11.05.1965
Neðri deild: 88. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

201. mál, Landsvirkjun

Frsm. 2. minni hl (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég mun nú gera grein fyrir brtt. mínum við frv. í stuttu máli. Mér þykir einsýnt, að það sé tilgangslítið að halda hér uppi löngum umr. eða leggja hér fram fsp., sem mættu verða eitthvað til upplýsinga í þessu mikla máli. Það þykir ekki lengur vera tími til þess að standa þannig að afgreiðslu málsins, að hægt sé að veita þær upplýsingar, sem um er beði, eða fá þær umr. fram hér, sem mættu verða til þess að skýra málið. Ég vek aðeins athygli á því, að þrátt fyrir ítrekaða beiðni hefur fjhn. ekki getað fengið rekstraráætlun fyrir þetta virkjunarfyrirtæki. Mjög lauslegar upplýsingar, sem þar voru gefnar og áttu að koma í stað rekstraráætlunar, eru fjarri því að geta svarað þeim spurningum, sem svarað hefði verið með eðlilegri rekstraráætlun, en það hefur sem sagt ekki fengizt fram, að slík rekstraráætlun yrði lögð á borðið. Það sama er að segja um greiðsluáætlun, sem þó skiptir mjög miklu máli í sambandi við þetta mikla fyrirtæki, hvernig greiðslum þess muni verða háttað fyrstu árin, þegar búast má við talsvert þungum gjöldum hjá fyrirtækinu og meiri útgjöldum, en tekjum af raforkusölu. Upplýsingar um þetta hafa ekki heldur fengizt. Það sama er að segja um upplýsingar varðandi ráðgert raforkuverð frá fyrirtækinu. Þær upplýsingar hafa ekki heldur fengizt. Og eins og hér hefur komið fram í umr., er augljóst, að byggingaráætlanir, sem fyrir liggja, eru mjög á reiki og erfitt á þær að treysta.

Á þskj. 751 flyt ég fimm brtt. Þær eru sömu till. og þm. Alþb. fluttu um þetta mál í Ed.

1. brtt., sem er við 3. gr., miðar að því að ákveða það skýrt og skilmerkilega, að þessi Landsvirkjun eigi að vera raunveruleg landsvirkjun, en ekki aðeins virkjun fyrir tiltekinn landshluta, en það teljum við Alþb: menn að sé eðlilegt, að þessu mikla fyrirtæki verði ætlað það verksvið að ná til landsins alls.

2. brtt. mín á þskj. 751 miðar að því að takmarka heimildina samkv. 6. gr. frv. um stærð orkuversins við 70 þús. kw aflstöð sem fyrsta áfanga að fullvirkjun Þjórsár við Búrfell. En það hefur komið hér fram, að verði virkjað á þessum stað fyrir Íslendinga sjálfa, mundi 1. áfangi virkjunarinnar verða af þessari stærð. Í þessari till. leggjum við einnig til, að Landsvirkjunin fái heimild til að ráðast í aðrar virkjanir, minni en fleiri, ef nánari athugun málsins bendir á, að hagkvæmara væri að hverfa að því ráði.

3. brtt. mín er um breytingar á stjórn fyrirtækisins, að stjórnarnm. verði fjölgað úr 7 í 9. Ég tel, að hér sé um svo mikið fyrirtæki að ræða, að það sé eðlilegt, að það séu 9 menn í stjórn þess og t.d. að öllum flokkum hér á Alþ. og í borgarstjórn sé gefinn alveg ótvíræður réttur til þess að eiga fulltrúa í þessari stjórn.

4. brtt. mín á þskj. 751 er um verðlagningarákvæðin í frv., en þar legg ég til, að sama regla verði látin gilda áfram um verðlagningu á raforku frá raforkuveri þessu eins og verið hefur um raforku frá Soginu, þó hækkuð nokkuð, þannig að heimiluð verði 7% álagning í stað 5%, sem verið hefur Og í þessari till. er einnig d-liður, um það, að orkusölusamningar við erlenda aðila skuli háðir samþykki Alþingis.

5. till. er svo aðeins til samræmingar við till. 3 á þskj.

Fengjust þessar brtt. samþykktar, ynnist það, að því yrði í fyrsta lagi slegið föstu, að þessi Landsvirkjun væri þá fyrirhuguð sem virkjun fyrir landið allt. Í öðru lagi væri því slegið föstu, að virkjunin væri ætluð fyrir þarfir landsmanna einna. Og í þriðja lagi væri því slegið föstu, að í meginatriðum skyldu sömu reglur gilda áfram um verðlagningu á raforku frá raforkuveri eins og gilt hafa að undanförnu. Þetta tel ég mikilvægustu ákvæðin, sem þyrftu að fást fram í sambandi við afgreiðslu þessa frv.

Ég vil svo ekki, eins og tíma er orðið háttað nú, lengja frekar umr. um þetta mál, en tel miklu skipta, að þessar till., sem ég flyt á þessu þskj., nái fram að ganga.