæmdastjóra verða sett með reglugerð.

Þá er 10. gr. um endurskoðun, sem sýnist vera sjálfsögð og eðlileg.

11. gr. kveður á um, hvernig raforkuverð skuli fundið. Stjórn Landsvirkjunar ákveður, að fengnum tillögum Efnahagsstofnunarinnar, heildsöluverð Landsvirkjunar á raforku. Skal raforkuverð við það miðað, að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni, sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins. Einnig skal að því stefnt, að fyrirtækið skili nægilegum greiðsluafgangi til þess að geta jafnan með eigin fjármagni og hæfilegum lántökum tryggt notendum sínum næga raforku.

Þetta ákvæði er dálítið annars eðlis en er í gildandi Sogslögum, þar sem þar er kveðið svo á, að raforkuverð skuli vera kostnaðarverð að viðbættum 5%. Hér er þessi 5% hemill ekki hafður á, heldur hins vegar gert ráð fyrir því, að raforkuverðið miðist við það, að eðlilegur arður fáist af því fjármagni, sem bundið er í fyrirtækinu og að fyrirtækið geti lagt á eðlilegan hátt í sjóði til þess að byggja sig upp og til þess að ráðast í nýjar framkvæmdir, þannig að það geti lagt eitthvert fjármagn fram frá eigin hendi á móti þeim lántökum, sem verða að eiga sér stað. En það má hins vegar segja, að þótt þessi 5% séu ekki með sem hemill, þá sé hemill fyrir hendi og hann er sá, að Efnahagsstofnunin á að reikna þetta út og gera till. til stjórnarinnar og það, að raforkuverið vegur alltaf þungt í vísitölunni og í dýrtíðinni og þess vegna mun það sjónarmið jafnvel alltaf vega þyngra en hagsmunir fyrirtækisins beinlínis að halda raforkuverðinu niðri til hagsmuna fyrir allan almenning og til þess að það verði ekki allt of þungt í vísitölunni til þess að hífa hana upp.

Þá er hér einnig ákvörðun um það, að Landsvirkjun geri orkusölusamninga við rafmagnsveitur ríkisins, héraðsrafmagnsveitur og iðjuver, innan þeirra marka, sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðh. þess, er fer með raforkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðh. valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna, en ella hefði orðið. M.ö.o.: Það má ekki selja til einstakra iðjufyrirtækja raforku á það lágu verði, að það gæti orðið til þess að gera raforkuverð til almennings dýrara, en annars hefði orðið og sýnist vera eðlilegt, að það megi gera beina samninga við iðjufyrirtæki, sem kaupa raforku í svo stórum stíl eins og 100 millj. kwst. á ári. Við getum tekið t.d. áburðarverksmiðjuna, sem notar 145 millj. kwst. á ári. Við gætum hugsað okkur sementsverksmiðjuna, að hún færi einnig yfir þetta mark, a.m.k. ef hún verður stækkuð, þannig að þótt alúminíumverksmiðja yrði byggð, yrði hún ekki eina fyrirtækið, sem kæmi til greina að fá sérsamninga; heldur a.m.k. áburðarverksmiðja og sennilega sementsverksmiðjan, ef hún verður stækkuð, sem hlýtur að verða gert.

Þá er gert ráð fyrir því samkv. 12. gr., að Landsvirkjun sé heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni, en fyrirtækið getur ekki skuldbundið eignaraðila að því er snertir greiðsluskuldbindingar og ábyrgð á lánum til framkvæmda og breytinga á mannvirkjum, nema að fengnu samþykki þeirra hvors um sig. Þó þarf Landsvirkjun ekki að leita slíks samþykkis, ef samanlagðar skuldbindingar og ábyrgðir eru minna, en sem svarar 10 millj. kr. á ári, að meðaltali á hverju 5 ára tímabili.

