08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

201. mál, Landsvirkjun

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það er aðeins aths. út af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan um brtt. okkar í 2. minni hl. Hæstv. ráðh. sagði, að þessar till. orkuðu tvímælis og honum sýndist þær ekki sérlega til bóta, en bætti þó við, að það mætti vera, að hann hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir þeim. Mér virðist þessi setning ákaflega táknræn fyrir þau vinnubrögð, sem um hönd eru höfð á Alþ. þessa dagana, að hæstv. ráðh. tekur afstöðu til till., en finnst eðlilegt að bæta því við, að hann hafi e.t.v. ekki gert sér nægilega grein fyrir þeim. Er þá ekki rétt að taka sér svolítinn frest til þess að gera sér grein fyrir þeim? Að öðru leyti vil ég segja þetta um aths. hæstv. ráðh.:

Um fyrstu brtt. okkar sagði hann, að það væri alls ekki meiningin, að það skyldi ekki vera full samvinna milli Landsvirkjunar og raforkumálastjórnarinnar um þessar áætlanagerðir. Raforkumálastjórnin mundi eftir sem áður hafa með höndum slíka starfsemi utan svæðis Landsvirkjunarinnar og Landsvirkjunin mundi aðeins fjalla um þessi mál á sínu svæði og samvinna milli þessara aðila væri sjálfsögð. Mér virðist, að það liggi í augum uppi, að það sé eðlilegt að taka það fram í l. Mér virðist þetta þess vegna vera sterk meðmæli með þeirri till., sem er í 1. tölul. á þskj. 709.

Ummæli hæstv. ráðh. um þær till., sem við gerum í tölul. 2 og 3 um verðlagningarmál og samræmingu verðlags, voru á þá lund, að ég skildi ráðh. þannig, að hann væri samþykkur þeirri stefnu, sem þær fela í sér, en hins vegar taldi hann þær ekki eiga heima í þessu frv. Ég mun því skilja það svo, ef hann greiðir atkv. gegn þessu, að hann muni þá beita sér fyrir því, að flutt verði frv. hið fyrsta og þá væntanlega í upphafi næsta þings til þess að koma í kring þeirri stefnu, sem þær fjalla um.

Um brtt. okkar við 7. gr. sagði hæstv. ráðh., að það skipti ekki svo miklu máli, þótt samþykki ráðh. nægði til meiri háttar framkvæmda í raforkumálum í stað Alþ. fram að þessu, vegna þess að þetta þyrfti hvort eð er að koma fyrir Alþingi í einhverju formi, vegna þess að það þyrfti þó væntanlega lánsheimildir til þess að gera slíka hluti. En ef þetta þarf að koma til Alþ. hvort eð er, er þá ekki eðlilegt að halda því formi, sem verið hefur á þessu? Mér virðist það.

Aths. hæstv. ráðh. við till. okkar við 11. gr. skildi ég ekki og gat ekki gert mér grein fyrir þeim. Ráðh. segir, að sjálfsagt verði raforkuverði haldið niðri vegna þess, að það hafi svo mikil áhrif á vísitölu. Og þessi bremsa á raforkuverði verði til við það, að ríkið eigi fulltrúa í stjórnarnefnd Landsvirkjunarinnar, hvað sem líði trausti manna á því, að fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi áhuga á því að halda lágu verðlagi. Þetta þarf ekki að fara mörgum orðum um. Það liggur auðvitað í augum uppi, að ef það eru hagsmunir ríkisvaldsins að hafa áhrif á þetta raforkuverð, er eðlilegt, að till. okkar um það, að ráðh. staðfesti þessa gjaldskrá eins og allar aðrar gjaldskrár rafveitna í landinu, er eðlileg og ekki bara eðlileg, hún er sjálfsögð. Ég á mjög erfitt með að skilja þá afstöðu hæstv. ráðh., að hann vilji ekki fallast á þetta.

Ég skal svo fara örfáum orðum um þær brtt., sem hv. 1. minni hl. fjhn. flytur og mér virðast sumar a. m. k. til bóta. Hv. 4. þm. Norðurl. e., sem í þessum minni hl. er, flytur brtt. við 3. gr., sem við flytjum einnig töluvert umfangsmiklar breytingar við og að þeim brtt. okkar felldum mundi ég telja brtt. hans til mikilla bóta og mundi greiða þeim atkv. Við 6. gr. gerir hv. þm. einnig brtt., þar sem hann leggur til, að einnig verði heimilað að ráðast í hinar svokölluðu smávirkjanir. Ég hef lýst þeirri stefnu minni og gert grein fyrir henni við 1. umr. þessa máls, að ég tel rétt að fara nú í Búrfellsvirkjun. Ef eitthvað alveg óvænt skyldi koma upp á lokastigi þeirra athugana, sem nú fara fram, þannig að nauðsynlegt yrði að fara einhverja millileið í þessum málum, er réttast að gera sér grein fyrir því, að undirbúningur þessara svokölluðu smávirkjana er ekki á því stigi, að verkið við þær yrði hafið í sumar hvort eð er og þá gæti það komið til kasta Alþ. í haust og ég tel þess vegna, að þessi partur þessarar till. sé óþarfur. Í þessari till. er einnig fólgin takmörkun á þessari 210 þús. kw virkjun, þannig að það skuli aðeins heimilt að virkja 70 þús. kw. Það er skoðun mín, að þetta verk verði að skipuleggjast og áætlast í heild, hvort sem það er framkvæmt á 5 árum eða 10 árum eða 12 árum. Miðað við þær orkuáætlanir, sem fyrir liggja um orkunotkun á þessu svæði í framtíðinni, þá yrði fullvirkjun þessarar virkjunar lokið í okkar eigin þágu eftir svona 12–13 ár. Ég mundi telja ákaflega óhyggilegt annað ,en að skipuleggja það verk allt í einu. Hitt vil ég taka fram, eins og fram hefur komið hér, að í þessu felst auðvitað engin afstaða til hins svokallaða alúminíummáls, sem þessu er óskylt á þeim grundvelli, sem fyrir liggur, að hér eigi að ráðast í þessa virkjun, hvort sem nokkuð verður úr slíku eða ekki.

Þriðja till. hv. þm. fjallar um að fjölga í stjórn Landsvirkjunar upp í 9 menn, án þess að hlutföll raskist milli aðila frá því, sem í frv. er, og ég mundi telja þá till, til bóta. Hins vegar hef ég gert grein fyrir skoðunum mínum á verðlagningarstefnunni almennt og ég óttast, að sú till., sem er í a-lið 4. tölul. þarna um, að það skuli miðast við kostnaðarverð plús 7%, sé of þröng og ég treysti mér ekki til þess að fylgja þeirri till., — b-liðurinn, hins vegar, er að nokkru leyti í samræmi við þá till., sem við flytjum um það, að meiri háttar orkusölusamningar yfirleitt skuli háðir samþykki Alþ. Þar sem sú till. er víðtækari, sem við flytjum um þetta efni, geri ég ráð fyrir, að hún komi fyrst til afgreiðslu, en að henni felldri mundi ég styðja þessa.