10.05.1965
Neðri deild: 87. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

201. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var afgr. frá Ed. án nokkurra teljandi breyt. Hv. alþm. hafa kynnt sér frv., þar sem það hefur legið fyrir þinginu í nokkra daga. Hefur þegar verið mikið um það rætt og ritað og gæti ég þess vegna stytt mál mitt við þessa framsögu. Eigi að síður verður ekki hjá því komizt að fara nokkrum orðum um aðalatriði málsins.

Undanfarin ár hafa farið fram víðtækar rannsóknir á virkjunarstöðum landsins, þeim helztu, sem til greina koma. Lengi vel voru menn ekki á einu máli um það, hvað hagstæðast væri að gera. Rannsóknirnar hafa sérstaklega beinzt hér sunnanlands að Þjórsár– og Hvítársvæðinu og norðanlands að Dettifoss- og Laxársvæðinu. Margir staðir hafa verið athugaðir, 52 allnákvæmlega, en sérstaklega eru það 9 staðir, sem virðast koma til greina og hafa verið gerðar allýtarlegar áætlanir um þá.

Á Þjórsársvæðinu eru það 19 staðir, sem voru sérstaklega rannsakaðir, Hvítársvæðinu 18, Jökulsársvæðinu 3, Laxársvæðinu 7 og á öðrum stöðum 1. En þessir 9 staðir, sem helzt koma til greina og hafa fengið nákvæma athugun, eru jarðgufustöð í Hveragerði, Andakílsárvirkjun hefur látið framkvæma áætlun við Kláffoss í Borgarfirði, þá hefur verið gerð ýtarleg athugun á Brúará, ýtarleg rannsókn við Búrfell, ýtarleg rannsókn við Dettifoss, ýtarleg rannsókn á ýmsum virkjunarstigum í Laxá og hafa þessir virkjunarstaðir verið bornir saman til þess að gera sér grein fyrir því, hvað hentugast er.

Á bls. 15 í fskj. þessa frv: er tafla, sem sýnir nákvæmlega kostnað við hina ýmsu virkjunarstaði. Þar er tilgreint, hvað hver virkjuð kwst. kostar, þar er tilgreint, hvað hvert virkjað kw kostar, og með því að kynna sér þessa töflu fæst nokkuð gott yfirlit um það, hvaða virkjun er hagstæðust.

Þá er einnig á bls. 18–19 í þessum fskj. gerður samanburður á hinum ýmsu valkostum, sem fyrir hendi eru, annars vegar nokkrar smávirkjanir og hins vegar Búrfellsvirkjun, eftir því á hvaða stigum er virkjað.

Í töflunni, sem ég áðan nefndi, kemur fram, að í Þjórsá er hægt að virkja í fyrsta áfanga 70 þús. kw. og kostar þá hvert virkjað kw 10.500 kr., en hver kwst. 12.9 aura. Með því að virkja 70 þús. kw í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir, að virkjað verði aðeins fyrir almenna notkun, þ.e. fyrir innanlandsnotkunina. En væri hins vegar gerður samningur um orkusölu til alúminíumverksmiðju, væri virkjað í fyrsta áfanga 105 þús. kw. og þá kostar kwst. 10.3 aura og hvert virkjað kw 8.300 kr. Þegar Búrfell er fullvirkjað upp í 210 þús. kw, kostar hver kwst. 8.6 aura og virkjað kw 6.700 kr. og er þar með það langódýrasta, sem völ er á að virkja hér á landi, a.m.k. af því, sem rannsakað hefur verið.

Það þykir eðlilegt og sjálfsagt að fá heimild til þess að virkja við Búrfell allt að 210 þús. kw, þó að það sé ekki vitað, hvort úr samningum verður um alúminíumverksmiðju. Verði ekki samningar gerðir um alúminíumverksmiðju og orkusala bundin við hana, er Þjórsá eigi að síður það hagkvæmasta, sem hægt er að virkja hér fyrir Suður- og Suðvesturland allt frá Hvammsfirði og austur um Vestur- Skaftafellssýslu. 70 þús. kw virkjun verður að vísu dálítið erfið fyrstu árin, en sé litið yfir lengra árabil, 15–16 ár, þá vinnast á því 360 millj. kr. samanborið við það að ráðast í smávirkjanirnar, eins og sumir hafa viljað leggja til. En þegar 70 þús. kw virkjunin er orðin of lítil vegna almenningsnotkunar og íslenzks iðnaðar, er einnig ódýrast að bæta við vélasamstæðu, 33 þús. kw. og prjóna þannig við þessa virkjun áfram, þangað til fullvirkjað er upp í 210 þús. kw. Virkjunin endist vitanlega lengur með þeim hætti, ef landsmönnum einum, þeirra iðnaði og almenningsnotkun er aðeins til að dreifa, en verði orkusala bundin við alúminíumverksmiðju upp í 60 þús. tonna framleiðslu á ári, mundi fullvirkjað Búrfell endast til ársins 1975.

