08.05.1965
Efri deild: 85. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

201. mál, Landsvirkjun

Auður Auðuns:

Herra forseti. Vegna þess að hér í umr. hefur borið á góma upplýsingar, sem sagt er, að fyrir hafi legið í borgarráði í Reykjavík í sambandi við þetta mál, en eðlilega hefur málið verið þráfaldlega rætt þar, vildi ég segja nokkur orð. Ég er að vísu óviðbúin að svara þessu ýtarlega, því að mér hefur ekki gefizt tóm til að athuga þau mörgu gögn, sem þar lágu fyrir eða við borgarráðsmenn fengum afhent, og bera þau saman við þau plögg, sem við höfum fengið hér í þinginu, hvort það hafi verið eitthvað annað og meira, sem við höfum fengið, en vegna þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði um, að þar hefði verið lögð fram rekstraráætlun, veit ég ekki, hvort hann kann að eiga við það, sem ég held, að ég fari rétt með, að fjármálafulltrúi Rafveitunnar mun hafa lagt þar fram gamla áætlun, þar sem gert var ráð fyrir línu norður og fjórum virkjunarstigum og hefur verið orðin líklega um það bil ársgömul, þegar þetta var og orðin úrelt, þar sem hún var byggð á öðrum forsendum, en nú er gert. Ef ég skildi hann rétt, talaði hann um, að áætlað væri, að rafmagnsverðið í Reykjavík til neytenda þyrfti að verða þrefalt. (Gripið fram í: Það er frá stöðvarvegg.) Frá stöðvarvegg — heildsöluverðið yrði að vera þrefalt hærra, en alúminíumverksmiðjan mundi kaupa það á. Ég hef alveg misskilið hv. þm. Ég hélt, að hann hefði gert þar samanburð á því verði, sem alúminíumverksmiðjan hugsanlega mundi þurfa að greiða fyrir rafmagnið og hins vegar þeir aðrir, sem kaupa það til notkunar og þá á heildsöluverði. Ég skal þá ekki fara lengra út í það, úr því að ég hef misskilið hv. þm., en sú ályktun, sem hann minntist á, að hefði verið lögð fram í borgarráðinu, gæti e.t.v. verið þetta plagg, sem var í rauninni þegar orðið úrelt, þegar það var lagt fram þar.