Samkv. 13. gr. er gert ráð fyrir því að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum til virkjunarinnar, svo og til eldsneytisstöðva Landsvirkjunar. Þetta er nýmæli að fella niður tolla af vélum og tækjum til Landsvirkjunar. Þetta er stefna, sem hlýtur að verða ráðandi ekki aðeins við þessa virkjun, heldur einnig aðrar virkjanir, sem á eftir koma og í frv. því, sem hér var útbýtt í dag um Laxárvirkjun, er sams konar ákvæði. Og ég held, að það hljóti að vera eðlilegt sjónarmið að fella niður tolla til þessara mannvirkja. Það hlýtur að verða til þess, að raforkuverðið lækkar til alls almennings í landinu og ætti miklu frekar að vera fagnaðarefni, en getsakir um það, að þetta ákvæði sé sett inn til þess að geta selt alúminíumverksmiðjunni ódýrt rafmagn, eins og ég sá einhvers staðar skrifað í blaði í dag. Raforkan er orðin svo mikill þáttur í daglegu lífi þjóðarinnar, að það hlýtur að verða keppikefli að fá sem ódýrasta raforku til heimilisþarfa og til hvers konar iðnaðar og tollarnir eru vitanlega það mikil upphæð í svona orkuveri, að það getur haft talsverð áhrif á verð raforkunnar. Ég hygg þess vegna, að þegar það mál er skoðað niður í kjölinn og alveg öfgalaust, muni það nú ekki valda ágreiningi á milli hv. þm.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóði verði heimilað að lána Landsvirkjun allt að 100 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. setur. Innlent fjármagn er þess vegna gert ráð fyrir að nemi með eignum Sogsvirkjunarinnar, lántöku hjá ríkissjóði, framlagi ríkissjóðs og framlagi Reykjavíkurborgar talsvert á 7. hundrað millj. krónur.

Skv. 15. gr. er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast með sjálfsskuldarábyrgð lán, er Landsvirkjun tekur til Búrfellsvirkjunar, að fjárhæð allt að 1.204 millj, kr. eða 28 millj. dollara eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum, er ríkisstj. ákveður og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana, vaxta og annars kostnaðar. Eins og hv. þm. hafa vitanlega séð á fylgiskjölum, sem fylgja frv., er gert ráð fyrir því, að byggingarkostnaður fyrirtækisins nemi talsvert á annan milljarð króna og þess vegna er eðlilegt, að ábyrgðarheimildin sé bundin við þessa upphæð, sem miðast við þessa stóru virkjun.

Þess má geta, að talíð er mjög líklegt, að hagkvæmt lán fáist erlendis og þá helzt hjá Alþjóðabankanum til þessarar virkjunar og hjálpar það til, að hagur þjóðarinnar út á við hefur farið batnandi, að Íslendingar eiga nú gjaldeyrisvarasjóð, sem nemur 1.600 millj. kr., og að traust þjóðarinnar út á við hefur batnað hin síðari ár, en þetta er vitanlega sú stærsta upphæð eða stærsta heimild, sem leitað hefur verið eftir í einu af íslenzka ríkinu.

Þá er gert ráð fyrir samkv. 16. gr., sem er ekki nýtt í lögum, að Landsvirkjun sé undanþegin tekjuskatti, stimpilgjöldum, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis, sýslusjóða og sveitarfélaga. Þó skal Landsvirkjun greiða sýslusjóðum og sveitarfélögum þau opinber gjöld, sem þeim er gert að greiða vegna húseigna Landsvirkjunar samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.

Samkv. 17. gr. er gert ráð fyrir því, að eigendur Laxárvirkjunar geti, þegar þeir ákveða, sameinazt Landsvirkjun. Náist ekki samkomulag milli eigenda Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar um eignarhlutdeild aðila og nýjan sameignarsamning, skulu dómkvaddir menn meta eignir hvors fyrirtækis fyrir sig og fer þá eignarhlutdeildin eftir því mati. Verði eignarhlutur ríkisins samkvæmt þessu undir helmingi, er ríkisstj. heimilt að ákveða, að ríkissjóður leggi Landsvirkjun til nýtt fjárframlag eða taki að sér greiðslu skulda, þannig að tryggð verði helmingseign af hálfu ríkisins.

Það er þannig, að ef eigendur Laxárvirkjunar vildu nú þegar sameinast Landsvirkjun, mundi ríkissjóður verða í minni hluta, vegna þess að eins og sakir standa, þá á ríkissjóður aðeins 35% af Laxárvirkjuninni. Ef Laxárvirkjun hins vegar sameinast Landsvirkjuninni., eftir að Laxárvirkjunin hefur verið stækkuð, eignast ríkissjóður samkv. lögum helming í Laxárvirkjun, og þá gætu orðið helmingaskipti áfram milli ríkisins annars vegar og Laxárvirkjunar og Reykjavíkur hins vegar, án þess að ríkissjóður legði Landsvirkjun til nokkurt nýtt framlag. Það þykir sjálfsagt að hafa þetta ákvæði í l., til þess að ríkissjóður haldi alltaf helmingi í Landsvirkjuninni, þótt eigendur Laxárvirkjunar komi inn í fyrirtækið.