Hér á landi er nú aðeins virkjað, eins og kunnugt er, um 2% af virkjanlegu vatnsafli. Talið er, að virkjanlegt vatnsafl sé 4 millj. kw af því afli, sem er hagkvæmt að virkja, og auk þess allmiklu meira eða a.m.k. 1 millj. kw, sem er erfiðara til virkjunar.

Talið er, að um næstu aldamót þurfi landsmenn, ef ekki er um stóriðju að ræða, 500–600 kw til eigin nota og má af þessu sjá, að af miklu er að taka í orkumálum okkar, hvort sem litið er á vatnsvirkjanirnar einar og þá ekki síður, ef reiknað er með því að virkja jarðgufu, eins og tæknilega er álítið hagkvæmt, a.m.k. þar sem vatnsaflið er ekki fyrir hendi.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir samvinnu ríkisins og Reykjavikurborgar og má segja, að það sé beint framhald af því, sem verið hefur um virkjun Sogsins. Ríkið og Reykjavíkurborg eiga Sogsvirkjunina sameiginlega, sinn helminginn hvor aðili. Hér virðist því vera beint framhald á því, sem verið hefur, og út af fyrir sig eðlilegt að haga málunum þannig, ekki sízt vegna þess, að íbúar Reykjavíkurborgar, eru meira en helmingur af þeim notendum, sem koma til með að nota landsvirkjunina, a.m.k. meðan hún er ekki víðtækari en gera má ráð fyrir nú næstu árin. Og jafnvel þótt hér verði um eiginlega landsvirkjun að ræða, þannig að hinar ýmsu veitur verði tengdar saman, má reikna með því, að sá fjöldi, sem býr hér í Reykjavík, verði alltaf að helmingi til við þá, sem geta notað þessa eiginlegu landsvirkjun.

Kwst. frá Sogi og Laxá kostar nú um 20 aura, en eins og sjá má á þeim fskj., sem fylgja þessu frv., er gert ráð fyrir, að kwst. í Búrfeilsvirkjun kosti 8.6 aura. Hér er því um mikinn verðmun að ræða og dæmi um það, hversu miklu hagkvæmara það er að virkja tiltölulega stórt, heldur en smærra. Þó hefur það verið svo, að virkjun í Sogi hefur verið talin og verður að teljast hagkvæm, þrátt fyrir þennan samanburð.

Tilgangur Landsvirkjunar er sá að virkja, starfrækja mannvirki til vinnslu og flutnings á orku til almennings og iðnaðar, eins og í 2. gr. frv. segir. 2. gr. frv. var lítillega breytt í Ed., þannig að 2. tölul. gr. var felldur niður og fluttur í 3. gr. með smávægis orðabreytingum. Þessi brtt., sem samþ. var í Ed., er á þskj. 701, og breyt. voru gerðar eftir óskum nokkurra rafveitustjóra utan af landi, sem telja, að þetta orðalag henti betur og tryggi rafveiturnar úti á landi betur, en upphaflegt orðalag frv. Það var því orðið við þeim óskum, enda ekki að sjá, að það hafi spillt frv. að neinu eða tilgangi þess. Unnur brtt. við 3. gr. var samþ. í Ed. frá fulltrúum Framsfl. Það er aðeins, eins og hv. þm. geta séð, sem hafa þskj. fyrir framan sig, orðalagsbreyting, sem ekki breytir á neinn hátt meiningu gr. og spillir ekki tilgangi hennar.

Skv. 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að eignir Sogsins gangi inn í Landsvirkjunina, og gerir það vitanlega fyrirtækið sterkara, þar sem eignir Sogsins eru allverulegar og hafa verið lauslega metnar um 400 millj. kr.

Þá gerir 5. gr. ráð fyrir því, að lagt verði fram stofnframlag, 50 millj. kr. frá hvorum aðila, til þess að tryggja fjárhagslega stöðu fyrirtækisins.

1 6. gr. er gert ráð fyrir heimild til þess að virkja upp í 210 þús. kw.

