08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

201. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins örlítið. — Hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Sunnl., kvartaði undan því, að hann hefði ekki skilið mínar skýringar á 11. gr., og er ég hræddur um, að það sé tilgangslaust fyrir mig að reyna að koma þannig skýringum á framfæri, sem nægja honum og eins og ég sagði áðan, eru þessar brtt. hv. framsóknarmanna þannig, að þær orka tvímælis. Þær eru ekki það veigamiklar, að þær hafi afgerandi áhrif á þetta frv. Hitt finnst mér, að það sé bara hógværð að viðurkenna það, að þær geti orkað tvímælis og hvort t.d. hagstofan eða Efnahagsstofnunin á að vera þarna aðili eða ekki, hver getur fullyrt um það, hvort er betra, og ekki heldur, þótt við frestuðum afgreiðslu málsins.

Um það að hafa samband við raforkumálastjóra og raforkumálaskrifstofuna, þá er sannfæring mín, að þannig hafi alltaf verið ætlazt til, en ég tel þess vegna, að það megi vel samþykkja þann lið brtt., til þess að það orki ekki nokkurs tvímælis, því að það hefur aldrei vakað annað fyrir og er alveg augljóst mál, að þetta samband hlýtur að eiga að vera.

Annars held ég, að það sé ástæðulaust að vera að endurtaka það, sem ég reyndi að skýra áðan, en hefur kannske ekki tekizt nægilega vel að sumra áliti. En ég vil þó taka fram í sambandi við verðjöfnun á raforku og endurtaka það, sem ég sagði, ég tel, að þetta hljóti að koma. En ég get ekki gefið nein fyrirheit um það, að það verði flutt frv. um það í haust. Þetta er mál, sem þarf að athuga, og þetta kemur fyrr eða seinna, en tímaáætlun um það hef ég ekki í dag og ég vil ekki, að það sé einhver misskilningur uppi um það, að ég hafi gefið einhver fyrirheit um, að slíkt frv. yrði, flutt í haust. E.t.v. verður það, en yfirlýsingu um það get ég ekki gefið. Og í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var hér að tala um, að hann legði ákaflega mikið upp úr því, að ég tæki fram eða öllu heldur endurtæki það, að samþykkt þessa frv., — ég get gert það fyrir hv. þm., — að samþykkt þessa frv. hefur vitanlega engn bindandi áhrif á alúminíummálið. Það er algerlega óskylt. Sá þm., sem greiðir því atkv. að virkja upp í 210 megawött í Þjórsá, er vitanlega alveg óbundinn af alúminíummálinu, ef það kemur fyrir Alþ. í haust.