Þá er hér samkv. 17. gr. ákvæði um stjórnarskipun, eftir að eigendur Laxárvirkjunar hafa komið inn í fyrirtækið, þannig að eftir sameiningu Laxárvirkjunar við Landsvirkjun skuli aðilar skipa sjö menn í stjórn fyrirtækisins í hlutfalli við eignarhlutdeild, þó þannig, að allir aðilar eigi a.m.k. einn mann í stjórn þess. Þetta ákvæði tryggir það, að eigendur Laxárvirkjunar mundu alltaf eiga einn mann, jafnvel þótt hlutur þeirra væri ekki það stór, að hann samkv. útreikningum tryggði það.

Ráðh. skipar formann úr hópi þingkjörinna fulltrúa, og fer hann með tvö atkvæði við atkvgr. stjórnarinnar, ef heimild í l. mgr. til að tryggja ríkissjóði helmingseign hefur verið notuð, en ella með eitt atkvæði. Þetta ákvæði tryggir það jafnframt, að um leið og ríkissjóður heldur alltaf helmingseign í fyrirtækinu, þá haldi hann einnig helmingsatkvæðum, ef um ágreining verður að ræða í fyrirtækinu, og þykir þetta ákvæði sjálfsagt til þess að tryggja ríkissjóð, en þetta ákvæði er nú eins og segja mætti aðeins teoretiskt, en tæplega, að það gæti komið til framkvæmda slíkur ágreiningur sem hér er hugsaður.

Þá er samkv. 18. gr. gert ráð fyrir, að ráðh. geti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi, sem nauðsynleg eru til framkvæmda samkv. lögum þessum. Um framkvæmd eignarnámsins fari eftir lögum nr. 61/1917.

19. gr. Mál, er varða framkvæmd laga þessara og aðild ríkisins að Landsvirkjun, falla undir ráðh. þann, sem fer með raforkumál.

Og 20. gr. Við gildistöku laga þessara skal stjórn fyrirtækisins skipuð og sameignarsamningur gerður milli aðila. Skal þessu hvoru tveggja lokið fyrir 1. júli 1965. Frá þeim tíma fellur niður núverandi umboð stjórnar Sogsvirkjunar, en hin nýja stjórn Landsvirkjunar kemur að öllu leyti í hennar stað. Stjórn Landsvirkjunar undirbýr í samráði við eignaraðila reglugerð fyrir fyrirtækið, þar sem setja skal nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Reglugerðina setur ráðherra sá, sem fer með raforkumál. Setningu reglugerðar og yfirfærslu allra eigna og skuldbindinga í hendur hins nýja fyrirtækis skal lokið fyrir 31. des. 1965, en þá falla úr gildi lög nr. 28 23. apríl 1946, um virkjun Sogsins, lög nr. 26 23. apríl 1951 og lög nr. 67 24. apríl 1954, um viðauka við þau lög, svo og önnur ákvæði, er brjóta í bága við þessi lög.

Það má segja, að það hafi e.t.v. verið óþarfi að eyða löngu máli í það að lesa upp frv., en það þótti mér nú nauðsynlegt, um leið og gerðar voru nokkrar skýringar á ákvæðum hinna ýmsu greina.

Það er nauðsynlegt að fá þetta frv. lögfest nú, áður en þingi lýkur, til þess að mögulegt verði að skipa þessu nýja fyrirtæki stjórn og að stjórnin geti farið að undirbúa framkvæmdir, gera útboð á mannvirkjum og hefja undirbúningsframkvæmdir. Það er gert ráð fyrir því, að ef virkjuð verða 70 þús. kw í fyrsta áfanga, geti virkjunarframkvæmdum verið lokið í árslok 1968. Verði hins vegar virkjuð 105 þús. kw í fyrsta áfanga og samningar hafi tekizt við alúminíumverksmiðjuna, er gert ráð fyrir því, að virkjuninni verði ekki lokið fyrr en á miðju ári 1969. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að í árslok 1968 verði fullgerð ein vélasamstæða, þannig að það mætti þá í árslok 1968 veita raforku frá þessari nýju virkjun til almenningsnota hér um Suður- og Suðvesturland.