Þá gerir 7. gr. ráð fyrir því, að leyfi ráðh. þurfi til þess að ráðast í byggingu nýrra aflstöðva eða aðalorkuveitna. Í hv. Ed. var að því fundið, að þessu ákvæði hefur verið breytt frá gildandi lögum, þar sem gert er ráð fyrir í þeim, að leyfi Alþ. þurfi á hverjum tíma. En jafnvel þótt Alþ. sé ekki nefnt í þessari grein, heldur aðeins talað um ráðherraleyfi, verður ekki virkjað eða ráðizt í fjárfrek fyrirtæki, án þess að Alþ. komi til. Það verður að leita heimildar til lántöku og ábyrgðar Alþ., til þess að hægt sé að ráðast í þessi fyrirtæki og þess vegna er ekki ástæða til að finna að því, þó að Alþ. hafi á þessu stigi verið fellt úr.

8. gr. kveður á um, að 7 manna stjórn verði í landsvirkjunarfyrirtækinu. Sameinað Alþ. kýs 3 menn með hlutfallskosningu, borgarstjórn Reykjavíkur kýs 3 og eignaraðilar koma sér saman um 7. manninn. Verði ekki samkomulag, skipi hæstiréttur 7. manninn, sem jafnframt sé formaður. Kjörtími stjórnarinnar skal vera 6 ár og varamenn skulu kjörnir með sama hætti.

9. gr. kveður á um ýmis framkvæmdaatriði, eins og sjá má, 10. gr. um endurskoðun og 11. gr. um verðlagningu raforkunnar.

Það kom fram í hv. Ed., að menn voru ekki alveg á einu máli um það, hvort það væri heppilegasta leiðin í sambandi við verðlagninguna, sem hér er lagt til, en að athuguðu máli held ég, að engin ástæða sé til annars, en sætta sig við þessi ákvæði. Það er gert ráð fyrir því, að Efnahagsstofnunin geri útreikninga um það, hvað eðlilegt verð er á raforkunni á hverjum tíma og landsvirkjunarstjórn ákveði svo verðið að fengnum till. Efnahagsstofnunarinnar.

Það verður eftirleiðis væntanlega eins og hingað til þannig með raforkuna, sem almenningur notar mjög mikið, að hún vegur þungt í vísitölunni, hefur áhrif á dýrtíðina og það verður þess vegna eftirleiðis eins og hingað til talið nauðsynlegt að stilla raforkuverðinu í hóf. En þetta er breyt. frá gildandi lögum að því leyti, að í Sogsvirkjunarlögunum er ákveðið, að raforkuverðið skuli miðast við kostnaðarverð að viðbættum 5%. Reynslan hefur sýnt, að kostnaðarverð að viðbættum 5% er of lítið, til þess að fyrirtæki geti byggt sig upp, til þess að það geti safnað nauðsynlegum sjóðum, til þess að það geti innt af höndum það hlutverk, sem því er ætlað, þ.e. að safna nokkru fjármagni, til þess að hægt sé að virkja og leggja fram eigið fjármagn á móti því lánsfé, sem vitanlega alltaf verður að fá, þegar ráðizt er í virkjun. Þetta ákvæði er þannig nokkru rýmra. En það leiðir af sjálfu sér, að það eru bremsur á eigi að síður, sem tryggja það, að raforkuverðinu verður að stilla í hóf, þ.e. að hafa hagsmuni almennings fyrir augum, að lita á efnahagsmálin og áhrif raforkuverðsins á þau og þá vitanlega einnig að líta á hag fyrirtækisins, sem á að starfa og kröfur eru gerðar til, að fullnægi orkuþörfinni á hverjum tíma.

Þá er gert ráð fyrir, að Landsvirkjun geri orkusölusamninga við rafmagnsveitur ríkisins, héraðsrafmagnsveitur og iðjuver innan þeirra marka, sem 2. gr. tilgreinir, en til orkusölusamninga til langs tíma við iðjufyrirtæki, sem nota meira en 100 millj. kwst., þarf Landsvirkjun leyfi ráðh. þess, sem fer með raforkumál og mega slikir samningar að dómi ráðh. ekki hafa þau áhrif, að raforkuverðið geti þeirra vegna orðið hærra til almennings, en annars hefði orðið, þannig að með þessu er tryggt, að ekki verði gerðir það óhagstæðir samningar við slík fyrirtæki, að það leiði til hækkunar á raforkuverðinu. Eins og nú er, er aðeins um eitt fyrirtæki að ræða, sem notar meira, en 100 millj. kwst. á ári, það er Áburðarverksmiðjan. Hún notar, ef hún fengi fulla orku, um 145 millj, kwst. Það var á sínum tíma gerður hagstæður samningur fyrir báða aðila við Áburðarverksmiðjuna, þótt orkuverðið til Áburðarverksmiðjunnar væri miklu lægra, en til annarra fyrirtækja, en ég sagði hagstæður fyrir báða aðila vegna þess, að Áburðarverksmiðjunni væri ætlað að nota umframorkuna og topporkuna, sem markaður hefði ekki verið fyrir, ef Áburðarverksmiðjan hefði ekki verið kaupandi að orkunni:

Ef sementsverksmiðjan verður stækkuð, sem vonandi verður, þá gæti að því komið, að hún notaði einnig meira en 100 millj. kwst. Önnur innlend fyrirtæki sjáum við ekki á stundinni, en vonandi rísa þau upp. En ef alúminíumverksmiðjan kæmi, þá notar hún vitanlega mörgum sinnum meira en þetta, en þá er það ákveðið, að orkusölusamningur, sem yrði gerður við hana, verði lagður fyrir Alþingi, þannig að greinin ætti að þessu öllu athuguðu að fullnægja óskum alþm. og tryggja það, sem ætlað er að tryggja með henni.

Þá er 12. gr., sem heimilar Landsvirkjun að taka lán og kveður á um það, hvað stjórn fyrirtækisins má ganga langt í skuldbindingum á hverjum tíma án þess að leita heimildar fyrir því.

13. gr. kveður svo á, að tollar skuli gefnir eftir af efni og vélum til virkjunarinnar og er það vitanlega nýmæli í lögum, en hlýtur að vera öllum fagnaðarefni, sem vilja fá ódýra orku, því að tollar til Búrfellsvirkjunar mundu nema mörgum tugum milljóna, ef ekki hundruðum milljóna og hefur þetta því veruleg áhrif á stofnkostnað virkjunarinnar og áhrif á orkuverðið, en hér er gengið inn á nýja braut og stefna mörkuð, sem hlýtur að gilda ekki aðeins við þessa virkjun, heldur og við aðrar virkjanir, sem á eftir kunna að koma.

Skv. 14. gr. er ríkissjóði heimilað að lána Landsvirkjuninni 100 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. ákveður.

Og skv. 15. gr. heimilast ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Landsvirkjun 1.204 millj. kr. eða sem svarar 28 millj. dollara. Gert er ráð fyrir, að erlent lán fáist til þess að byggja þetta fyrirtæki upp og hafa viðræður farið fram við Alþjóðabankann og standa vonir til, að Alþjóðabankinn veiti lán í þetta fyrirtæki, ekki sízt vegna þess að staða Íslands út á við er nú orðin þannig, að Ísland hefur traust hjá alþjóðlegum lánastofnunum.

16. gr. er almenns eðlis. Hún er um skatta og annað, sem sjálfsagt þykir að hafa í lögum, og hliðstætt því, sem hefur verið í lögum áður.

Þá er 17. gr., sem gerir ráð fyrir því, að Laxárvirkjun sameinist Landsvirkjuninni og að Laxárvirkjun geti sameinazt Landsvirkjuninni strax, ef norðanmenn óska, eða síðar, ef henta þykir. Hér liggur fyrir Alþingi frv. um Laxárvirkjun, heimild til þess að virkja í Laxá, ef norðanmenn að athuguðu máli vilja það heldur, en að sameinast Landsvirkjun og þá er gert ráð fyrir því, að ef Laxárvirkjun sameinast Landsvirkjuninni, áður en ríkið á helming í Laxárvirkjuninni, þá geti ríkið lagt fram fé til þess að tryggja áfram helmingseign í Landsvirkjuninni, en eins og nú er, þá á ríkið aðeins 35% í Laxárvirkjuninni; en Akureyrarkaupstaður 65%, en við næstu stækkun í Laxárvirkjun gerist ríkið eigandi að helming og ef sameiningin verður ekki fyrr, en það hefur skeð, þá verður ríkið eigandi að Landsvirkjuninni að helmingi af sjálfu sér, án nokkurra sérstakra aðgerða. Það er gert ráð fyrir því, að eftir að Laxárvirkjun hefur sameinazt Landsvirkjun, þá verði áfram 7 manna stjórn fyrirtækisins í hlutfalli við eignahlutdeild, þó þannig, að allir aðilar eigi a.m.k. einn mann í stjórn og með því er Laxárvirkjun tryggður a.m.k. einn maður, og ráðh. skipar formann úr hópi þingkjörinna manna, en formaður hafi tvö atkv., og er þannig tryggt, að ríkið hefur einnig helming atkvæðamagns í fyrirtækinu, eftir að þessi breyting hefur á orðið.

Þá er 18. gr., sem er almenns eðlis og samskonar og er t.d. í Sogsvirkjunarlögunum. 19. gr. er einnig almenns eðlis, svo og 20. gr., sem ekki þarf skýringa við.