Ég hef lesið um það, að það ætti að vera óhæfilegur dráttur á virkjunarframkvæmdum og virkjunarundirbúningi, það væri kominn orkuskortur og þetta væri mjög bagalegt. Satt er það, það er kominn orkuskortur, en drátturinn á virkjunarrannsóknum er eðlilegur. Til þess þurfti tíma og til þessara rannsókna varð að vanda. Og það er ekki langt síðan allir okkar sérfræðingar urðu tvímælalaust sammála um það, að við yrðum nú þegar að hverfa frá smávirkjanaleiðinni. Það voru til sérfræðingar allt fram á síðustu mánuði, sem töldu, að það væri hugsanlegt, að við ættum fyrst að ráðast í smávirkjanir og síðan að stefna að stórvirkjun. En ef við hefðum nú farið að virkja Hveragerði, Brúarfoss eða Kláffoss, hafði það vitanlega kostnað í för með sér. En það, sem gerir okkur erfitt fyrir með stórvirkjun, það er, ef virkjað verður án alúminíumverksmiðju, þ.e. að þá vantar notendur fyrir orkuna fyrstu árin. Og þess vegna er nauðsynlegt og væri sérstaklega nauðsynlegt, ef ekki væri gerður alúminíumsamningur, að byggja upp markaði fyrir orkukaupin, áður en ráðizt er í virkjunina. Og einhvern tíma verður að byrja á því að fara í þá virkjun, sem hagstæðust er. Það verður þá að taka á sig óþægindi um árabil með því að nota raforku frá dísilstöðvum og lítið eitt dýrari raforku fyrstu árin, eftir að stórvirkjunin væri gerð, ef það yrði án alúminíumverksmiðju, á meðan verið er að byggja markaðinn upp, en hitt liggur tvímælalaust fyrir, að virkjun við Búrfell án alúminíumverksmiðju mundi spara notendum 360 millj. kr. miðað við það, að farið væri í smávirkjun. Þetta liggur alveg fyrir. Hitt liggur svo einnig fyrir, að ef gerður væri hagstæður samningur um alúminíumverksmiðju, verður raforkan talsvert ódýrari, en raforka frá Búrfelli án alúminíumverksmiðju. En ég ætla ekki að fara að gera alúminíummálið hér að umtalsefni í sambandi við þetta frv. meira en orðið er.

Frv. fer fram á heimild til þess að virkja allt að 210 þús. kw. Og framkvæmdum við virkjunina, áfangaskiptum verður hagað eftir því, hvort alúminíumverksmiðja verður með eða verður það ekki. Ég geri ráð fyrir því, að á næsta hausti liggi það ljóst fyrir, hvort við eigum kost á samningum, sem við teljum hagstæða. En það ætti ekki að breyta neinu um það, að þetta frv. er jafntímabært, hvort sem alúminíumsamningur verður gerður eða ekki. Það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er það, að við þurfum nú þegar að hefja undirbúning að framkvæmdum með því að kjósa fyrirtækinu stjórn, svo að hún hafi sumarið fyrir sér til þess að gera undirbúningsráðstafanir. Og það liggur nú tvímælalaust fyrir, hvar hagstæðast er að virkja og þetta frv. er flutt til þess að fá heimild í því skyni. Og með því, að undirbúningsframkvæmdir geti hafizt nú þegar á þessu vori, er gert ráð fyrir, að virkjun verði lokið eða það langt á veg komið í árslok 1968, að notendur fái rafmagn frá virkjuninni. Þess vegna verður að brúa bilið á þessum tíma til ársins 1968, og það má vitanlega gera með því að byrja á að byggja upp varastöðvarnar, sem þurfa að koma hvort sem er og verða fyrir hendi hvort sem er. Það þarf því ekki að kasta peningum í stofnkostnaðinn, þótt virkjuninni verði ekki lokið fyrr en þetta, en vitanlega verður rafmagnið á þessu tímabili eitthvað dýrara, ef til þess þarf að gripa að nota dísilstöðvar á vissum tímum ársins.

Þar sem þetta frv. liggur nú hér fyrir með prentuðum fskj., sem gefa ýtarlegar skýringar á málinu, tel ég ekki að svo komnu nauðsynlegt að fjölyrða meira um málíð. Það er sjálfsagt, að þetta mál fari í n. og n. eigi þess kost að leita sér upplýsinga hjá sérfræðingum um þau atriði í frv., sem þarfnast nánari skýringa. Og ég tel, að það sé eðlilegt, að þetta mál fari til fjhn. frekar en iðnn., því að hér er um mikið fjármál að ræða. Ég vildi mælast til þess, að hv. n. reyndi að flýta störfum eins og unnt er, um leið og ég tel þó sjálfsagt, að hún hafi tíma til að leita sér upplýsinga, eftir því sem hún telur nauðsynlegt. En það er vitað, að það er stefnt að því að ljúka þingi í næstu viku, og æskilegt, að það megi takast. Hv. Alþ. getur ásakað raforkumálastjórnina fyrir að leggja frv. svona seint fram. En ég verð að segja það, að það eru afsakanir fyrir hendi um það, að það tókst ekki fyrr, þær afsakanir, að málið hefur verið í undirbúningi og athugun alveg fram á þetta og núna síðasta hálfan mánuðinn verið í prentsmiðjunni.

En hvað sem því líður, legg ég til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.