Það er gert ráð fyrir því, að ef virkjuð verða aðeins 70 þús. kr. kw í fyrsta áfanga, þá verði virkjuninni lokið í árslok 1968. Verði hins vegar virkjað stærra, er gert ráð fyrir, að virkjuninni ljúki ekki fyrr en á miðju ári 1969, en að í árslok 1968 verði fullbúin ein vélasamstæða, þannig að það verði unnt að fá orku frá virkjuninni um áramótin 1968– 1969, þótt fullnaðarvirkjun verði ekki komin.

Niðurstöður rannsóknanna liggja fyrir og á þeim er þetta frv. byggt og það sýnist þess vegna ekki vera vandi að velja, eins og komið er. Það hefur verið talað um ísvandamálið og það neitar því enginn, að það er nokkurt vandamál. Það hefur alltaf verið vitað, að í íslenzkum ám og þá sérstaklega jökulám hefur verið ísrennsli. Sérfræðingar eru sammála um það, að þrátt fyrir ísinn sé Búrfellsvirkjun það hagstæðasta, sem við höfum. Hér hafa verið norskir sérfræðingar, sem athugað hafa þessi mál. Þeir hafa að vísu sagt: Þessum rannsóknum er ekki að fullu lokið. — En okkar dómur er sá, að það verði ekki um svo mikið vandamál að ræða, að það sé af þeim ástæðum ástæða til að fresta framkvæmdum við þessa virkjun. Gunnar Sigurðsson, sem hefur haft með þessi mál að gera á vegum raforkumálastjórnarinnar, hefur gefið mér skýrslu um þessi mál og tilgreint hér nokkur atriði, sem þarf að framkvæma í sambandi við ísinn. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég aðeins drepa hér á nokkuð úr þessari skýrslu. Gunnar Sigurðsson segir:

„Stífla og inntaksmannvirki eru þannig gerð, að hægt verður að skola ísnum um stíflu og áfram niður Þjórsá, þannig að ísinn safnist ekki fyrir við inntak og stífli rennslið til stöðvarinnar. Nú er verið að rannsaka þetta með módeltilraunum í rannsóknarstöð við Tækniháskólann í Þrándheimi og þó að þeim sé enn ekki lokið, þá er þegar ljóst, að þær muni bera tilætlaðan árangur.

Það er gert ráð fyrir að minnka það ísmagn, sem berst að inntaksmannvirkjunum, með ráðstöfunum ofar í ánni. Í áætlunum er gert ráð fyrir görðum til að loka álum í ánni og minnka kæliflöt hennar á fleiri máta. Og enn fremur er reiknað með snjógirðingu til að draga úr snjófoki í ána.

Miðlun verður gerð í Þórisvatni til að auka rennslið í Þjórsá, þegar vatnslítið er í ánni. Gert er ráð fyrir að draga sem mest úr krapa

myndun í vatnsvegum virkjunarinnar með því að hafa vatnshraðann það lágan, að lagnaðarís myndist á veituskurði og aðrennslisskurði virkjunarinnar.

Lokur og ristar verða hitaðar þannig, að ís myndist ekki á þeim og hindri eðlilega notkun þeirra.“

Þessi skýrsla er alllöng og hirði ég ekki að svo komnu að lesa meiri úr henni, en þeir, sem um ísvandamálið hafa fjallað, hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé vel yfirstíganlegt og í áætluninni um virkjunina er gert ráð fyrir kostnaði, sem af ísvandamálinu leiðir. Þá er gert ráð fyrir þeim kostnaði í áætluninni, sem leiðir af varastöðvum og og nokkru leyti rekstri þeirra, áætluðum rekstrartíma, en varastöðvarnar þurfa að vera til, ekki aðeins vegna ístruflana, heldur einnig vegna bilana, sem kynnu að koma upp í stöðinni og einnig það, að vegna varastöðvanna dugir ein lina frá virkjuninni, en þyrftu annars að vera tvær. En með þessu öllu er reiknað í þeim áætlunum, sem fram hafa farið.

Ég hef hér stiklað aðeins á stóru í stóru máli, en vegna þess að hv. alþm. hafa kynnt sér málið og um það hefur verið mikið skrifað, þá tel ég ekki við þessa 1. umr. ástæðu til að hafa framsöguna lengri. Ég tel, að það sé aðalatriði þessa máls, að á bak við það liggja ýtarlegar rannsóknir færustu manna og að sérfræðingarnir eru sammála um, að þrátt fyrir ístruflanir, sem geta orðið, þá er þetta hagstæðasti virkjunarstaðurinn.

Herra forseti. Ég legg til að, að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.